mobile navigation trigger mobile search trigger
14.08.2018

Talning í Fólkvangi Neskaupstaðar

Frá því í apríl sl. hefur staðið yfir talning á umferð í fólkvanginum og etv. hafa glöggir íbúar tekið eftir lágum staur með svörtu boxi rétt utan við göngubrúna yfir Stóralæk. Það er bæði afar skemmtilegt og nytsamlegt að fá séð hversu margir leggi leið sína inn á svæðið og þá helst til að meta aukningu ferðamanna á staðnum.

Talning í Fólkvangi Neskaupstaðar

Frá því í maí hefur verið talið inn á svæðið og hefur það sýnt okkur að umferð inn í Fólkvanginn er umtalsverð. Alls frá því að talning hófst hafa heimsótt fólkvanginn rétt tæplega 7.175 manns á tímabilinu 8. maí til og með 15. ágúst. Á þessu tímabili var mestur fjöldi inn á svæðið í júlí sl. eða alls 3.353 manns sem heimsóttu Fólkvanginn. Topp dagur í júlí var 18. en þá komu alls 205 inn á friðlandið. Annar fjölmennasti dagur sumarsins var svo 5. ágúst sl. en þá komu 181 inn í fólkvanginn.

Fyrir liggur að fara í umtalsverðar framkvæmdir og endurbætur á svæðinu og er hönnun vegna þessa á lokastigi. Í haust verður farið að laga bílastæði, áningastað og færa veginn niður að vitanum. Lagt er upp með í hönnuninni að gönguleið út að útsýnisskífu verði fær öllum óháð líkamlegri getu. Enda er það mikil upplifun að standa upp á klettinum inn í fólkvanginum og horfa út yfir Norðfjarðarflóann. Útsýnisskífan upp á klettinum var gefin af Norðfirðingafélaginu og haft verður samráð við félagið með útfærslur á svæðinu við skífuna þegar að því kemur að hönnunin er tilbúin.

Það er mikilvægt að bæði viðhalda og bæta aðgengi inn útivistarsvæði okkar Norðfirðinga. Þetta er mikilvægt fyrir okkur sem staðarbúa en líka vegna áhuga ferðamanna á svæðinu og svo kannski ekki síst vegna sögu svæðisins. Fólkvangur Neskaupstaðar er fyrsta friðlýsta útivistarsvæði okkar Íslendinga en svæðið, út í Urðum, var friðlýst sem fólkvangur árið 1972 og á því brátt hálfraraldrar afmæli.