mobile navigation trigger mobile search trigger
09.05.2017

94. fundur félagsmálanefndar

Félagsmálanefnd - 94. fundur  

haldinn í Molanum fundarherbergi 1 og 2, 9. maí 2017 og hófst hann kl. 16:00

Fundinn sátu Hulda Sigrún Guðmundsdóttir Formaður, Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir Aðalmaður, Ásmundur Páll Hjaltason Aðalmaður, Valdimar O. Hermannsson Varaformaður, Heiðar Már Antonsson Varamaður, Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir og Þóroddur Helgason Embættismaður.

Fundargerð ritaði Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir. 

Dagskrá: 

1.

1703205 - Húsnæðisáætlun fyrir allt Austurland

Erindi Sambands sveitarfélaga um mögulega þátttöku sveitarfélaga á Austurlandi við gerð sameiginlegrar húsnæðisáætlunar fyrir Austurland var vísað frá bæjarráði til umfjöllunar hjá félagsmálanefnd. Einnig er skýrsla Capacent um greiningu á húsnæðismarkaði í Fjarðabyggð lögð fram sem trúnaðarmál til kynningar. Ennfremur liggur fyrir skýrsla Capacent um húsnæðismarkaðinn í Fjarðabyggð, sjá næsta mál. Félagsmálanefnd visar málinu til frekari umræðu á sameiginlegum fundi ESU og félagsmálanefndar sem fyrihugaður er í maímánuði.

2.

1611104 - Húsnæðisstefna Fjarðabyggðar - TRÚNAÐARMÁL

Fyrir liggur skýrsla Capacent sem fjallar um fasteignagreiningu í Fjarðabyggð. Fjármálastjóri gerði grein fyrir skýrslunni. Félagsmálanefnd frestar frekari umræðu til sameiginlegs fundar ESU og félagsmálanefndar sem ráðgerður er í maí 2017.

3.

1705014 - 434.mál til umsagnar tillöga til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017-2021

Meginforsendur og markmið stefnu í málefnum fatlaðs fólks eru að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd þannig að full mannréttindi fatlaðs fólks verði efld, varin og tryggð til jafns við aðra og skilyrði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum.

Lögð verði áhersla á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar þannig að tryggt verið að fatlað fólk njóti mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra og því tryggður stuðningur til að njóta þeirra réttinda. Þá mun fatlað fólk njóta góðs af öllum almennum aðgerðum stjórnvalda, s.s. á sviði húsnæðis-, mennta-, trygginga- og atvinnumála.

Í framkvæmdaáætlun sem miðar að því að ná fram markmiðum stefnu í málefnum fatlaðs fólks verði lögð áhersla á ákveðin grunngildi, svo sem eitt samfélag fyrir alla, jöfn tækifæri og lífskjör, algilda hönnun sem gagnast öllum og því að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Skilyrði verði sköpuð fötluðu fólki til að lifa sjálfstæðu lífi með aðgengi til jafns við aðra, hvort sem um ræðir aðgengi að manngerðu umhverfi, samgöngum, þjónustu, upplýsingum eða möguleikum til tjáskipta, sem auðveldar samfélagsþátttöku og virkni í daglegu lífi.

Framkvæmdaáætlunin byggist á þremur lykilþáttum sem eru forsendur þjónustu við fatlað fólk. Þessir þættir eru fjármögnun, upplýsingasöfnun og upplýsingamiðlun. Allir þessir þættir reyna á samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Félagsmálanefnd gerir ekki athugasemd við tillöguna en vísað er til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

4.

1705020 - 436. mál til umsagnar frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Með frumvarpi þessu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.
Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti
og þjóðernisuppruna sem og að koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga vegna fyrrnefndra ástæðna. Þá er frumvarpinu jafnframt ætlað að vera liður í því að hindra að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur. Með frumvarpinu verður einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna veitt aukin réttarvernd. Enn fremur verður einstaklingum sem telja sér mismunað
á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna, utan vinnumarkaðar, í fyrsta skiptið hér á landi veitt heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar. Þannig er frumvarpinu ætlað að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu.
Einstaklingar munu því njóta meiri verndar en þeir hafa áður hafa notið í tilteknum tilvikum en gera verður ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði lítil á þeim sviðum þar sem þegar eru í gildi lög sem banna mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna, svo sem innan stjórnsýslunnar.
Félagsmálanefnd gerir ekki athugasemd við frumvarpið en vísað er til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

5.

1705029 - 439.mál til umsagnar frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga (innleiðing samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál),

Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi á ákvæðum laganna um skipulag og stjórn og hlutverk félagsmálanefnda. Eru þar lagðar til breytingar á skipulagi félagsþjónustu innan sveitarfélaga til samræmis við endurskoðuð sveitarstjórnarlög frá árinu 2011. Þá
er einnig hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra, m.a. með því að fela honum að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að því hvort reglur sveitarfélagsins eigi sér fullnægjandi lagastoð. Breytingarnar lúta líka að því að skýra feril ágreiningsmála og kæra innan stjórnkerfisins.

Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna ákvæði um samráð við notendur þjónustunnar og sérstök notendaráð fyrir einstaka hópa notenda.
Í þriðja lagi er fjallað um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu sem fjallað er um í lögunum. Eru ákvæðin færð til samræmis við ákvæði sem lögð eru til í frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Er einnig lagt til að ákvæði um starfsfólk sem vinnur við félagsþjónustu séu færð til samræmis við þau lagaákvæði sem gilda um fólk sem starfar í þjónustu
við fatlað fólk.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á VII. kafla sem nú fjallar um félagslega heimaþjónustu. Er lagt til að fyrirsögn hans breytist og verði „Stuðningsþjónusta.“ Þjónusta þessi er fyrir alla sem hafa viðvarandi eða tímabundnar stuðningsþarfir en gengið er út frá því að þegar þjónustuþarfir verði meiri en sem nemur 10 til 15 tímum á viku taki við sértækari þjónusta, m.a. á grundvelli frumvarps þess sem lagt er samhliða þessu um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.
Ákvæði um akstursþjónustu, sem hafa verið í lögum um málefni fatlaðs fólks, eru skýrð og flutt í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem um almenna þjónustu er að ræða fyrir fatlað fólk, óháð því hversu mikla þjónustu því er veitt.

Að lokum er ákvæðum um húsnæðismál breytt til samræmis við frumvarp til laga um breytinguá lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem ætlunin er að leggja fram aftur, en frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 145. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Í því frumvarpi eru ákvæði um
skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum gerð skýrari. Er þannig gert ráð fyrir að almenn ákvæði um skyldu sveitarfélaga t.d. til að tryggja framboð á hagstæðu og viðeigandi húsnæði í sveitarfélaginu
verði öll á einum stað, í lögum um húsnæðismál.

Félagsmálanefnd gerir ekki athugasemd við frumvarpið en vísað er til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

6.

1705030 - 438. mál til umsagnar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir

Markmið laganna er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.

Til þess að auka val fatlaðs fólks um þjónustu og fyrirkomulag stuðnings skulu sveitarfélög vinna að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í samræmi við 11. gr. á tímabilinu 2017-2022.

Félagsmálanefnd gerir ekki athugasemd við frumvarpið en vísað er til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

7.

1704098 - Ungt fólk - 8.-10.bekkur - vímuefnanotkun

Fyrir liggur skýrsla frá Rannsóknum og greiningu um vímuefnanotkun ungs fólks í Fjarðabyggð. Skýrslan byggir á könnun sem lögð var fyrir alla nemendur í 8. til 10. bekk á Íslandi í febrúarmánuði árið 2017. Forvarnarstarf meðal unglinga í grunnskólum hefur verið mjög öflugt undanfarin ár og er hið svokallaða „íslenska módel“ nú notað sem fyrirmynd starfs víðs vegar í Evrópu. Fjarðabyggð hefur um 10 ára skeið verið með samning við Rannsóknir og greiningu um að taka saman sérstaka skýrslu fyrir sveitarfélagið og aðstoða við kynningu á niðurstöðum. Þriðjudaginn 25. apríl voru niðurstöður kynntar á opnum fundi um vímuefnamál í Grunnskólanum á Reyðarfirði. Niðurstöðurnar sýndu að ungmennin okkar eru áfram afhuga vímuefnanotkun. Tóbaks- og áfengisnotkun og notkun á ólöglegum vímuefnum er hverfandi. Eina vímuefnið sem fer uppá við í notkun er rafrettan, en í Fjarðabyggð eins og á landinu öllu eru ungmenni að fikta við hana og þar er mikilvægt að spyrna við fótum. Eftirtektarvert er að ungmennin segja afstöðu foreldra mjög skýra gegn allri notkun vímuefna, en skýr afstaða og stuðningur foreldra við ungmennin skiptir gríðarlegu máli. Félagsmálanefnd lýsir ánægju með afstöðu unga fólksins til vímuefnanotkunar.

8.

1406154 - Málefni flóttafólks

Félagsmálastjóri og fræðslustjóri fóru yfir hvernig staðið væri að móttöku flóttafólks hjá Fjarðabyggð og sögðu frá samstarfi fjölskyldusviðs við stofnanir sem málefnið varðar. Félagsmálanefnd lýsir ánægju sinni með framgang þessa mikilvæga verkefnis.

9.

1703101 - Fjárhagsaðstoð

Greinargerð ráðgjafarþroskaþjálfa kynnt - Trúnaðarmál.

10.

1606028 - Samningur um félagsstarf eldri borgara í Neskaupstað

Samkvæmt 40. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skal sveitarfélag tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi.
Í Neskaupstað hefur Fjarðabyggð haldið úti félagsstarfi í Breiðabliki. Starfsemin þar hefur með árunum þróast í að þangað mæta aðeins íbúar Breiðabliks og helst í þeim tilgangi að taka í spil.
Á sama tíma hefur Félag eldri borgara á Norðfirði verið með fjölbreytta og vel skipulagða dagskrá í Sigfúsarhúsi fyrir félagsmenn.
Viðræður hafa verið á milli Fjölskyldusviðs og stjórnar Félags eldri borgara á Norðfirði um að gera með sér sams konar þjónustusamning og félögin á Eskifirði og Fáskrúðsfirði hafa gert, þannig að Félag eldri borgara í Neskaupstað taki að sér að tryggja öldruðum í Neskaupstað aðgang að félags- og tómstundastarfi við þeirra hæfi sbr. ákvæði í 40. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Á fundi Félagsmálastjóra og stjórn Félags eldri borgara á Norðfirði var
samþykkt að ganga til samninga fyrir næsta starfstímabil með fyrirvara um
samþykki félagsmálanefndar og bæjarráðs.

Félagsmálanefnd samþykkir samninginn og vísar honum til bæjarráðs til staðfestingar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:32.