mobile navigation trigger mobile search trigger
03.07.2017

180. fundur eigna- skipulags- og umhverfisnefndar

Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd - 180. fundur  

haldinn í fundarsal bæjarskrifstofu að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði,

3. júlí 2017 og hófst hann kl. 08:30

Fundinn sátu Jón Björn Hákonarson Formaður, Svanhvít Yngvadóttir Aðalmaður, Einar Már Sigurðarson Aðalmaður, Esther Ösp Gunnarsdóttir Aðalmaður, Ragnar Sigurðsson Varaformaður og Valur Sveinsson Embættismaður. 

Fundargerð ritaði Valur Sveinsson. 

Dagskrá: 

1.

1706169 - Hækkun gjaldskrá Rafveitu Reyðarfjarðar í júlí 2017

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá Rafveitu Reyðarfjarðar vegna 8,5% hækkunar á flutningsgjaldskrá Landsnets.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir 2,5% hækkun á dreifigjaldskrá Rafveitu Reyðarfjarðar fyrir sitt leyti. Endanlegri afgreiðslu vísað til bæjarráðs.


Þorsteinn Sigurjónsson sviðsstjóri veitusviðs sat fundarliðinn

2.

1706165 - Kólnun jarðvarmakerfis og mögulegar lausnir - Hitaveita Eskifjarðar

Lögð fram til kynningar skýrsla Eflu hf vegna kólnunar jarðvarmakerfis á Eskifirði og farið yfir helstu valkosti vegna kólnunar.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd felur sviðstjóra veitusviðs að vinna málið áfram.


Þorsteinn Sigurjónsson sviðsstjóri veitusviðs sat fundarliðinn

3.

1706109 - Völvuleiði

Lagt fram erindi frá nokkrum áhugasömum Eskfirðingum um ástand Völuleiðisins og svæðisins þar um kring s.s. akvegur upp að leiðinu. Lagt fyrir minnisblað umhverfisstjóra, dagsett 29. júní 2017, um fyrirspurn íbúanna sem samræmist áður sendri umsókn Fjarðabyggðar til Framkvæmdarsjóð ferðamannastaða um fjárstyrk vegna endurbóta á svæðinu.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þakkar erindið og áhuga íbúa og felur umhverisstjóra að vera í sambandi með framhaldið en um leið minnir nefndin á að svæðið er innan friðlands þar sem ákveðnar reglur gilda. Jafnframt verði ný umsókn send til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.


Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri sat fundarliðinn

4.

1612131 - Útilistaverk - Odee

Lagt fram erindi frá listamanninum Oddi Eysteini Friðrikssyni, Odee, þar sem hann býður að gjöf listaverk í Sundlaug Eskifjarðar gegn því að greiddur verði framleiðslu- og flutningskostnaður.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þakkar erindið og óskar eftir umsögn frá íþrótta- og tómstundanefnd og menningar- og safnanefnd og hvar kostnaði verði fyrir komið.

5.

1706144 - Umsögn um undanþágu frá starfsleyfi vegna 3.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði

Lögð fram til kynningar umsögn HAUST, dagsett 20. júní 2017, f.h. Heilbrigðisnefndar Austurlands um erindi Fiskeldis Austfjarða hf. um undanþágu frá starfsleyfi vegna framleiðslu á 3000 tonnum af regnbogasilungi í Fáskrúðsfirði.
Einnig lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna varðandi málið þar sem hann vekur athygli eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarráðs þess efnis að það kunni að vera tilefni til að gera athugasemd við stækkun kvíaþyrpingar á því eldissvæði sem ráðgert er innarlega í firðinum.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd felur framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og umhverfisstjóra að fylgjast með ferlinu.


Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri sat fundarliðinn

6.

1705237 - Ástandsskýrsla - Íþróttahús Eskifjarðar

Lagt fram til kynningar minnisblað íþrótta- og tómstundanendar, dagsett 12. júní 2017, vegna framtíðar notkunar íþróttahússins á Eskifirði.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd mun nýta umsögnina við frekari vinnslu málsins í tengslum við fjárhagsáætlunargerð.

7.

