mobile navigation trigger mobile search trigger
02.08.2018

Náttúru- og útivistarsvæði í Fjarðabyggð

Síðastliðið haust fékk Fjarðabyggð styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að vinna að endurbótum á náttúrusvæðum í sveitarfélaginu. Styrkurinn var veittur til þess að bæta aðgengi að svæðunum og stuðla að verndun náttúru þeirra vegna ágangs ferðamanna. Þau svæði sem um ræðir eru Fólkvangur Neskaupstaðar, Hólmanes - lokaáfangi, Saxa - II áfangi og Geithúsárgil.

Náttúru- og útivistarsvæði í Fjarðabyggð
Hópur á vegum UST (5 manns) og Seeds (8 manns) ásamt Láru landverði, myndin var tekin 27. júlí sl. í 24°C og logni. Verkefni þeirra var að endurgera steintröppur niður í friðlandið.

Unnið er að hönnun fyrir Fólkvang Neskaupstaðar. Áætlað er að framkvæmdir í fólkvanginum hefjist í lok ágúst.

Í Hólmanesi er framundan lokaáfangi framkvæmda en um er að ræða útikennslusvæði, salerni og malarborinn göngustígur út að Baulhúsavík. Lagt er upp með að ljúka þessum framkvæmdum nú á haustdögum. Við lok framkvæmda í Hólmanesi eignast Fjarðabyggð frábært svæði til bæði útivista og útikennslu á skjólgóðum stað í jaðri fólkvangsins.

Búið er að hanna áningastaðinn við Söxu og hefur eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd fengið hönnunina til umfjöllunar og samþykkt. Framkvæmdir við Söxu hefjast nú á haustmánuðum.

Hvað varðar útivistarsvæði og göngustíga þá hefur Náttúrustofa Austurlands unnið fyrir Fjarðabyggð mælingar til að setja upp vegvísa á göngu- og hjólaleiðum í byggðakjörnum sveitarfélagsins. Vegvísarnir verða settir upp í haust þegar hægist á í slætti og umhirðu blómabeða. Fyrirhugað er að vegvísarnir vísi veginn með litarkóða og verður upphaf allra gönguleiða tekin út frá sundlaugum og- eða íþróttahúsum byggðarkjarnanna. Kort er tengist vegvísunum má nálgast á heimasíðu Fjarðabyggðar undir http://www.fjardabyggd.is/fjardabyggd/ithrottir-og-hreyfing/gongu-og-hlaupaleidir

Af lúpínu- og skógarkerfilsmálum er það að frétta að margir hafa lagt átakinu lið.  Stofnað var til vinnukvölda í byrjun júlí á Fáskrúðsfirði þar sem íbúum gafst kostur á að koma á svæðið ofan við leik- og grunnskólann og slá lúpínu. Margir aðrir hafa í ár sem á liðnum árum, lagt sitt af mörkum í átakinu gegn lúpínunni og verið ötulir við að endurheimta vistkerfið sem hún hefur yfirtekið. Áhersla Fjarðabyggðar í lúpínu- og skógarkerfilátakinu, er að ná tökum á útbreiðslu jurtanna inn á friðuðum svæðum í Fjarðabyggð - Hólmanesi og Fólkvanginum í Neskaupstað. Vinna við slátt á lúpínu hættir í byrjun ágúst þar sem sláttur eftir þann tíma hefur lítil áhrif á jurtina. eftir að hún hefur fellt fræ. Mikilvægt er að muna að lúpínuátakið og endurheimt vistkerfa sem lúpínan hefur yfirtekið, er langhlaup og samvinnuverkefni okkar allra í sveitarfélaginu.

Lára Björnsdóttur landvörður á Austfjörðum fer með eftirlit á friðlýstum svæðum frá Lóni austur að Borgarfirði eystra.  Lára hóf aftur störf í byrjun júní en alls fékk landshlutinn tuttugu landvarðavikum úthlutað. Helsta verkefni landvarðar á þessu svæði er umsjón með Helgustaðanámunni. Náman er á lista UST yfir þau náttúruvætti sem eru undir miklu álagi vegna brottnáms steinda úr námunni. Margt annað fellur til verka landvarðar, s.s. umsjón náttúrusvæða og leiðsögn ferðafólks um þau, leiðbeiningar til sjálfboðaliða við endurheimt vistkerfa, lagfæring og viðhald göngustíga, merking gönguleiða o.s.frv.  Landvörður er starfsmaður Umhverfisstofnunar.

Í sumar hafa tveir hópar sjálfboðaliða á vegum UST unnið í friðlandinu í Hólmanesi við lagfæringu göngustígs niður á nesið, ásamt lagfæringu göngustígs út í Fólkvanginn í Neskaupstað. Einn hópur á vegum sjálfboðaliðasamtakanna Seeds var hér í tíu daga í júlí og aðstoðaði hópinn frá UST. Hópar á vegum Veraldarvina dvelja hér einnig allt árið en þeir koma aðallega að verkefnum fyrir Fjarðabyggð á sumrin. Í sumar hafa þessir hópar aðstoðað okkur á Hólmanesinu við að skera niður lúpínu, hjálpað til við lagfæringu göngustíga, gengið fjörur og hreinsað rusl og tekið niður gamlar girðingar í Gvendarnesi í Stöðvarfirði.

Sjálfboðaliðar á vegum fyrrgreindra stofnana og samtaka, er fólk á öllum aldri sem á það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á  náttúru og umhverfi. Sjálfboðaliðarnir eiga tvímælalaust hlut í því að gera okkar góða samfélag enn betra.