mobile navigation trigger mobile search trigger
07.10.2015

Beint flug á milli Lundúna og Egilsstaða kynnt

Tanni Travel og Fjallsýn undirrituðu í dag umboðssamning við bresku ferðaskrifstofuna Discover the World vegna sölu og markaðssetningar á beinu flugi á milli Lundúna og Egilsstaða. Fyrsta vélin fer í loftið 28. maí á næsta ári.

 

Beint flug á milli Lundúna og Egilsstaða kynnt
Frá undirrituninni á Egilsstaðarflugvelli í dag. Rúnar Óskarrson, Fjallasýn, Clive Stacey, Discover the World og Díana Mjöll Sveinsdóttir, Tanna Travel takast í hendur að undirritun lokinni.

Kynning var á þessari nýju og áhugaverðu flugleið í flugstöðinni á Egilsstaðarflugvelli í dag, en flogið verður tvisvar í viku til 24. september 2016, með möguleika á vetrarflugi ef vel tekst til. Einnig var fyrirhugað flug á milli Egilsstaða og Keflavíkur kynnt, sem nýtast mun farþegum á flugleiðinni.

Sala hefst á næstu vikum, en Discover the World er með stærstu alþjóðlegu ferðaskrifstofum sem sérhæfa sig í Íslandsferðum. Fulltrúar ferðaskrifstofunnar hafa á undanförnum mánuðum kynnt sér aðstæður á Austurlandi og rætt við aðila innan ferðaþjónustunnar.

Beint flug á milli Egilsstaða og London verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu sem og fyrir landið allt. Efling alþjóðlegs flugs um Egilsstaðaflugvöll er eitt af sóknaráætlunarverkefnum landshlutans, slíkar fyrirætlanir eiga sér langa sögu á Austurlandi en aðstæður nú eru sérstaklega hagstæðar. Skiptir þar mestu sá mikli fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands, fyrirsjáanleg fjölgun þeirra á næstu árum og áherslur stjórnvalda á að dreifa þeim betur um landið.