mobile navigation trigger mobile search trigger
19.07.2016

Þegar Íslandsmótið í knattspyrnu er hálfnað

Gengi Fjarðabyggðar, Leiknis og sameiginlegs kvennaliðs með Hetti hefur verið skrykkjótt í sumar. 

Þegar Íslandsmótið í knattspyrnu er hálfnað
Lið Leiknis

Þegar fyrri umferð Inkasso deildar karla ( B-deild ) er lokið standa mál þannig að lið Fjarðabyggðar er í 7. sæti með 13 stig, þrír sigrar, fjögur jafntefli og fjögur töp. Liðið hefur skorað 18 mörk og fengið á sig 18. Lið Leiknis er í 11. sæti með 7 stig, tveir sigrar, eitt jafntefli og átta töp. Liðið hefur skorað 12 mörk og fengið á sig 19.  

Þrátt fyrir að vera í ásættanlegri stöðu í deildinni miðað við spádóma fyrir mót, þá hefur lið Fjarðabyggðar í raun verið nokkuð lánlaust, en í a.m.k. þremur leikjum af ellefu hefur liðið misst niður forskot í jafntefli eða tap á síðustu 5 til 10 mínútum leikjanna.  
Gengi Leiknis hefur verið nokkuð skrykkjótt en eftir skelfilega byrjun þar sem liðið tapaði fyrstu fimm leikjunum, vann liðið tvo leiki í röð. Eftir það komu þrír tapleikir en í síðasta leik gerði liðið svo jafntefli. Leiknismenn hafa einnig verið nokkuð lánlausir og eiga tvímælalaust meira inni en staða þeirra segir til um. 

Kristófer Páll Viðarsson er markahæstur Leiknismanna með 4 mörk en Víkingur Pálmason er markahæstur í liði Fjarðabyggðar með 5 mörk.  

Í 1.deild kvenna ( B-deild ) hefur sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar ekki gengið nægjanlega vel.  Liðið hefur leikið fimm leiki, unnið einn, gert eitt jafntefli og tapað þremur. Liðið hefur einungis skorað 4 mörk og skiptist markaskorun systurlega á milli fjögurra leikmanna.