1706096 - Áskorun frá stýrihóp um Heilsueflandi Samfélag í Fjarðabyggð

Lagt fram til kynningar bréf frá stýrihópi um heilsueflandi samfélag í Fjarðabyggð. Stýrihópur um heilsueflandi samfélag í Fjarðabyggð hvetur nefndir sveitarfélagsins að halda gildum heilsueflandi samfélags á lofti við komandi fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2018.

8.

1706100 - Hlið við enda göngustígs við Melgerði

Lagður fram tölvupóstur Hörpu Vilbergsdóttur um uppsetningu hliðs við göngustíg við Melgerði.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þakkar erindið og felur sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs að skoða málið og jafnframt í tengslum við fleiri göngustíga í Fjarðabyggð og leggja fyrir nefndina að nýju.

9.

1510071 - Kaup sveitarfélaga á fasteignum í eigu Íbúðalánasjóðs

Lagt fram til kynningar bréf Íbúðalánasjóðs þar sem sjóðurinn leitar til sveitarfélaga á landinu með það í huga að bjóða til viðræðna um möguleg kaup á fasteignum í eigu sjóðsins. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að ræða við Íbúalánasjóð um sölu eignanna á almennum markaði og vísaði erindi til eigna- skipulags- og umhverfisnefndar til kynningar.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd felur bæjarstjóra að ræða um leið við Íbúðarlánasjóð um ástand nokkurra eigna sjóðsins í Fjarðabyggð.

10.

1705166 - Ferða- og markaðsmál

Minnisblað upplýsinga- og kynningarfulltrúa og atvinnu- og þróunarstjóra um þjónustu Fjarðabyggðar og ferðaþjónustuaðila gagnvart ferðamönnum sem sækja Fjarðabyggð heim, m.a. þjónustu á tjaldsvæðum, opnunartíma stofnana og safna, afþreyingu o.fl. Bæjarráð vísar minnisblaði til eigna- skipulags- og umhverfisnefndar, menningar- og safnanefndar og íþrótta- og tómstundanefndar.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd mun taka frekari umræðu um sína málaflokka á fundum sínum í ágúst.

11.

1706104 - Tillaga að betri umferðarmenningu og lækkun hraða bifreiða

Lagt fram bréf Árna Más Valmundarsonar, dagsett 19. júní 2017, um aðgerðir gegn umferðarhraða í Hæðargerði.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þakkar erindið og felur sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs að skoða málið og leggja fyrir nefndina að nýju.

12.

1706115 - Áskorun til ESU - hjóla- og gönguleiðir

Lögð fram áskorun stýrihóps um heilsueflandi samfélags í Fjarðabyggð um að fara vel yfir göngu og hjólaleiðir til og frá leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, og tryggja að þær séu öryggar og virki hvetjandi fyrir börn, foreldra og kennara til að koma gangandi og/eða hjólandi í skólana.
Þarf sérstaklega að fara yfir að gangstéttir, kantar, gangbrautir, göngustígar, snjómokstur og lýsing taki mið af umhverfaðaröryggi yngstu barnanna.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd vísar áskoruninni til sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs til frekari skoðunar.

13.

1706055 - Fasteignamat 2018

Framlögð til kynningar samantekt fjármálastjóra um breytingar á fasteignamati í Fjarðabyggð á milli áranna 2017 og 2018. Vísað frá bæjarráði til kynningar í eigna- skipulags- og umhverfisnefnd.

14.

1705101 - 735 Dalbraut 4 - byggingarleyfi, tengivirki

Lagt fram að nýju bréf Landsnets hf, dagsett 10. maí 2017, þar sem byggingaráform nýs tengivirkishúss á lóð fyrirtækisins að Dalbraut 4 á Eskifirði vegna spennuhækkunar á flutningskerfinu á austurlandi eru kynnt ásamt drögum af mögulegu umfangi byggingarinar. Reiknað er með um 300 m2 byggingu með fjörum 132 kV rofareitum. Mesta þakhæð er áætluð 7,5 m. Lagt fram minnisblað skipulags- og byggingarfulltrúa um skipulagsskilmála lóðarinnar við Dalbraut 4, dagsett 12. maí 2017. Lagt fram bréf Geislavarna ríkisins, dagsett 23. júní 2017, þar sem fram kemur að í 5 m fjarlægð frá sambærilegu tengivirki mælist ekki aukið segulsvið. Lagt fram hljóðkort Verkís hf fyrir fyrirhugað tengivirki, dagsett 28. júni 2017, en þar kemur fram að hávaði frá tengivirki fer aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd telur að byggingaráform Landsnets hf samræmist skipulagsskilmálum svæðisins og gerir því ekki athugasemdir við byggingaráformin en hvetur Landsnet til að ásýnd mannvirkja falli vel að umhverfi.

