mobile navigation trigger mobile search trigger
03.08.2018

Vel heppnaðir Franskir dagar

Um síðastliðna helgi, dagana 26. - 29. júlí, fór fjölskylduhátíðin Franskir dagar fram í 23. skipti á Fáskrúðsfirði. Þessi rótgróna og sívinsæla bæjarhátíð heppnaðist afar vel enda fjölmargt í boði fyrir alla aldurshópa.

Vel heppnaðir Franskir dagar
Á föstudeginum safnaðist fólk saman á Búðagrund við setningu Franskra daga.

Að venju sá undirbúningsnefnd Franskra daga um skipulag og utanumhald hátíðarhaldanna og má með sanni segja að þeim hafi farist það afar vel úr hendi. Þrátt fyrir talsvert vatnsveður á fimmtudeginum, og þar með blauta kenderísgöngu, sýndu veðurguðirnir að þeir eru ef til vill franskir eftir allt saman. Veðrið lék við bæjarbúa og gesti um helgina, þvert á veðurspár.

Á föstudeginum kom talsverður fjöldi fólks saman á Búðagrund við setningu hátíðarinnar, og þó brennan hafi látið á sér standa í fyrstu, var stemningin í brekkunni í góðu lagi. Hæfileikaríkir tónlistarmenn sáu um að halda uppi stuðinu með vel völdum lögum. Þá var flugeldasýningin afar tilkomumikil.

Á laugardeginum fór hefðbundin hátíðardagskrá fram á planinu neðan við Tanga og var þar iðandi mannlíf fram eftir degi. Síðdegis voru nýjir Íslandsmeistarar í Pétanque krýndir, en það var liðið Mæja sem bar sigur úr býtum gegn Sköllóttum Hreindýrum í æsispennandi úrslitaleik.

Að venju komu fulltrúar frá Gravelines, vinabæ Fáskrúðsfjarðar í Frakklandi, á hátíðina ásamt sendiherra Frakklands á Íslandi. Þau ferðuðust víða um sveitarfélagið og tóku þátt í ýmsum dagskrárliðum Franskra daga. Þau voru hæst ánægð með heimsókn sína í sveitarfélagið.

Fjarðabyggð vill hrósa undirbúningsnefnd Franskra daga fyrir vel unnin störf og þakkar öllum þeim sem hjálpuðu til við hátíðarhöldin. Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá þá aftur að ári.

Fleiri myndir:
Vel heppnaðir Franskir dagar
Hljómsveitin Duplex hélt stuðinu uppi í brekkunni.
Vel heppnaðir Franskir dagar
Gestir okkar frá Gravelines, Frakklandi, sáu um að tendra upp í brennunni. Hér er Lise Blanckaert í eldlínunni en Aurore Devos er hinumegin við brennuna í sömu gjörningum.
Vel heppnaðir Franskir dagar
Anya Shaddock flutti ljúfa tóna fyrir gesti hátíðarinnar.
Vel heppnaðir Franskir dagar
Minningarathöfn í Franska grafreitnum. Frá vinstri: Graham Paul, Gunnar Jónsson, Jean-Eudes, Aurore Devos, Christophe Blanckaert og Pálína Margeirsdóttir. Á myndina vantar Lise Blanckaert.
Vel heppnaðir Franskir dagar
Íslandsmeistarar í pétanque 2018. Liðið Mæja með Denna og Mæju. Þess má til gamans geta að lið Mæju sló lið Denna út úr keppninni á leið sinni að titlinum. Vert er að taka fram að hvorki Denni né Mæja kepptu á mótinu.