mobile navigation trigger mobile search trigger
15.08.2017

182. fundur hafnarstjórnar

Hafnarstjórn - 182. fundur

haldinn í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði, 15. ágúst 2017 og hófst hann kl. 16:00

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir Varaformaður, Kristín Ágústsdóttir Aðalmaður, Einar Már Sigurðarson Varamaður, Árni Þórhallur Helgason Varamaður og Steinþór Pétursson Embættismaður.

Fundargerð ritaði: Steinþór Pétursson

Dagskrá:

1.

1707084 - Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum

Lögð fram til kynningar skýrsla Haf- og vatnarannsókna um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps leggja fram ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknarstofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa þungar áhyggjur af stöðu framtíðaruppbyggingar fiskeldis á Austfjörðum út frá þeim forsendum sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar byggir á. Eins og atvinnuuppbygging á suðurfjörðum Vestfjarða er til marks um, bendir felst flest til þess að fiskeldi feli í sér eitt helsta sóknarfæri jaðarbyggða í atvinnuþróun og samfélagslegri uppbyggingu. Í ljósi þess falast sveitarstjórnir Fjarðabyggðar og Djúpavogshrepps eindregið eftir fundi með ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og forsvarsmönnum Hafrannsóknarstofnunar við fyrsta tækifæri, svo fara megi yfir þau efnislegu rök sem standa til jafn umsvifmikillar skerðingar á fiskeldi á Austfjörðum og lagt er til í niðurstöðum áhættumatsins. Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnvöld skjóti allri ákvarðanatöku á frest sem byggir með einhverju móti á áhættumatinu þar til ljóst er að forsendur matsins séu réttar. Frekari umræða verður á vettvangi sveitarfélagsins um fiskeldismál á næstu misserum og stefnt að íbúafundi með haustinu til að upplýsa um stöðu mála. Vísað til hafnarstjórnar til kynningar. Erindið kynnt.

2.

1707025 - Umsögn vegna fyrirhugaðrar afhendingar Grímuvita til Fjarðabyggðarhafna

Erindi frá Vegagerðinni - siglingasviði dags. 5. júlí 2017 þar sem send er til umsagnar tillaga starfshóps um vitamál um að leggja til að Grímuviti verði hafnarviti í stað landvita og þannig færður undir rekstur og ábyrgð Fjarðabyggðarhafna. Hafnarstjórn telur að Grímuviti sé mikilvægur í vitakerfi landsins sem öryggistæki sjófarenda sér í lagi ef nútíma leiðsögubúnaður bilar. Hafnarstjórn leggst gegn því að vitinn verði lagður niður og leggur til að hann verði áfram rekin af siglingasviði Vegagerarinnar enda hefur ríkið tekjur til að mæta rekstarkostnaði við vita landsins í vitagjöldum.

3.

1707028 - Umsögn vegna fyrirhugaðrar afhendingar Norðfjarðarhornsvita til Fjarðabyggðarhafna

Erindi frá Vegagerðinni - siglingasviði dags. 5. júlí 2017 þar sem send er til umsagnar tillaga starfshóps um vitamál um að leggja niður Norðfjarðarhornsvita og afskrá úr Vitaskrá. Hafnarstjórn telur að Norðfjarðarhornsviti sé mikilvægur í vitakerfi landsins sem öryggistæki sjófarenda sér í lagi ef nútíma leiðsögubúnaður bilar. Hafnarstjórn leggst gegn því að vitinn verði lagður niður og leggur til að hann verði áfram rekin af siglingasviði Vegagerarinnar enda hefur ríkið tekjur til að mæta rekstarkostnaði við vita landsins í vitagjöldum.

4.

1707093 - Niðurlagning vita

Bréf frá Vegagerðinni til Hafnasambands Íslands er varðar niðurlagningu vita. Hafnarstjórn telur að bæði Grímuviti og Norðfjararhornsviti séu mikilvægir í vitakerfi landsins sem öryggistæki sjófarenda sér í lagi ef nútíma leiðsögubúnaður bilar. Hafnarstjórn leggst gegn því að vitarnir verði lagðir niður og leggur til að þeir verði áfram reknir af siglingasviði Vegagerarinnar enda hefur ríkið tekjur til að mæta rekstarkostnaði við vita landsins í vitagjöldum.

5.

1707018 - Kynningarfundur um endurskoðun byggðakvóta - 11. júlí kl. 10:00-12:00

Kynnt gögn frá kynningarfundi um endurskoðun byggðakvóta sem haldinn var á Breiðdalsvík 11. júlí 2017. Málið kynnt.

6.

1707116 - Vinnustofa Cruise Iceland 2017

Fyrirhugað er að halda vinnustofu á Hótel Glym í Hvalfjarðarsveit í október. Skráningu þarf að vera lokið fyrir 10.ágúst. Hafnarstjórn felur framkvæmdastjóra taka þátt í vinnustofunni.

7.

1706157 - Erindi frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og aðgerðarhópi í loftslagsmálum

Erindi frá Hafnasambandi Íslands dags. 28. júní 2017 þar sem sambandið er beðið um að kom eftirfarandi beiðni til hafna landsins um hvort þær eru reiðubúnar að leggja nafn sitt við áskorun á fulltrúa aðildarríkja hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO), að grípa nú þegar til markvissra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna siglinga, einkum í norðurhöfum. Í því felst bann við notkun svartolíu sem eldsneyti skipa innan þess svæðis sem skilgreint er sem norðurslóðir og að skilgreina svæði norðan 60 breiddargráðu sem Emission controled area (ECA). Hafnarstjórn samþykkir að taka undir áskorunina.

8.

1705166 - Ferða- og markaðsmál

Lagt fram til kynningar minnisblað upplýsinga- og kynningarfulltrúa og atvinnu- og þróunarstjóra um þjónustu Fjarðabyggðar og ferðaþjónustuaðila gagnvart ferðamönnum sem sækja Fjarðabyggð heim, m.a. þjónustu á tjaldsvæðum, opnunartíma stofnana og safna, afþreyingu o.fl. Menningar- og safnanefnd óskar eftir að minnisblað verði kynnt í fastanefndum sveitarfélagsins. Minnisblaðið kynnt.

9.

1706094 - Fjögurra ára samgönguáætlun 2018 til 2021 - Umsóknir vegna verkefna í hafnargerð og sjóvörnum

Bréf til Vegagerðarinnar dags. 29. júní 2017 vegna endurskoðunar samgönguáætlunar 2018 - 2021 lagt fram til kynningar.

10.

1706013 - Fjárhagsáætlun hafnarsjóðs Fjarðabyggðar 2018 ásamt langtímaáætlun

Undirbúningsvinna fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2018 ásamt langtímaáætlun og gjaldskrá. Vísað til vinnu hjá framkvæmdastjóra

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00