mobile navigation trigger mobile search trigger
13.08.2015

Sögulegur fundur hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fagnaði á fundi sínum í dag 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Af því tilefni sátu einvörðungu konur þennan 183. fund bæjarstjórnar. Til umræðu kom m.a. kynbundinn launamunur og hinsegin fræðsla.

Sögulegur fundur hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar
Frá fundi bæjarstjórnar í dag, sem Pálína Margeirsdóttir stýrði. Aðrir sem sátu fundinn voru (f.v.) Tinna Hrönn, Kristín, Lísa Lotta, Þórdís Mjöll, Eydís, Esther Ösp, Hjördís Helga og Hulda Sigrún. Við hlið fundarstjóra situr svo Páll Björgvin Guðrmundsson, bæjarstjóri.

Þetta er í fyrsta sinn sem eingöngu konur sitja bæjarstjórnarfund í sögu sveitarfélagsins og um sögulegan fund að ræða hjá sveitarstjórninni.

Á dagskrá fundarins voru m.a. umræður um stöðu kvenna í sveitarstjórnarmálum og jafnréttisáætlun Fjarðabyggðar. Þá samþykkti bæjarstjórn samhljóða bókanir sem fjalla efnislega um aðgerðir gegn kynbundnum launamun hjá sveitarfélaginu, samstarf sveitarfélagsins við Lögreglustjórann á Austurlandi gegn heimilisofbeldi og aukna hinsegin fræðslu í grunnskólum Fjarðabyggðar.

Af níu bæjarfulltrúum eru fimm konur eða Eydís Ásbjörnsdóttir, Esther Ösp Gunnarsdóttir, Hulda Sigrún Guðmundsdóttir, Kristín Gestsdóttir og Pálína Margeirsdóttir, sem jafnframt stýrði fundi. Fjórir bæjarfulltrúar viku því sæti fyrir konum úr röðum varabæjarfulltrúa. Þær voru Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Lisa Lotta Björnsdóttir, Tinna Hrönn Smáradóttir og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir.

Bókanir sem samþykktar voru eru eftirfarandi:

Pálína Margeirsdóttir fylgdi bókun úr hlaði: „Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkir að fela bæjarstjóra og bæjarritara að láta gera úttekt á kynjabundnum launamun hjá sveitarfélaginu með jafnlaunavottun í huga nú á haustmánuðum. Fjarðabyggð hefur haft það að stefnu að laun starfsmanna sinna séu jöfn óháð kyni og þykir bæjarstjórn rétt að kannað sé hvort slíkt hafi ekki gengið eftir. Niðurstöður skulu kynntar bæjarstjórn fyrir komandi áramót.“

Pálína Margeirsdóttir fylgdi bókun úr hlaði: „Bæjarstjórn Fjarðabyggðar felur bæjarstjóra að vinna áfram að undirbúningi og viðræðum við Lögreglustjórann á Austurlandi um samstarf gegn heimilisofbeldi. Nauðsynlegt er að sveitarfélagið og lögreglan vinni þétt saman að aðgerðum og úrræðum gegn slíku böli sem heimilisofbeldi er.“

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir fylgdi bókun úr hlaði: „Fulltrúar Fjarðalistans gera það að tillögu sinni að Fjarðabyggð fari í átak í eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Hinsegin ungmenni upplifa oft skort á upplýsingum, á umræðu, og stuðningi og þróa gjarnan með sér neikvæða sjálfsmynd. Með slíku átaki sýnum við stuðning og fögnum fjölbreytileikanum í okkar samfélagi.“

Fundargerð bæjarstjóranrfundarins má nálgast hér.