mobile navigation trigger mobile search trigger
22.05.2013

Stækkun Norðfjarðarhafnar

Undirritaður var í dag samningur um fyrsta verkhluta vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar og framkvæmda við smábátahöfn. Verkhlutinn var boðinn út og reyndist Héraðsverk ehf. með lægsta tilboð eða 168 mió kr. Samsvarar það 75% af kostnaðaráætlun.

Undirritaður var í dag samningur um verktöku Héraðsverks ehf. vegna stækkunar Norðfjarðarhafnar. Verkhlutinn er sá fyrsti af þremur og jafnframt sá stærsti, en hann nær m.a. til jarðvinnu, færslu á görðum og gerð smábátahafnar.

Þessi fyrsti verkhluti var boðinn út og bárust fjögur tilboð alls. Þeir sem buðu voru Norðurtak ehf., Hagtak hf., Ingileifur Jónsson ehf. og Héraðsverk ehf.

Tilboð Hérðasverk upp á 168 mió kr reyndist lægst, en það nam 75% af kostnaðaráætlun verkhlutans. Hæsta tilboð nam 111% af kostnaðaráætlun.

Enn á eftir að bjóða hina tvo verkhlutana út, en annar hlutinn snýr að dýpkun hafnarinnar og sá þriðji að lengingu stálþils.

Samningurinn tók gildi við undirritun og munu framkvæmdir hefjast strax eftir næstu helgi. Verklok eru svo ráðgerð 31. október 2014.

Vegna framkvæmda við Norðfjarðarhöfn getur orðið röskun á umferð smábáta og annarra um höfnina. Vonast er til að hlutaðeigandi sýni því skilning, en leitast verður við að greiða fyrir hafnarumferð sem kostur er á meðan framkvæmdum stendur.