Sameiningarmál - Kynningarefni
Ávarp til íbúa Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar
Laugardaginn 24. mars 2018 verður kosið um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. Ef í báðum sveitarfélögum reynast fleiri kjósendur fylgjandi sameiningu en andvígir telst hún samþykkt og tekur hún gildi 10. júní 2018 eftir staðfestingu ráðuneytis sveitarstjórnarmála.
Í ársbyrjun 2017 bjuggu í Fjarðabyggð 4.691 íbúar, en í Breiðdalshreppi 182. Að landstærð er Fjarðabyggð 1.163 km², eða tæplega þrefalt stærri en Breiðdalshreppur, sem er 452 km². Samanlagt eru þessi sveitarfélög 1.615 km² og yrðu einungis 20 sveitarfélög á Íslandi stærri að flatarmáli, komi l sameiningar. Nýtt sveitarfélag yrði í 10. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélögin á Íslandi.
Samgöngur eru ágætar á milli byggðarlaganna. Í öllum þéttbýliskjörnum í Fjarðabyggð er sjávarútvegur veigamikil atvinnugrein og hið sama gildir um Breiðdalsvík. Hefð er fyrir öflugum landbúnaði í Breiðdal og sú atvinnugrein vegur þyngra þar en í nokkru byggðarlagi Fjarðabyggðar. Ennfremur er ferðaþjónusta öflug í báðum sveitarfélögunum og í raun er hún ein af þýðingarmestu atvinnugreinum í Breiðdalshreppi. Auk þess eru vonir bundnar við þann kraft og áræðni, sem stofnun nýrra fyrirtækja í byggðarlaginu ber vott um.
Í byggðalögum Fjarðabyggðar er að finna skólastofnanir, heilsugæslu, ýmsa menningar- og félagsstarfsemi, hafna- og þjónustustarfsemi og margt fleira, sem gerir sveitarfélagið aðlaðandi til búsetu. Allt þetta á einnig við um Breiðdalshrepp.
Samstarfsnefnd á vegum sveitarfélaganna hefur undanfarið undirbúið tillögu að sameiningu, safnað upplýsingum og byggt upp áætlanir sem fela í sér hvað gerast muni, verði sameining samþykkt. Nefndin er sammála um að það feli í sér augljósa kosti fyrir svæðið í heild, ef af sameiningu verður. Eins og fram kemur í kynningarefni er ljóst að umtalsverðir opinberir fjármunir myndu fylgja í kjölfarið, bæði til niðurgreiðslu skulda beggja sveitarfélaganna og til uppbyggingar innviða í Breiðdalshreppi. Það er því skýrt álit nefndarinnar, að sameiningu muni fylgja öflugt sveitarfélag, sem verði vel í stakk búið að veita góða þjónustu til lengri tíma litið, öllum búum þess til góða.
Við viljum að lokum hvetja íbúa til að kynna sér kynningarefni sem sett er fram á þessari síðu. Ef spurningar kvikna má senda fyrirspurnir í tölvupósti til sveitarfélagana og starfsmenn þeirra sjá til þess koma þeim rétta leið.
Fyrir hönd samstarfsnefndarinnar,
Jón Björn Hákonarsson og Hákon Hansson