mobile navigation trigger mobile search trigger
28.04.2016

Ásmundur Hálfdán Evrópumeistari í keltneskum fangbrögðum

Reyðfirðingurinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson stóð uppi sem sigurvegari á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fram fór í Brezt Frakklandi í síðustu viku.  Ásmundur Hálfdán varð Evrópumeistari í „Backhold“og hafnaði í þriðja sæti í „Gouren“ í +100 kílóa flokki.

Ásmundur Hálfdán Evrópumeistari í keltneskum fangbrögðum
Ásmundur Hálfdán ásamt Marín Laufey Davíðsdóttur sem varð Evrópumeistari kvenna í Backhold

Tveir fulltrúar frá UÍA tóku þátt í mótinu, en auk Ásmundar átti Hjörtur Elí Steindórsson sæti í landsliði Íslands í glímu.

Ásmundur fór lengri leiðina að sigrinum, tapaði einni glímu og keppti við sigurvegara hins riðilsins í undanúrslitum.

Úrslitaglíman sjálf var ekki auðveld, en Ásmundur vann hana engu að síður þrjú núll. Þessi sigur Ásmundar er síðasta rósin í hnappagat hans þennan veturinn, en honum hefur gengið afar vel í glímunni í vetur og er meðal annars handhafi Grettisbeltisins eftirsótta.