mobile navigation trigger mobile search trigger
10.07.2018

Eistnaflug hefst á morgun

Rokkhátíðin Eistnaflug hefst í Neskaupstað á morgun, miðvikudaginn 11. júlí og stendur fram á sunnudag. Eistnaflug er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan sumarið 2005 og er þetta því í fjórtánda hátíðin sem fram fer í ár. 

Eistnaflug hefst á morgun

Eistnaflug er rómuð víða um heim sem afar athyglisverð tónlistarhátíð. Síðan 2005 hefur hátíðinni vaxið fiskur um hrygg og er orðinn að fjögurra daga tónlistarhátíð, þar sem metal-, harðkjarna-, pönk-, rokk- og indí-bönd deila saman sviði. 

Hátíðin í ár mun fara fram í Íþróttahúsinu í Neskaupstað en þar er undirbúningur nú í fullum gangi. Dagskrá Eistnaflugs 2018 er afar þétt og góð og hefjast herlegheitin kl. 16:30 miðvikudaginn 11. júlí þegar Norðfirska pönksveitin DDT Skordýraeitur stígur á stokk og verður þétt dagskrá alla daga sem lýkur ekki fyrr en aðfaranótt sunnudags. Meðal annara hljómsveita sem koma fram má nefna færeysku þungarokkarana í Týr, GusGus, Kreator, Sólstafi, Glerakur ásamt mörgum fleirum. Nánari upplýsingar um dagskrána má finna hér. 

Við hvetjum fólk til að tryggja sér miða á hátíðina og mæta þessa frábæru tónlistarveislu í Neskaupstað. Og munum; Það er bannað að vera fáviti!