mobile navigation trigger mobile search trigger
03.08.2018

Umhverfisverkefnin í Fjarðabyggð

Í byrjun ágústmánaðar má með sanni segja að farið sé að síga vel á seinni hluta sumarsins. Frá því í maí hefur verið mikið álag á starfsmönnum framkvæmda- og þjónustumiðstöðvar sveitafélagsins enda vaxtarskilyrði afspyrnugóð í sumar.

Umhverfisverkefnin í Fjarðabyggð

Nú hefur hinsvegar hægst á endurvexti einkímblaðagróðurs s.s. grass, en vöxtur óæskilegs gróðurs í flokki tvíkímblöðunga er ennþá umtalsverður. Sumarstarfsmenn, sem og þátttakendur í vinnuskóla, hafa nýtt alla sína vinnukrafta í að koma bæjarkjörnunum í gott horf. Það er meginástæða þess að bæirnir okkar í Fjarðabyggð líta glæsilega út, blómakör eru full af fallegum blómstrandi blómum og beðin sem og grassvæði bæjanna eru vel hirt enda einróma mat gesta að byggðakjarnarnir séu bæði blómlegir og snyrtilegir. Hér eiga flestir garðeigendur líka mikið lof skilið fyrir sína aðkomu en snyrtilegir garðar íbúanna gefa fallega ásýnd.

Bæjarhátíðir hafa gengið vel og er hvergi rusl að sjá að þeim loknum. Starfsmenn þjónustu- og framkvæmdamiðstöðva hafa staðið vaktina í sumar í kringum hátíðirnar og verður Neistaflugshelgin engin undantekning.

Munum að störf þjónustumiðstöðvanna eru hvorki auðveld né einföld og því skiptir miklu að muna eftir hrósinu bæði þegar við hittum sumarstarfsmenn eða vinnuskólakrakka á förnum vegi, hrós gerir okkur öllum gott.

Margt stórt sem smátt liggur á herðum framkvæmda- og umhverfissviðs nú yfir sumartímann og er áhugasömum um störf okkar bent á að hafa samband við okkur til skrafs og ráðagerða. Við erum hér í ykkar þágu.