mobile navigation trigger mobile search trigger
21.09.2016

31. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1, miðvikudaginn 21. september 2016 og hófst hann kl. 16:30

 

 

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir, formaður, Óskar Þór Guðmundsson, aðalmaður, Elvar Jónsson, aðalmaður, Guðlaug Dana Andrésdóttir, aðalmaður og Einar Már Sigurðarson, áheyrnarfulltrúi.

 

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason

 

 

 

Dagskrá:

 

1.  

1609010 - Kosningavakning ungs fólks

Til umræðu var bréf frá innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra til framhaldsskóla og grunnskóla á landinu þar sem skólar voru hvattir til að nýta tækifæri sem skapast til lýðræðislegrar umræðu í tengslum við alþingiskosningar. Í bréfinu er einnig komið inn á mikilvægi þess að læra um lýðræði í lýðræði. Fræðslustjóri hefur verið í sambandi við grunnskólana í Fjarðabyggð í framhaldi af bréfi ráðherranna. Í skólunum er lýðræði og mannréttindum mikið sinnt þar sem hér er um að ræða einn af sex grunnþáttum menntunar. Meðal annars má nefna að kosningar fara fram í nemendaráð og ungmennaráð og einnig var í nokkrum skólum skuggakosningar í tengslum við forsetakosningarnar í vor. Nemendur hafa einnig meiri áhrif en áður á kennsluhætti, val á viðfangsefnum og skólastarfið almennt. Skólarnir hafa allir tekið bréfið til skoðunar. Hugmyndir eru komnar fram um að halda skuggakosningar fyrir börn á aldrinum 13-18 ára í tengslum við alþingiskosningar í haust. Bæjarráð hefur fjallað um málið og er að skoða hugsanlegar útfærslur í samráði við ungmennaráð. Fræðslunefnd lýsir ánægju með að efldur hafi verið þáttur lýðræðis og mannréttinda í skólum Fjarðabyggðar og lýst vel á hugmyndir bæjarráðs um skuggakosningar.

 

2.  

1609019 - Starfsleyfi fyrir nýja leikskólann Eyrarvellir

Fyrir liggur bréf frá foreldrafélagi leikskólans Eyrarvalla þar sem kemur fram að foreldrar lýsa áhyggjum yfir því að formlegt starfsleyfi var ekki komið þegar skólinn opnaði 18. ágúst. Fræðslustjóri greindi frá því að leikskólinn Eyrarvellir hefði fengið formlegt starfsleyfi innan við viku eftir að skólinn tók til starfa en úttekt á húsnæðinu hafði átt sér stað áður en skólinn opnaði. Fræðslustjóri gerði jafnframt grein fyrir velheppnaðri og fjölmennri opnunarhátíð laugardaginn 17. september. Fræðslustjóri greindi frá því að skólinn hefði fengið margar góðar gjafir, m.a. spjaldtölvur, skjávarpa og fjölmörg vegleg leiktæki. Skólastarf fer vel af stað í nýja húsnæðinu og verið er að ljúka síðustu verkþáttum á lóð. Einnig kom fram að framkvæmdir á Nesgötu væru að hefjast en þær munu auka umferðaröryggi til muna.

 

3.  

1609120 - Framlög vegna stuðnings við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda

Ræddar voru nýjar reglur um framlög vegna stuðnings við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda sem undirritaðar voru 13. apríl 2016. Eins og staðan er í dag eru engir nemendur í tónlistarskólunum í Fjarðabyggð sem lokið hafa að fullu miðnámi í hljóðfæraleik eða grunn- eða miðnámi í söng og því sækja skólarnir í Fjarðabyggð ekki um framlög úr jöfnunarsjóði vegna þeirrar kennslu. Hins vegar sækir sveitarfélagið um styrk vegna hljóðfæranáms nemenda í grunn- og miðnámi sem stunda nám í tónlistarskólum utan lögheimilissveitarfélags, en sá styrkur getur að hámarki verið 50% af kostnaði við námið og ræðst einnig af því hvort fjárframlög eru til staðar. Fræðslunefnd telur mjög mikilvægt að jöfnunarsjóður styrki sveitarfélagið með greiðslu 50% kostnaðar af tónlistarnámi þessara nemenda en það er forsenda þess að hægt sé að tala um að verið sé að vinna að jöfnun á aðstöðumun.

 

4.  

1109095 - Jafnréttisáætlun í Fjarðabyggð 2013 - 2016

Tekin var til umræðu jafnréttisáætlun Fjarðabyggðar 2013-2016. Fræðslustjóri greindi frá því að allir skólar í Fjarðabyggð væru með jafnréttisáætlun og sinntu jafnréttisfræðslu innan skólanna enda jafnrétti einn af sex grunnþáttum menntunar. Í umræðunni kom fram að félagsmálanefnd hefði samþykkt á fundi sínum 20. september 2016 að vinna að endurskoðun jafnréttisáætlunar til næstu þriggja ára með áherslu á aukna fræðslu og þátttöku ungs fólks. Félagsmálanefnd stefnir að því að ljúka endurskoðun fyrir áramót 2016-2017. Fræðslunefnd fagnar allri umræðu um jafnréttismál.

 

5.  

1603038 - Viðmiðunarreglur um úthlutun stöðugilda til leikskóla í Fjarðabyggð

Skólastjórar leikskólanna í Fjarðabyggð og fræðslustjóri hafa í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2016 kannað áhrif viðmiðunarreglna á úthlutun stöðugilda til leikskólanna. Niðurstaða könnunarinnar var sú að reglurnar hefðu lítil sem engin áhrif á heildar stöðugildafjölda og fjölda yfirvinnustunda. Kostirnir við viðmiðunarreglur er hins vegar ótvíræðir þar sem með þeim eykst gegnsæi við úthlutun og jafnræðis er betur gætt. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi viðmiðunarreglur og vísar þeim til bæjarráðs til frekari umræðu og samþykktar.

 

6.  

1605157 - Fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2017 - fræðslunefnd

Fræðslustjóri gerði grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið við gerð launa- og fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 sem og starfsáætlun.

 

 

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30