15.

1706101 - 730 Stuðlar - Umsókn um stöðuleyfi

Lögð fram stöðuleyfisumsókn Valdimars Péturssonar, dagsett 19. júní 2017, þar sem óskað er eftir stöðuleyfi fyrir 49,8 m2 stöðuhýsi við núverandi aðstöðuhús jarðarinnar Stuðla í Reyðarfirði. Samþykki landeiganda liggur fyrir. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að stöðuleyfi verði veitt til 12 mánaða.

16.

1706135 - 750 Skólavegur 50a – byggingarleyfi, garðhýsi

Lögð fram byggingarleyfisumsókn Smára Einarssonar, dagsett 24. júní 2017 þar sem sótt er um leyfi til að reisa garðhús og skjólvegg við hús hans að Skólavegi 50a á Fáskrúðsfirði.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn liggja fyrir.

17.

1706134 - 730 Mánagata 5 - byggingarleyfi, íbúðarhús

Lögð fram byggingarleyfisumsókn Kolbeins Guðnasonar, dagsett 26. júní 2017 þar sem sótt er um leyfi til að reisa 181,2 m2 og 731,4 m3 íbúðarhús á lóð hans við Mánagötu 5 á Reyðarfirði. Aðalhönnuður er Stefán Þ. Ingason.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir umsóknina og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn liggja fyrir.

18.

1706167 - 750 Dalsá - Framkvæmdaleyfi, efnistaka

Lögð fram framkvæmdaleyfisumsókn Fjarðabyggðar, dagsett 29. júní 2017, þar sem óskað er eftir leyfi til að taka 5000 m3 af efni úr Dalsá og við ós Tunguár í Fáskrúðsfirði. Samþykki landeiganda, Fiskistofu, Hafrannskóknarstofnunar og Veiðifélags Dalsár liggur fyrir.  Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að efnistaka verði leyfð og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út leyfið.

Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri sat fundarliðinn

19.

1705065 - Umsókn um styrk til fornleifaskráningar í Vöðlavík, á Krossanesi og Útsveit

Lagt fram bréf Hjörleifs Guttormssonar, dagsett 5. maí 2017, þar sem óskað er eftir styrk til fornleifaskráningar í Vöðlavík, á Krossanesi og Útsveitar.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd þakkar erindið og mun fjalla frekar um erindið í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Jafnframt er umhverfisstjóra falið að vera í sambandi við bréfritara um verkefnið.

20.

1705104 - Fólkvangur Neskaupstaðar - ástand friðlandsins 2017

Lögð fram tillaga umhverfisstjóra um ástand stíga í Fólkvangi Neskaupstaðar og væntanlegan kostnað við endurbætur á stígum í Fólkvanginum. Greiningin unnin samkvæmt beiðni 176. fundar nefndarinnar þann 13. maí sl.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að unnið verði að verndun svæðisins og byggðir pallar yfir mýrar þar sem göngustígar eru verst útlítandi. Umhverfisstjóra og sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs falið að vinna málið áfram.


Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri sat fundarliðinn

21.

1706173 - Umsókn - endur á Ósnum á Fáskrúðsfirði

Lagt fram erindi Guðjóns Guðjónssonar, dagsett 26. júní 2017, þar sem sótt er um leyfi til að hafa aliendur á Ósnum innan við þéttbýlið í Fáskrúðsfirði.
Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd leggst ekki gegn því að endurnar verði á Ósnum í sumar líkt og undanfarin ár gegn því að þær verði teknar nú í sumarlokin.


Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri sat fundarliðinn

Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir aukinni samvinnu við lögreglu vegna fjölmargra ábendinga um hraðakstur í íbúðargötum þéttbýliskjarna Fjarðabyggðar. Sviðstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs falið að koma ábendingu nefndarinnar á framfæri við lögreglu.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:40.