mobile navigation trigger mobile search trigger
22.03.2017

Öflugt forvarnastarf í heilsueflandi samfélagi

Um síðustu helgi fór hið árlega forvarnamálþing fram í Neskaupstað undir yfirskriftinni Erum við góð við hvort annað? 

Öflugt forvarnastarf í heilsueflandi samfélagi
Nemendur úr VA á málþinginu

Þetta var í sjöunda sinn sem það er haldið og er það eitt af stóru forvarnaverkefnum sveitarfélagins. Að þinginu standa forvarnateymi VA, Fjarðabyggð og foreldrafélög VA og Nesskóla. Það hefur verið vel sótt og vakið mikla athygli síðustu ár og nú var sjónum sérstaklega beint að forvörnum gegn ofbeldi og hvað við getum gert til þess að öðrum í kringum okkur líði vel.

Málþingið grundvallast á samstarfi aðila innan samfélagsins sem kveðið er á um í forvarnaáætlun sveitarfélagsins. Í henni segir m.a. „Afar mikilvægt er að markviss og góð samvinna sé meðal þeirra sem vinna að forvörnum svo stuðlað verði að betra og heilbrigðara mannlífi í sveitarfélaginu.“

Í fjölskyldustefnu sveitarfélagsins er einnig lögð mikil áhersla lögð á forvarnir, bæði almennar og sérhæfðar. Eru þær til þess að minnka líkur á félagslegum vandamálum og í stefnunni eru forvarnir gegn ofbeldi nefndar sérstaklega.

Að auki fellur forvarnastarf allt vel að áherslum heilsueflandi samfélags en Fjarðabyggð skrifaði á dögunum undir samning þar að lútandi.

Málþingið var tvískipt. Á föstudeginum sóttu unglingar það en á laugardeginum var það opið almenningi. Alls sóttu málþingið um 170 manns.

Erindin voru alls 5 talsins. Guðrún Katrín Jóhannesdóttir flutti erindið "... allur bærinn setti sig í dómarasæti" - Að kæra nauðgun í litlu bæjarfélagi. Byggði hún erindi sitt á MA-rannsókn sinni frá síðasta ári. Þátttakendur í rannsókninni voru tvær stúlkur sem kært höfðu nauðgun í sitthvoru bæjarfélaginu ásamt öðrum einstaklingum úr samfélögunum. Helstu niðurstöðurnar voru að þeim var refsað innan samfélagsins, s.s. með líkamlegu ofbeldi, hunsun, svipbrigðum, illu umtali og nafnaköllum.

Jóhanna G. Birnudóttir kynnti starfsemi Aflsins sem eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Samtökin voru stofnuð á Akureyri árið 2002 og eru eins konar systursamtök Stígamóta. Hefur þörfin fyrir þjónustuna sem samtökin veitir vaxið ár frá ári og nær þjónusta þess langt út fyrir sveitarfélagamörkin.

Sigþrúður Guðmundsdóttir og Hildur Guðmundsdóttir frá Kvennaathvarfinu fjölluðu um fræðsluefni sem samtökin hafa gefið út og gengur undir nafninu Tölum um ofbeldi. Efnið er í formi teiknimyndar fyrir börn og var upphaflega gert fyrir börn sem koma til Kvennaathvarfsins. Í haust fékkst styrkur til þess að fylgja efninu á eftir með kynningu í skólum og öðrum stofnunum sem vinna með börn.

Eftir hlé flutti Sanna Magdalena Mörtudóttir erindið Brúnir Íslendingar: Viðhorf, upplifun og að tilheyra íslensku samfélagi. Sanna er meistaranemi í mannfræði og hefur rannsakað upplifanir fólks af því að alast upp brúnt á Íslandi. Kveikjan að því var að hún hefur mátt lifa við spurningar hvaðan hún sé frá því að hún man eftir sér. Þetta er vegna húðlitar en annað foreldri hennar er íslenskt en hitt frá Tansaníu.

Síðasta erindið var erindi Margrétar Gauju Magnúsdóttur ,,Ef engin gerir ekki neitt þá verður þetta bara plebbapleis" - Valdefling ungs fólk á landsbyggðinni, af hverju skiptir það máli? Margrét hafði starfað sem náms- og starfsráðgjafi við FAS á Höfn í Hornafirði. Þar vann hún með ungu fólki að alls kyns valdeflingarverkefnum.

Fyrirtæki innan sveitarfélagsins hafa komið myndarlega að stuðningi við starfið. Á málþinginu var skrifað undir samning við SÚN til þriggja ára. SÚN mun styrkja starfið árlega um 500.000 krónur sem skýtur styrkum stoðum undir allt forvarnastarfið.

Fleiri myndir:
Öflugt forvarnastarf í heilsueflandi samfélagi
Fyrirlesarar málþingsins.
Öflugt forvarnastarf í heilsueflandi samfélagi
Guðmundur Gíslason framkvæmdastjóri SÚN og Elvar Jónsson skólameistari VA handsala samning um stuðning við starfið. Fyrir aftan þá má sjá skipuleggjendur.