mobile navigation trigger mobile search trigger
22.03.2018

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2017 - Fyrri umræða í bæjarstjórn

Ársreikningur Fjarðabyggðar fyrir árið 2017 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar þann 22. mars 2018, en fyrir liggur ársreikningurinn samþykktur og áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Áætlað er að síðari umræða um ársreikninginn fari fram fimmtudaginn 5.apríl nk, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2017 - Fyrri umræða í bæjarstjórn

Rekstrarafkoma sveitarfélagsins var umfram væntingar á árinu 2017 að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra Fjarðabyggðar “Rekstrarafgangur samstæðu (A og B hluta) var 486 millj. kr. og 10 millj. kr. í sveitarsjóði (A-hluta). Hærri tekjur og hlutfallslega minni kostnaður, skýra að stórum hluta frávikin frá fjárhagsáætlun“ segir Páll. 

Páll Björgvin segir að stærstu málaflokkarnir séu fræðslu og uppeldismál „Til hans runnu 2.300 millj. á árinu 2017 eða 54% af skatttekjum. Íþrótta- og æskulýðsmál eru annað stærsta verkefni sveitarfélagsins en til þeirra mála var varið um 708 millj. kr. Til félagsþjónustu var veitt 425 millj. kr. og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks sem sveitarfélagið tók yfir af ríkinu árið 2011“ Framkvæmdir eru einnig stór þáttur að sögn Páls,  „Framkvæmt var fyrir um 1.000 millj. kr. þar af fyrir 600 millj. kr. í hafnarmannvirkjum, 136 millj. kr. í gatnakerfi, 135 millj. kr. í skólahúsnæði og 55 millj. kr. í tækjum"

Vel hefur gengið að ná niður skuldahlutfalli Fjaraðbyggðar á undanförnum árum. Hlutfall skulda og skuldbindinga (skuldaviðmið) er nú 114% af heildartekjum í samstæðureikningi sveitarfélagsins, en skv. lögum má hlutfallið ekki vera hærra en 150%.  „Við erum afar ánægð með að skuldaviðmiðið hefur lækkað hratt á síðustu árum, þar sem umsvif í sveitarfélaginu hafa leitt til hærri tekna um leið og skuldir hafa verið greiddar markvisst niður. Afborganir ásamt vaxtagreiðslum voru 825 millj. kr. á árinu 2017.“ bætir Páll Björgvin við.

Á árinu 2017 voru hjúkrunarheimilin Hulduhlíð og Uppsalir felld inn í samstæðureikning Fjarðabyggðar og hefur það nokkur áhrif á talnaefni ársreikningsins, þá sér í lagi á samanburð við fyrri ár. Þessari breytingu eru gerð skil í skýringum með ársreikningi. Þá hefur uppgjör vegna lífeyrisskuldbindinga á grundvelli samkomulags Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélag hins vegar, áhrif á niðurstöðu ársreikningsins.

Eins og áður sagði var rekstrarafkoma sveitarfélagsins árið 2017 jákvæð um 486 millj. kr. samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins, en fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum gerði ráð fyrir 118 millj. kr. rekstrarafgangi. Rekstrarafkoma A hluta var jákvæð um 10 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 132 millj. kr. rekstrartapi.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt (EBITDA) var jákvæð um 1.321 millj. kr. á árinu 2017 eða um 19% í hlutfalli af heildarrekstrartekjum. Í A hluta nam EBITDA 516 millj. kr. á árinu 2017 eða um 10% í hlutfalli af heildarrekstrartekjum.

Fjármagnsgjöld námu 297 millj. kr. í samstæðu A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 325 millj. kr. Fjármagnsgjöld A hluta námu 267 millj. kr. en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir 236 millj. kr.

Handbært fé frá rekstri nam 1.092 millj. kr. á árinu 2017 í samstæðu A- og B hluta og í A hluta nam handbært fé frá rekstri 505 millj. kr.

Skuldir og skuldbindingar samstæðu A- og B hluta námu í árslok 2017 um 8.947 millj. kr. og þar af voru skuldir við lánastofnanir og leiguskuldir 5.132 millj. kr. Skuldaviðmið skv. reglugerð um fjárhagsleg viðmið fyrir samstæðureikning A og B hluta er 114% í árslok 2017 og skuldahlutfall 126,8%. Samkvæmt lögum skal hlutfallið ekki vera hærra en 150%.

Eigið fé var jákvætt í árslok 2017 um 4.248 millj. kr. í samstæðu A- og B. Eigið fé A hluta var jákvætt um 386 millj. kr. í árslok 2017.

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2017 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram í góðri afkomu ásamt því að rekstur sveitarfélagsins telst í góðu jafnvægi. Skuldir eru enn nokkuð háar, en þær eru greiddar niður markvisst m.v. upphaflegar áætlanir. Bæta þarf rekstur A-hluta enn betur til að auka sveigjanleika, m.a. til að takast á við hugsanlegar sveiflur í tekjum sem og frekari fjárfestingar í innviðum samfélagsins.

„Ekkert liggur fyrir um annað, en að fjárhagur sveitarfélagsins styrkist enn á næstu árum þar sem íbúum fjölgar milli ára, ásamt því að samfélag og atvinnulíf eflist með hverju árinu sem líður. Sterkur tekjugrunnur, sem byggður er meðal annars á sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum, gefur fyrirheit um kraftmikið samfélag til framtíðar litið líkt og áður.“ segir Páll að lokum.

Nánari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Ársreikning Fjarðabyggðar 2017 má finna hér ásamt greinagerð sem má finna hér.