mobile navigation trigger mobile search trigger
01.03.2018

52. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1, 28. febrúar 2018 og hófst hann kl. 16:30

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir formaður, Aðalheiður Vilbergsdóttir aðalmaður, Kjartan Glúmur Kjartansson aðalmaður, Guðlaug Dana Andrésdóttir aðalmaður og Margrét Perla Kolka Leifsdóttir varamaður.

Áheyrnarfulltrúar: Lísa Lotta Björnsdóttir leikskólastjóri, Birgir Jónsson grunnskólastjóri og Bryndís Guðmundsdóttir frá Fjarðaforeldrum.

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason fræðslustjóri

 Dagskrá:

1.

1802057 - Tækninotkun í skólastarfi í Fjarðabyggð

Tekin var til umræðu tölvupóstur frá Helgu Ósk Snædal Þórormsdóttur grunnskólakennara í Fjarðabyggð, sem meðfram kennslu stundar meistaranám í upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri. Í tölvupóstinum og meðfylgjandi bæklingi sem hún ásamt öðrum nema við HA útbjó í skólanum fjallar hún um tækninotkun í skólastarfi og fyrirsjáanlegar breytingar bæði hvað varðar kennaranám og endurmenntun kennara sem og kennsluhætti í skólum. Fram kemur að víða er hafið gott starf í grasrótinni sem nauðsynlegt er að styðja vel við en einnig er kallað eftir kennslufræðilegri leiðsögn í UT innan skólanna. Fræðslustjóri sagði þetta vera eitt af viðfangsefnum skólanna. Hann gat þess að á síðasta fundi grunnskólastjóra hefðu UT málin verið til umræðu og rætt hvernig hægt væri að styrkja það starf, m.a. með kennsluráðgjöf. Hann sagði frá menntabúðum kennara, grasrótarstarfi kennara, sem hann hefði fengið að taka þátt í og sveitarfélagið hefði styrkt og tók fram að mikilvægt væri að styðja vel við slíkt frumkvöðlastarf í skólunum. Fræðslunefnd þakkar fyrir tölvupóstinn og felur fræðslustjóra og skólastjórnendum að fylgja málinu eftir og vísar málinu til umræðu um starfs- og fjárhagsáætlun 2019.

2.

1712003 - Í skugga valdsins

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. janúar 2018 var lögð fram viljayfirlýsing, dags. 11. janúar 2018, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Málinu var vísað til vinnslu í starfshópi bæjarráðs og til kynningar í fastanefndum bæjarins. Lagt fram til kynningar.

3.

1712075 - Þjónusta talmeinafræðings í heimabyggð

Fyrir liggja drög að samningi við sjálfstætt starfandi talmeinafræðing um talmeinaþjónustu. Fræðslunefnd samþykkir drögin og felur fræðslustjóra að vinna málið áfram.

4.

1802129 - Kennslutímamagn grunnskóla skólaárið 2018-2019

Til umræðu var kennslutímamagn grunnskólanna í Fjarðabyggð fyrir skólaárið 2018-2019. Við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2018 sem unnin var í september og október var gengið út frá ákveðnu tímamagni miðað fyrirsjáanlegan nemendafjölda. Fræðslustjóri fór yfir breytingar sem orðið hafa í grunnskólunum frá því í haust. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi kennslutímaúthlutun.

5.

1710151 - Móttaka flóttamanna á árinu 2018

Fræðslustjóri gerði fræðslunefnd grein fyrir skipulagi í kringum móttöku flóttamanna til Fjarðabyggðar.

6.

1802154 - Styrktarsjóður EBÍ 2018

Auglýst hefur verið eftir umsóknum í Styrktarsjóð EBÍ. Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Fræðslunefnd beinir því til starfsmanna fjölskyldusviðs að leita eftir áhugaverðum verkefnum sem hægt væri að sækja um. Nefndin vísar einnig málinu til kynningar í félagsmálanefnd, eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd, hafnarstjórn og menningar- og safnanefndar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:40