mobile navigation trigger mobile search trigger
28.04.2016

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2015

Rekstrarafkoma Fjarðabyggðar er á heildina litið góð, að því er fram kemur í ársrekningi sveitarfélagsins fyrir árið 2015 sem lagður var fram í bæjarstjórn í dag. Lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð fjórum árum fyrr en upphaflega var áætlað.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2015
Myndin er úr Mjóafirði.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar tók ársuppgjör sveitarfélagsins fyrir árið 2015 til fyrri umræðu í vikunni sem leið. Rekstrarafkoma er á heildina litið góð, auk þess sem lögbundnu skuldaviðmiði var náð fjórum árum fyrr en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Skuldaviðmið A og B hluta nam 141% í lok ársins og er því komið undir ákvæði sveitarstjórnarlaga um skuldaviðmið.

Páll Björgvin Guðmundssonar, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að rekja megi þessa jákvæðu þróun til þess að mikill kraftur er í atvinnulífi sveitarfélagsins. Það hafi skilað sér í auknum tekjum til sveitarsjóðs. „Þetta aukna svigrúm hefur verið nýtt markvisst og hafa kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagins unnið saman að því að halda vel um reksturinn. Samhliða hefur verið samstaða um, að halda uppi góðri þjónustu til fræðslu-, félags-, íþrótta- og æskulýðsmála, en 81% skatttekna var ráðstafað til þeirra á árinu 2015.“

Góðar framtíðarhorfur

Tekjugrunnur sveitarfélagsins byggir á öflugum atvinnurekstri í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum, sem gefur að sögn Páls fyrirheit um góðar framtíðarhorfur. „Mikilvægt er skuldaviðimið sveitarfélagsins lækki enn frekar svo að skapa megi aukið svigrúm til að takast á við óvæntar sveiflur í rekstri sveitarfélagsins annars vegar og fjárfestingar í samfélagslegum innviðum hins vegar. Núverandi árangur og sterkur tekjugrunnur gefur fyrirheit um kraftmikið samfélag til framtíðar litið líkt og áður“.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta

Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 582 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 29 millj. kr. Fjárfesting í samstæðu A og B hluta umfram söluverð rekstrarfjármuna, nam samtals 653 millj. kr. á árinu 2015 samanborið við 533 millj. kr. árið áður. Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja og leikskólabyggingar.
Mikilvægt er að sögn Páls, að afgangur sé af reglulegri starfsemi svo að greiða megi áfram niður skuldir og fjárfesta frekar í innviðum samfélagsins. Þjónustuþarfir fari ört vaxandi m.a. í rekstri leikskóla og hafnarstarfsemi.

Skuldir og skuldaviðmið

Afborganir langtímalána námu 573 millj. kr. á árinu og afborganir leiguskuldbindinga námu 744 millj. kr. á árinu eða samtals 1.317 millj. kr. Tekin voru ný langtímalán að upphæð 771 millj. kr. en Fjarðabyggð leysti tíl sín og endurfjármagnaði rekstrarleigusamning um Fjarðabyggðahöllina á árinu.

Samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga má þetta hlutfall nema að hámarki 150% og skal því markmiði náð fyrir árið 2022. Skuldaviðmið Fjarðabyggðar og stofnana lækkaði úr 157% í 141% á árinu 2015 og hefur þessu marki því verið náð. Það tókst reyndar fjórum árum fyrr en gert var ráð fyrir, en upphaflega áætlanir sveitarfélagsins settu markið við árslok 2019.

Staða A hlutans

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2015 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram. Að sögn Páls þarf þó rekstur A hluta að batna enn frekar. „Við þurfum að geta tekist á við óvæntar sveiflur í tekjum eða gjöldum sveitarfélagsins, án þess að það komi niður á fjárfestingum í innviðum sveitarfélagsins. Þetta þýðir, að þó að okkur hafi tekist að lækka skuldaviðmið niður fyrir lögbundið hámark, verðum við að vinna áfram að rekstrarlegri hagræðingu og skuldalækkun sveitarfélagsins.

Sjá ársreikning Fjarðabyggðar 2015 (PDF)