mobile navigation trigger mobile search trigger
10.06.2015

17. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1 og 2, þriðjudaginn 9. júní 2015

og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Lísa Lotta Björnsdóttir, Elvar Jónsson og Aðalheiður Vilbergsdóttir

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason, fræðslustjóri

  

Dagskrá:

 

1.

1505137 - Nám á framhaldsstigi í tónlistarskólum

Vísað er frá bæjarráði til nánari skoðunar fræðslunefndar bréfi starfshóps skólastjórnenda um nám á framhaldsstigi í tónlist frá 8.maí sl. Í bréfi skólastjóranna, sem koma víðs vegar af landinu, eru gerðar alvarlegar athugasemdir við hugmyndir sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur viðrað um breytingar á fjármögnun og skipulagi tónlistarnáms á framhaldsstigi. Fram kemur í bréfinu að hugmyndir ráðherra séu eftirfarandi: Greiðslum frá ríki til sveitarfélaga vegna framhaldsnáms í tónlistarskólum í samræmi við samkomulag frá 2011 verði hætt. Sveitarfélög munu þar með reka sína tónlistarskóla án fjárframlags frá ríkinu. Þess i stað verði fjármagni veitt til eins tónlistarskóla í Reykjavík vegna framhaldsnáms í tónlist. Sá skóli verður þar með eini tónlistarskólinn í landinu sem mun bjóða upp á tónlistarnám á framhaldsstigi með sérstökum samningi við ríkið. Sett verði fjármagn í tónlistarnám að loknu framhaldsprófi, svokallað 4. hæfnisþrep. Skólastjórarnir óttast m.a. að fjármagn til tónlistar verði skorið niður, aðgengi og valfrelsi nemenda að tónlistarnámi minnki og jafnrétti til náms með tilliti til búsetu skerðist. Einnig liggur fyrir tölvupóstur frá lögfræðing Sambands íslenskra sveitarfélaga til framkvæmdastjóra sveitarfélaga þar sem fram kemur að sambandið hafi skipað tvo fulltrúa að beiðni ráðherra í samráðshóp, þau Guðjón Bragason, sviðsstjóra lögfræði og velferðarsviðs sambandsins, og Soffíu Vagnsdóttur, fræðslustjóra á Akureyri. Í skipunarbréfi starfshópsins er ekki nefnd ein tiltekin leið sem starfshópnum er ætlað að fjalla um, umfram aðra kosti, þótt þær hugmyndir sem lýst er í erindinu frá skólastjórnendum hafi vissulega verið viðraðar á fundum mennta- og menningarmálaráðherra með forsvarsmönnum sambandsins. Sambandið leggur áherslu á að haft verði samráð við þá aðila sem best þekkja til um tilhögun tónlistarnáms. Fræðslunefnd treystir á að starfshópurinn vinni faglega að verkefninu og verði í góðu sambandi við bæði tónlistarskóla og sveitarstjórnarfólk. Nefndin telur mikilvægt að tryggt verði sem best jafnrétti til náms með tilliti til búsetu.

 

2.

1506040 - Vímuefnanotkun ungs fólks í Fjarðabyggð 8.-10.bekkur 2015

Lögð er fram til kynningar skýrsla frá Rannsóknum og greiningu um vímuefnanotkun ungs fólks í 8.-10.bekk í Fjarðabyggð. Skýrslan sýnir niðurstöðu úr könnun frá í febrúar 2015 sem gerð var í öllum 8.-10. bekkjum landsins. Ánægjulegt er til þess að vita að ungmennum í Fjarðabyggð og á landinu almennt hugnast ekki vímuefnanotkun og neysla er mjög lítil og fer minnkandi. Í Fjarðabyggð hafa reykingar enn minnkað og eru líkt og notkun á ólöglegum vímuefnum hverfandi og fyrir neðan landsmeðaltal. Nef- og munntóbaksnotkun er lítil en hefur þó lítillega vaxið og er ofan við landsmeðaltal sem er áhyggjuefni og full ástæða til efla forvarnir gegn þeirri notkun sem og gegn áfengisneyslu, en þar hefur notkun vaxið lítillega frá síðustu könnun og ungmenni í Fjarðabyggð eru þar við landsmeðaltal. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að kynna skýrsluna fyrir skólastjórum og Fjarðaforeldrum. Skýrslan verður gerð aðgengileg á heimasíðu Fjarðabyggðar og stefnt að kynningu með haustinu.

 

3.

1506039 - Hagir og líðan ungs fólks í Fjarðabyggð 5.-7.bekkur 2015

Lögð er fram til kynningar skýrsla frá Rannsóknum og greiningu um líðan og hagi ungs fólks í Fjarðabyggð. Skýrslan sýnir niðurstöðu úr könnun frá í febrúar 2015 sem gerð var í öllum 5.-7. bekkjum landsins. Spurt var um eftirfarandi þætti: Samband við foreldra og fjölskyldu, vini og vinkonur, almenna líðan nemenda í 5., 6. og 7. bekk, stríðni, nám og skóla og þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Helstu niðurstöður eru: Tími með foreldrum hefur aukist frá síðustu könnun og samband við kennara er gott. Nemendur virðast vinafærri og stríðni hefur aukist hjá strákum og nemendur upplifa í auknum mæli að þeir séu skildir útundan. Ánægja með námið hefur aukist og frekar að nemendur telji það of létt en of erfitt. Strákum þykir námið leiðinlegra en stelpum en stelpum líður ver í kennslustundum en strákum. Líðan í frímínútum er góð. Um fjórðungur nemenda upplifir ekki mikið hrós í skólanum og það er svipað og meðaltalið yfir landið. Reiðiköstum hefur fækkað, stelpur eiga erfiðara með svefn og gráta auðveldar en strákar. Nemendur í tónlist eru mun fleiri en gengur og gerist á landinu, en íþróttaástundun svipuð og meðaltal yfir landinu. Strákar eru meira í tölvuleikjum og u.þ.b. 20% þeirra nota meira en 4 tíma á dag í tölvuleiki. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að kynna skýrsluna fyrir skólastjórum og Fjarðaforeldrum. Skýrslan verður gerð aðgengileg á heimasíðu Fjarðabyggðar og stefnt að kynningu með haustinu.

 

4.

1506060 - Athugun á skólamáltíðum í Fjarðabyggð

Trúnaðarmál. Lögð voru fram til kynningar drög að skýrslu um athugun á skólamáltíðum í Fjarðabyggð. Fram kemur að skoðaðar hafi verið skólamáltíðir í grunnskólum á vorönn og nú stendur yfir athugun á skólamáltíðum í leikskólum. Gert er ráð fyrir að vinnunni ljúki í júní og skýrsla verði lögð fyrir fund fræðslunefndar í ágúst.

 


 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:35