mobile navigation trigger mobile search trigger
28.07.2017

Framkvæmdir í Fólkvangi Neskaupstaðar

Lagfæring gönguleiðar út í Urðum að Páskahelli hefur staðið yfir síðustu daga. Sérfræðingur í göngustígagerð á vegum Umhverfisstofnunnar, Paul Stolker, hefur haft umsjón með verkefninu og honum til aðstoðar sjö aðilar á vegum Seedssamtakanna.

Framkvæmdir í Fólkvangi Neskaupstaðar

Paul Stolker vinnur öllu jafna við gerð og lagfæringu göngustíga á Skoskahálendinu

Lagt er upp með að vinna með landið, drena vatn frá stígnum þar sem hann liggur í gegnum mýrlendi, gera vatnsrásir í gegnum stígana þar sem við á, klippa gróður þar sem hann nær út á gönguleiðina og margt fleira.

Mikið hefur áunnist á þeim stutta tíma sem hópurinn hafði til verksins og hefur veðurblíða síðustu daga spilað þar stórt hlutverk. Sökum rigninga sl. tvo daga náðist þó ekki að fullklára framkvæmdir fyrir komandi helgi og því eru sum svæðanna ekki komin í það stand sem fyrirhugað var. Úr því verður bætt í næstu viku.

Allir þeir sem fara um svæðið eru beðnir að sýna framkvæmdunum biðlund. Ásýnd svæðanna í kringum stíganna er sem stendur á viðkvæmu stigi en á næstu mánuðum mun bæði gróður og stígar taka á sig mun betri ásýnd. 

Nánari upplýsingar um framkvæmdirnar veitir umhverfisstjóri í síma 470 9000.