mobile navigation trigger mobile search trigger
19.08.2015

18. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1, þriðjudaginn 18. ágúst 2015

og hófst hann kl. 16:30

 

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir, Lísa Lotta Björnsdóttir, Óskar Þór Guðmundsson, Elvar Jónsson og Hildur Ýr Gísladóttir.

 

Starfsmaður sem jafnframt ritaði fundargerð: Þóroddur Helgason, fræðslustjóri

 

 

Dagskrá:

 

1.

1507135 - Þjóðarsáttmáli um læsi barna í grunnskólum

Vísað er til fræðslunefndar frá bæjarráði bréfi til bæjarstjóra undirrituðu af Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þórði Árna Hjaltesteð, formanni Kennarasambands Íslands og Önnu Margréti Sigurðardóttur, formanni Heimilis og skóla, þar sem fram kemur að öllum sveitarfélögum á Íslandi er boðið að undirrita Þjóðarsáttmála um læsi haustið 2015. Í bréfinu segir m.a. "Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir." Samkvæmt síðustu PISA-könnunum OECD hefur lesskilningi íslenskra nemenda hrakað og undirritaðir vilja þar snúa vörn í sókn. Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra eru sett fram metnaðarfull markmið um umbætur í menntun. Markmiðið er að 90% nemenda í 10. bekk nái lágmarksviðmiðum um að geta lesið sér til gagns í PISA-könnun sem lögð verður fram 2018, en í dag eru það 79% nemenda. Með undirritun Þjóðarsáttmála skuldbinda aðilar samningsins, ríki og sveitarfélög, að vinna að því með öllum tiltækum ráðum að ná settu markmiði í læsi. Skuldbinding ráðuneytisins er m.a. fólgin í gjaldfrjálsum aðgangi skóla að skimunarprófum og teymi ráðgjafa til aðstoðar. Einnig liggur fyrir minnisblað fræðslustjóra þar sem m.a. kemur fram að "Hugmyndir fyrrgreindra aðila um Þjóðarsáttmála um læsi ríma vel við það starf sem þegar er farið af stað á Austurlandi. Fyrir rúmu ári síðan var farið af stað með vinnu við að efla námsárangur í læsi og stærðfræði. Málið var kynnt fræðslunefndum og framkvæmdastjórum sveitarfélaga á Austurlandi. Í kjölfarið var málið tekið fyrir í sveitar- og bæjarstjórnum sem samþykktu að vinna að bættum námsárangri nemenda í læsi og stærðfræði. Jafnframt var ráðið frá áramótunum 2014-2015 í viðbótarstöðugildi kennsluráðgjafa við Skólaskrifstofu Austurlands til að tryggja aukna ráðgjöf við leik- og grunnskóla á starfssvæði Skólaskrifstofu Austurlands. Í janúar 2015 komu svo skólastjórnendur á Austurlandi saman og skrifuðu undir sáttmála um bættan árangur í læsi og stærðfræði. Grunnskólarnir í Fjarðabyggð eru allir að vinna markvist að bættum árangri í læsi sem felst m.a. í þróunarverkefnum í Byrjendalæsi og PALS. Vinna við bættan námsárangur er því farin vel af stað í Fjarðabyggð og undirskrift Þjóðarsáttmála um læsi með stuðningi fyrrgreindra aðila væri mikill styrkur við þá vinnu." Fræðslunefnd lýsir ánægju með framtakið sem er í takt við áherslur fræðslunefndar og bæjarstjórnar og hvetur til þess að Fjarðabyggð verði aðili að þjóðarsáttmála um læsi. Vísað til bæjarráðs.

 

2.

1508025 - Starfs- og fjárhagsáætlun 2016 í fræðslumálum

Farið var yfir reglur sveitarfélagsins um starfs- og fjárhagsáætlunargerð og tímaramma vinnu við fjárhagsáætlun 2016. Einnig var farið yfir starfsáætlun 2015.

 

3.

1507016 - Endurskoðun á reglum um leikskóla

Fyrir liggur tillaga að breytingu á reglum um leikskóla í Fjarðabyggð og minnisblað fræðslustjóra sem fræðslunefnd óskaði eftir fyrr á árinu. Í tillögunni er gert ráð fyrir breytingum á reglum á þann veg að leikskólum í Fjarðabyggð verði gert kleift að innrita kennitölulaus börn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með breytingunum eru betur tryggð réttindi kennitölulausra barna. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu og vísar til bæjarráðs.

 

4.

1506060 - Athugun á skólamáltíðum í Fjarðabyggð

Fyrir liggur skýrsla Elísabetar Reynisdóttur um athugun á skólamáltíðum í Fjarðabyggð. Í skýrslunni kemur fram að athugunin hafi tekið til allra mötuneyta í leik- og grunnskólum Fjarðabyggðar. Skýrslan var kynnt og verður tekin til frekari umræðu á næsta fundi nefndarinnar.

 

5.

1411001 - Fjölskyldustefna Fjarðabyggðar

Bæjarráð hefur vísað drögum að fjölskyldustefnu til umsagnar fræðslunefndar. Fræðslunefnd fór yfir áherslur, stefnuþætti, markmið og leiðir sem fram koma í drögunum. Nefndin frestar afgreiðslu til næsta fundar nefndarinnar. Nefndin telur mikilvægt að hefja samhliða vinnu við endurskoðun á fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar, sem taki mið af fjölskyldustefnunni.

 

6.

1508032 - Efling hinsegin fræðslu í grunnskólum Fjarðabyggð - Tillaga Fjarðalistans á fundi bæjarstjórnar nr. 183

Á 183 fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar var tillögu Fjarðalistans um eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Fjarðabyggðar vísað til umfjöllunar í fræðslunefnd. Fræðslunefnd lýsir ánægju með tillöguna og felur fræðslustjóra að vinna að nánari útfærslu í samráði við skólastjórnendur og kynna útfærsluhugmyndir á næsta fundi fræðslunefndar.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:55