mobile navigation trigger mobile search trigger
17.08.2015

Skorað á stjórnvöld

Bæjarráð Fjarðabyggðar skorar á stjórnvöld að hafa hagsmuni sjávarbyggða að leiðarljósi í aðgerðum á þeirra vegum vegna viðskiptabanns Rússlands.

Skorað á stjórnvöld

Fjallað var á fundi bæjarráðs í morgun um þá stöðu sem er að myndast vegna viðskiptabannsins og eftirfarandi bókun samþykkt: 

„Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem er að koma upp í kjölfar viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Því skorar bæjarráð á íslensk stjórnvöld að hafa hagsmuni sjávarbyggðanna og störf til sjós og lands í huga í öllum sínum gjörðum á næstunni. Íslenskur sjávarútvegur er ekki aðeins ein af grunnstoðum margra sveitarfélaga, eins og Fjarðabyggðar, heldur einnig Íslands alls og þess fjöreggs verður að gæta vel.“