mobile navigation trigger mobile search trigger
17.01.2018

50. fundur fræðslunefndar

Fræðslunefnd - 50. fundur

haldinn í Molanum fundarherbergi 1, 17. janúar 2018 og hófst hann kl. 16:30

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir formaður, Elvar Jónsson aðalmaður, Guðlaug Dana Andrésdóttir varaformaður, Aðalheiður Vilbergsdóttir aðalmaður og Ragnar Sigurðsson varamaður,

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason

Dagskrá:

1.

1712075 - Þjónusta talmeinafræðings í heimabyggð

Fyrir liggur bréf frá foreldrum barna í Neskaupstað. Í bréfinu er spurt hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að sveitarfélagið Fjarðabyggð geri samning við talmeinafræðing sem gæti sinnt meðferð á leikskólanum líkt og á Fljótsdalshéraði. Einnig liggur fyrir samkomulag milli velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn með framburðarfrávik, málþroskafrávik og stam og minnisblað fræðslustjóra. Í minnisblaðinu kemur fram að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að gengið yrði til samninga við sjálfstætt starfandi talmeinafræðing bæði varðandi þjónustu við þau börn sem falla undir ábyrgðarsvið sveitarfélagsins og þau sem falla undir þjónustu Sjúkratrygginga Íslands. Jafnframt kemur fram að talmeinafræðingar sem starfa hjá Tröppu hafa veitt talmeinaþjónustu í gegnum fjarfundabúnað í skólum Fjarðabyggðar með góðum árangri. Með samningi við sjálfstætt starfandi talmeinafræðing búsettan hér eystra væri þjónustan styrkt enn frekar. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að ganga til samninga við viðkomandi talmeinafræðing.

2.

1708129 - Fræðslumál starfsmanna grunn- og leikskóla

Lagt er fram til kynningar minnisblað starfshóps um fræðslumál á fjölskyldusviði þar sem fram eru lagðar tillögur í 6 liðum til að efla fræðslu starfsmanna. Fræðslunefnd tekur undir tillögur starfshópsins.

3.

1712055 - Tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum

Fyrir liggja tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum. Hluti af tillögunum snúa að forvörnum í grunnskóla svo minnka megi líkur á brottfalli nemenda þegar í framhaldsskólann kemur. Fræðslunefnd tekur undir tillögur Velferðarvaktarinnar sem falla vel að fjölskyldustefnu Fjarðabyggðar þar sem m.a. er lögð áhersla á forvarnir og þétt samstarf milli grunnskóla og framhaldsskóla við flutning nemenda milli skólastiga. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að fara yfir tillögurnar með skólastjórum grunnskólanna í Fjarðabyggð.

4.

1710151 - Móttaka flóttamanna á árinu 2018

Fyrir liggur minnisblað félagsmálastjóra og fræðslustjóra um móttöku flóttamanna á árinu 2018. Í minnisblaðinu kemur fram að áætlað er að Fjarðabyggð taki á móti 27 flóttamönnum upp úr miðjum febrúar og stefnt er að undirskrift samnings þar um á milli velferðarráðuneytisins og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Móttakan hefur þegar verið kynnt fyrir skólastjórum leik- og grunnskólanna í Fjarðabyggð. Farið var yfir kostnaðarliði og innihald í drögum af samningi milli Fjarðabyggðar og velferðarráðuneytis. Sviðsstjórum fjölskyldusviðs er falið að ljúka gerð samningsins í samráði við bæjarstjóra og leggja hann fyrir bæjarráð til samþykktar.

5.

1801105 - Ósk um breytingu á skóladagatali leikskólans Lyngholts - flutningur á skipulagsdegi

Fyrir liggur minnisblað frá fræðslustjóra þar sem fram kemur að ósk hafi borist frá skólastjórnendum leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði um breytingu á skóladagatali skólans. Um er að ræða flutning á skipulagsdegi. Búið er að bera breytinguna undir foreldraráð skólans sem hefur samþykkt hana fyrir sitt leyti. Um er að ræða skipulagsdag sem átti að vera 6. apríl 2018 og óskað er eftir að hann verði 20. apríl 2018. Ástæðan er verkefnastaða starfsmanna á þessum tíma. Fræðslunefnd samþykkir beiðnina og biður leikskólastjóra að auglýsa breytinguna sem fyrst þannig að foreldrar geti gert viðeigandi ráðstafanir.

6.

1801066 - Mötuneyti grunnskólanna

Málinu er vísað til fræðslunefndar eftir umræðu á sameiginlegum fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar. Fram kom í máli fulltrúa ungmennaráðs að bæta megi gæði skólamáltíða. Fræðslunefnd þakkar ábendingar og felur fræðslustjóra í samráði við skólastjórnendur að kanna málið og leita úrbóta. Fræðslunefnd vill jafnframt taka fram að frá og með haustinu 2017 var ákveðið að taka upp sameiginlegan matseðil fyrir alla leik- og grunnskóla í Fjarðabyggð. Matseðilinn rúllar á 7 vikna fresti og þeir sem sjá um matinn hafa úr nokkrum uppskriftum að velja hvern dag. Allir matseðlar eru teknir út af næringarfræðingum og við samsetningu matseðlanna er farið eftir ráðleggingum frá landlæknisembættinu sem styðjast við samnorrænar næringarráðleggingar.

7.

1801065 - Forvarnir og fræðsla

Málinu er vísað til fræðslunefndar eftir umræðu á sameiginlegum fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar. Fram kom í máli fulltrúa ungmennaráðs að mikilvægt væri að auka forvarnir í Fjarðabyggð, bæði fyrir fullorðið fólk sem og ungmenni á grunn- og framhaldsskólastigi. Tillagan er í fjórum liðum, fullorðinsfræðsla, fræðsla um kynhneigð, kynlífsfræðsla í grunnskólum og fræðsla um hættur varðandi rafrettur, áfengi og tóbak. Fræðslunefnd þakkar framkomnar tillögur sem falla vel að fjölskyldustefnu Fjarðabyggðar og starfsáætlunum fjölskyldusviðs fyrir árið 2018. Fræðslunefnd felur starfsmönnum fjölskyldusvið að fylgja málinu eftir.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30