mobile navigation trigger mobile search trigger
07.03.2017

Fjarðabyggð - Heilsueflandi samfélag

Miðvikudaginn 8. mars skrifa Fjarðabyggð og Embætti landlæknis undir samning um að Fjarðabyggð verði heilsueflandi samfélag.

Fjarðabyggð - Heilsueflandi samfélag
Að undirskrift lokinni

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, og Birgir Jakobsson, landlæknir, munu skrifa undir samninginn í Fjarðabyggðarhöllinni kl. 16:00. Í tilefni af því munu stofnanir sveitarfélagsins vekja athygli á heilsueflingu í vikunni á eftir. Kjörbúðirnar á Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði verða með tilboð á heilsutengdum vörum og Krónan vekur athygli á ýmsu sem er heilsueflandi. Frítt verður í sund í sundlaugunum í Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði og í ræktina í Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði á undirskriftardaginn. Jafnframt verður boðið upp á tilboð á kortum í rækt og sund í vikunni sem fer á eftir. Tilboðin má skoða hér fyrir neðan.

Heilsueflandi samfélag er samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun. Í slíku samfélagi er jafnframt lögð áhersla á að bæta félagslegt og manngert umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði og á margskonar forvarnar- og heilsueflingarstarf til þess að draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma. 

Dæmi um hluti sem geta haft áhrif á heilsuhegðun fólks eru samgöngur, aðgengi að byggingum og þjónustu, heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, skólasamfélagið, aðbúnaður eldri borgara, félagsleg þjónusta, forvarnir og öryggismál, æskulýðs- og íþróttastarf, hönnun hverfa og bygginga og skipulagsmál almennt. Hvert samfélag getur valið sína leið til heilsueflingar en stjórnsýsla, einstaklingar og umhverfi móta samfélagið í sameiningu. Leiðin getur t.d. byggst á því að samfélög styðjist við opinberar ráðleggingar um mataræði þegar ákvarðanir eru teknar um næringu íbúa, t.d. varðandi skólamáltíðir og tryggja gott aðgengi að hollri matvöru í stofnunum.

Það þarf einnig að huga að skipulagi og hönnun sem ýtir undir hreyfingu, t.d. með göngu- og hjólreiðastígum, grænum svæðum og leiksvæðum. Einnig að tryggja gott framboð og aðgengi að skipulagri hreyfingu fyrir íbúa á öllum aldri og bjóða tækifæri til að þroskast í leik og starfi.

Í vikunni verður fjallað nánar um verkefnið.

Frítt í sund og rækt 8. mars - Auglýsing

Tilboð í sund og rækt vikuna 8.-15. mars - Auglýsing