mobile navigation trigger mobile search trigger
27.04.2017

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2016 tekinn til síðari umræðu í bæjarstjórn

Skuldaviðmið sveitarfélagsins hefur lækkað um tæp 50% frá árinu 2010 sem er töluvert umfram áætlanir.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2016 tekinn til síðari umræðu í bæjarstjórn
Mynd úr Stöðvarfirði

Rekstrarafkoma Fjarðabyggðar er á heildina litið góð, að því er fram kemur í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2016 sem lagður var fram til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 27.apríl. Lækkun skuldaviðmiðs er umfram áætlanir.

Skuldaviðmið A og B hluta nam 128% í lok árs og er því komið töluvert undir ákvæði sveitarstjórnarlaga um skuldaviðmið. Til samanburðar var skuldaviðmiðið 141% við lok ársins 2015 og 157% árið 2014. Skuldaviðmiðið hefur lækkað um tæp 50% frá árinu 2010 enda hafa verið greiddar niður skuldir á þessu tímabili sem nema 4,3 milljörðum kr. að nafnvirði.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að rekstur sveitarfélagsins sé í samræmi við áætlanir að undanskildri hækkun lífeyrisskuldbindinga sem voru um 163 millj. kr. umfram áætlanir. Að öðru leyti sé reksturinn að ganga nokkuð vel og töluverðar fjárfestingar m.a. í hafnarmannvirkum og skólahúsnæði en þær námu um 930 millj. kr á árinu 2016. Hann hefur trú á því að reksturinn vegna ársins 2017 verði í jafnvægi, en þó geti sterkt gengi ísl. krónunnar til skemmri tíma sett strik í reikninginn þar sem umsvifin í sveitarfélaginu tengjast meira og minna útflutningi og útflutningsgreinum.

Til framtíðar litið er það sterkur tekjugrunnur, sem byggður er meðal annars á sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum sem gefur líkt og áður fyrirheit um kraftmikið samfélag.

Rekstrarniðurstöður A og B hluta

Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 378 millj. kr. en rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 65 millj. kr.

Fjárfesting í samstæðu A og B hluta umfram söluverð rekstrarfjármuna, nam samtals 896 millj. kr. á árinu 2016 samanborið við 653 millj. kr. árið áður. Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja og leikskólabyggingar líkt og á síðasta ári. Páll segir að fjárfestingar hafi verið töluverðar m.a. í nýjum leikskóla í Neskaupstað sem nú sé kominn í notkun. Þá séu einnig fjárfestingar í hafnarmannvirkjum enda umsvif sjávarútvegsfyrirtækja í Fjarðabyggð stöðugt að aukast. Sveitarfélagið hafi lagt sig fram um að taka ekki lán á undanförnum árum til fjárfestinga enda hafi skuldaviðmiðið lækkað umfram áætlanir. Samtals nema fjárfestingar frá árinu 2010 um 3,6 milljörðum kr.

Tekjur og gjöld

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 6.209 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 4.654 millj. kr. Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 5.830 millj. kr. árið 2015.

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 5.142 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 4.296 millj. kr. Til samanburðar voru rekstrargjöld 4.585 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 3.920 millj. kr árið 2015. Aukninguna má að miklu leyti rekja til lífeyrisskuldbindinga sem hækkuðu um 177 millj. kr. á milli ára.

Eignir og skuldir

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2016 samtals að fjárhæð 12.621 millj. kr., þar af 11.043 millj. kr. fastafjármunir. Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar lækkuðu um 168 millj. kr. á milli ára, en afborgarnir langtímalána námu 573 millj. kr.

Staða A hluta

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2016 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram. Þó Fjarðabyggð hafi náð að lækka skuldaviðmiðið töluvert niður fyrir lögbundið hámark er mikilvægt að áfram verði unnið að rekstrarlegri hagræðingu og lækkun skulda sveitarfélagsins. Rekstur A hluta þarf að bæta og segir Páll að ávallt sé verið að skoða leiðir til þess að bæta reksturinn, en að sama skapi sé mikilvægt að bjóða upp á góða þjónustu á sem flestum sviðum í sveitarfélaginu.

Nánari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri í síma 895-6810 og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2016 (PDF)