mobile navigation trigger mobile search trigger
25.05.2017

41. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1 og 2, 24. maí 2017 og hófst hann kl. 15:00

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir Formaður, Kjartan Glúmur Kjartansson Aðalmaður, Aðalheiður Vilbergsdóttir Varamaður, Einar Már Sigurðarson og Þóroddur Helgason.

Áheyrnarfulltrúi: Einar Már Sigurðarson, skólastjóri

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason, fræðslustjóri

 

Dagskrá: 

1.

1705146 - 100 ára fullveldisafmæli

Til umfjöllunar var frétt á vef Ríkisútvarpsins um að 100 ára fullveldisafmæli Íslands verði hátíð þjóðarinnar. Í fréttinni kemur fram að gert sé ráð fyrir hátíðarhöldum allt næsta ár víðs vegar um landið til að fagna aldarafmæli fullveldis Íslands. Einar K. Guðfinnsson, formaður nefndar um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, segir að bæði sé gert ráð fyrir veglegri hátíð 18. júlí á næsta ári á Þingvöllum og 1. desember en sú hátíð verður væntanlega ekki undir berum himni. Haft er eftir Einari að grunnstefið í hátíðarhöldunum sé að þetta verði hátíð þjóðarinnar og reynt verði að virkja sem flesta til þátttöku. Stefnt sé að margs konar viðburðum og hátíðarhöldum sem standi árið um kring 2018 og verði um allt land. Gert er ráð fyrir 200 milljónum króna til aldarafmælisins. Fram kemur að horft verði til aldarafmælis kosningarréttar kvenna sem fyrirmyndar í hátíðarhöldunum. Leitað sé eftir þátttöku skóla, sveitarfélaga og félagasamtaka. Áhugasamir geti sótt um styrk. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að kynna verkefnið fyrir skólunum í Fjarðabyggð og hvetur þá til þátttöku í verkefninu.

2.

1612093 - Útboð á skólamáltíðum í grunnskólum 2017

Fyrir liggur minnisblað fjármálastjóra og fræðslustjóra um útboð á skólamáltíðum, útboð, tilboð og kostnaðaráhrif. Í minnisblaðinu kemur fram að Ríkiskaup hafi annast vinnu við útboðið, en um var að ræða útboð á skólamáltíðum í grunnskólunum á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Stöðvarfirði til þriggja ára. Opnun tilboða fór fram 16. maí hjá Ríkiskaupum. Tvö tilboð bárust og fræðslunefnd leggur til að gengið verði til samninga við lægst bjóðenda, Fjarðaveitingar ehf.,með heildartilboð upp á 48.561.480 kr. Í minnisblaðinu kemur fram að miðað við fjárhagsáætlun 2017 sé um að ræða kostnaðarauka upp á u.þ.b. 2 milljónir króna fyrir haustönn 2017 og fyrir árið 2018 er kostnaðaraukinn u.þ.b.4,5 milljónir króna. Fræðslunefnd óskar eftir að fjárhagsrammi fræðslunefndar verði aukinn sem því nemur. Málinu vísað til bæjarráðs til frekari umræðu og afgreiðslu.

 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:00