mobile navigation trigger mobile search trigger
22.08.2016

Lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli mótmælt harðlega

Bæjarráð Fjarðabyggðar undrast að á sama tíma og leitað er allra leiða til að tryggja aðstöðu fyrir sjúkraflug í Neskaupstað, skuli sveitarfélagið Reykjavíkurborg kjósa að loka mikilvægri öryggisflugbraut fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli. Í bókun sem bæjarráðið samþykkti á fundinum sínum í morgun er lokun brautarinnar jafnframt mótmælt harðlega og vonbrigðum lýst með aðgerðarleysi stjórnvalda. 

Lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli mótmælt harðlega
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, afhendir Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, bókun bæjarráðs frá því morgun um flugvallarmál.

Í bókuninni eru Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað, Síldarvinnslunni hf., Innanríkisráðuneytinu og alþingi þakkað fyrir aðkomu þessara aðila að fjármögnun nauðsynlegra endurbóta á Norðfjarðarflugvelli. Er umræddum framkvæmdum ætlað að tryggja þýðingarmikið öryggishlutverk flugvallarins fyrir sjúkraflug vegna umdæmissjúkrahúss Austurlands/FSN í Neskaupstað.

Þá segir að óumdeilt sé, að ákvörðun Reykjavikurborgar um lokun flugbrautarinnar skerði þjónustu við íbúa þeirra sveitarfélaga, sem treysta verða á sjúkraflug til höfuðborgarinnar í neyðartilvikum. Það hljóti að teljast undrunarefni, að á sama tíma og sveitarfélag á borð við Fjarðabyggð leiti allra leiða til að tryggja aðstöðu fyrir sjúkraflug, kjósi sveitarfélagið Reykjavíkurborg að loka mikilvægri öryggisflugbraut fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli. Réttur sveitarfélaga sé óumdeildur þegar kemur að skipulagsmálum, en borgarstjórn Reykjavíkur megi þó vera ljóst, að sjúkraflug liggi til höfuðborgarinnar, þar sem stjórnvöld hafa byggt upp miðlæga sjúkraþjónustu landsins og hátæknisjúkrahús.

Einnig er vonbrigðum lýst með aðgerðarleysi stjórnvalda í þessum efnum. Ríkisstjórn landsins hafi á sínum tíma stutt ákvörðun borgaryfirvalda um lokun brautarinnar og hljóti af þeim sökum að axla ábyrgð á afleiðingum þess með mótvægisaðgerðum.

Leggur bæjarráð þunga áherslu á að Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessu brýna almannaöryggismáli.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, afhenti Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, bókunina, sem samþykkt var á fundi bæjarráðs í Neskaupstað í morgun. Afhendingin fór fram í flugstöðvarhúsi Norðfjarðarflugvallar.

Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar vegna flugvallarmála (pdf)