mobile navigation trigger mobile search trigger
23.03.2018

Kjósum um sameiningu 24. mars

Laugardaginn 24. mars 2018 verður kosið um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Samstarfsnefnd á vegum sveitarfélaganna hefur undanfarið undirbúið tillögu að sameiningu, safnað upplýsingum og byggt upp áætlanir sem fela í sér hvað gerast muni, verði sameining samþykkt.

Kjósum um sameiningu 24. mars
Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps og Jón Björn Hákonarsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Kjósum um sameiningu 24. mars

Laugardaginn 24. mars 2018 verður kosið um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Samstarfsnefnd á vegum sveitarfélaganna hefur undanfarið undirbúið tillögu að sameiningu, safnað upplýsingum og byggt upp áætlanir sem fela í sér hvað gerast muni, verði sameining samþykkt. Þessi tillaga hefur verið kynnt íbúum beggja sveitarfélaga á kynningarfundum sem haldnir voru í Breiðdalhreppi og í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Auk þess hefur kynningarefni legið fyrir á heimasíðum sveitarfélagana frá því í janúar.

Samstarfsnefndin er sammála um að sameining feli í sér augljósa kosti fyrir svæðið í heild. Ljóst er að talsverðir fjármunir munu fylgja með frá hinu opinbera ef af sameiningu verður, alls um 800 milljónir og mun það nýtast til að greiða niður skuldir beggja sveitarfélaga og til uppbyggingar innviða í Breiðdalshreppi. Þá leggur samstarfsnefndin einnig áherslu á stuðning við búskap og uppbyggingu í dreifbýli nýs sveitarfélags. Þetta á við um núverandi búskap á svæðinu jafnt sem frekari uppbyggingu í dreifbýli til að mynda ljósleiðaravæðingu

Með sameiningu verður til stórt og öflugt sveitarfélag með tæplega 5000 íbúa og stærð þess verður 1615 ferkílómetrar. Nýtt sveitarfélag yrði það 10 fjölmennasta og tuttugasta víðfeðmasta sveitarfélag landsins. Í báðum sveitarfélögum er að finna öfluga atvinnustarfsemi og góða innviði sem koma til með að nýtast nýju sveitarfélagi vel til framtíðar ef af sameiningu verður.

Framtíðarsýn

Samstarfsnefndin var sammála um að setja fram skýra framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag, sem getur orðið veganesti fyrir forráðamenn þess og íbúana til lengri tíma litið.

Má þar nefna:

  • Rafræna stjórnsýslu: Samið yrði við ríkisvaldið um þróun rafrænnar stjórnsýslu og tryggt að nýtt sveitarfélag yrði í fremstu röð í þessum málflokki hérlendis.
  • Samgöngumál: Leitast verður við að efla almenningssamgöngur á milli allra byggðarlaganna, sem hér um ræðir. Þær yrðu þá skipulagðar með það að markmiði að bæta aðgengi að sameiginlegum vinnumarkaði, félagsstarfi - þ.m.t. íþróttaaðstöðu.
  • Sóknarfæri í ferða- og menningarmálum: Unnið verður með sérstöðu svæða eins og hún er skilgreind í kynningarefni.

Nýtum kosningaréttinn!

Samstarfsnefndin er skipuð kjörnum fulltrúum beggja sveitarfélaganna og framkvæmdastjórum þeirra. Einhugur ríkir í nefndinni um tillöguna og hvetur hún íbúana til að taka þátt í umræðunni og nýta atkvæðisrétt sinn. Þá ríkir líka einhugur í sveitastjórnum beggja sveitarfélaganna um málið. Nefndin er sammála um að sameining Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar sé skynsamlegur og góður kostur til framtíðar og hvetur því kjósendur til að greiða sameiningu atkvæði sitt.

Það er sannfæring allra nefndarmanna að sameinað sveitarfélag verði sterkara fyrir íbúa sína og landshlutann allan en að óbreyttu og með því verður gott samfélag enn betra. Við hvetjum þess vegna íbúa til að mæta á kjörstað þann 24. mars nk.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps.

Greinin birtist fyrst í Austurglugganum 23. mars