mobile navigation trigger mobile search trigger
12.06.2018

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar

Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar, sem haldinn var í Breiðdalssetri í Breiðdal í gær, var kosið í bæjarráð og höfuðnefndir sveitarfélagsins auk þess sem forseti bæjarstjórnar og formenn nefnda voru kjörnir.  Þá samþykkti bæjarstjórn að  starf bæjarstjóra yrði auglýst laust til umsóknar. 

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar
Ný bæjarstjórn kom saman á Breiðdalsvík í gær. Fremri röð frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jón Björn Hákonarsson, forseti bæjarstjórnar (B), Eydís Ásbjörnsdóttir (L), Sigurður Ólafsson (L), Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir (L), og Dýrunn Pála Skaftadóttir (D). Aftari röð frá vinstri: Ragnar Sigurðsson (D), Einar Már Sigurðarsson (L), Rúnar Gunnarssonar (M) og Pálína Margeirsdóttir (B).

Á fundinum var Jón Björn Hákonarson kosinn forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir formaður bæjarráðs. Ásamt henni skipa bæjarráð Jón Björn Hákonarson og Jens Garðar Helgason.   Vegna sameiningar sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps liggur fyrir að endurnýja þarf samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar auk erindisbréfa fastanefnda.  Afgreiddi bæjarstjórn samþykktina ásamt erindisbréfum til síðari umræðu bæjarstjónar og frekari vinnslu bæjarráðs. 

Í bæjarstjórn kjörtímabilið 2018 – 2022 sitja fyrir hönd Framsóknarflokks og óháðra þau Jón Björn Hákonarson og Pálína Margeirsdóttir, fyrir hönd Fjarðalistans þau Eydís Ásbjörnsdóttir, Sigurður Ólafsson, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir og Einar Már Sigurðarsson, fyrir hönd Sjálfstæðisflokks þau Jens Garðar Helgason og Dýrunn Pála Skaftadóttir, og fyrir hönd Miðflokks Rúnar Már Gunnarsson.

Sigurður Ólafsson, Hjördís Helga, Einar Már Sigurðsson og Rúnar Már Gunnarsson eru öll að taka sæti í bæjarstjórn í fyrsta skipti en Hjördís og Einar hafa verið varabæjarfulltrúar sl. kjörtímablil. 

Meirihluta bæjarstjórnar mynda Framsóknarflokkur og óháðir og Fjarðalisti og undirrituðu oddvitar framboðanna málefnasamning fyrir upphaf bæjarstjórnarfundar en samkomulagið er hægt að nálgast hér: Málefnasamkomulag Fjarðalista og Framsóknarflokks og óháðra 2018 til 2022

Samið var við Pál Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóra, um að sinna áfram starfi bæjarstjóra til 30. júní 2018.

Fleiri myndir:
Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar
Nýr meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar við undirritun málefnasamkomulags í gær. Sitjandi: Jón Björn Hákonarsson (B) og Eydís Ásbjörnsdóttir (L). Aftari röð frá vinstri: Pálín Margeirsdóttir (B), Sigurður Ólafsson (L), Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir (L) og Einar Már Sigurðarsson (L).