mobile navigation trigger mobile search trigger

VOR Í FJARÐABYGGÐ

"Ó blessuð vertu sumarsól"

Árleg vorhreinsun í Fjarðabyggð

Dagana 21. – 28. maí nk. fer fram hin árlega vorhreinsun í Fjarðabyggð. Starfsmenn framkvæmda- og þjónustumiðstöðva fara þessa daga um bæjarkjarnanna og hreinsa upp bæði garðaúrgang sem annað rusl sem óskaðer eftir að verði hirt. Íbúar þurfa að setja, á snyrtilegan hátt, út fyrir garða sína garðúrganginn sem óskað er eftir að verði sóttur.

Ef fjarlægja þarf stærri hluti af lóð s.s. afskráð ökutæki, vinnuvélar, báta og annað slíkt er hægt að fá aðstoð hjá þjónustu- og framkvæmdamiðstöð Fjarðabyggðar. Til að komast í samband við þjónustu- og framkvæmdamiðstöð er hægt að hafa samband í síma 470 9000.

Tökum höndum saman og förum inn í sumarið í snyrtilegri Fjarðabyggð.

Kæri íbúi

Gleðilegt sumar, með von um að sumarið eigi eftir að verða okkur öllum ánægjulegur og gefandi tími.

Ég vil í upphafi hvetja alla íbúa sem og fyrirtæki í Fjarðabyggð að taka þátt í hinni árlegu vorhreinsun sem fer fram dagana 21. – 27. maí. Starfsmenn sveitarfélagins munu á næstu dögum vera á ferðinni í bæjarkjörnum og hreinsa upp þann garðaúrgang sem settu hefur verið út fyrir  lóðamörk. Það er því um að gera að nota tækifærið og taka til hendinni í garðinum og nánasta umhverfi.

Í vetur steig Fjarðabyggð stórt skref í umhverfismálum þegar ákveðið var að byrja að flokka lífrænan úrgang. Með því að hefja sérstaklega söfnun á lífrænum úrgangi er stigið enn eitt skrefið í að minnka kostnaðarsama og óumhverfisvæna urðun. Þeim lífræna úrgangi sem til fellur verður síðan breytt í fyrirtaks moltu sem íbúar geta nýtt sér til ræktunar. Þannig verður til mikilvæg hringrás efna þar sem úrgangi er breytt í afurð.

Annað mikilvægt skref sem Fjarðabyggð er nú að stíga í umhverfismálum er þátttaka í verkefnum sem tengjast endurheimt votlendis. Talið er að allt að 70% af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi komi frá framræstu og röskuðu votlendi en við það að ræsa fram mýrar rotna þær og gróðurhúsalofttegundir s.s. koltvísýringur losna út í andrúmsloftið. Endurheimt votlendis er því mikilvægur í að minnka losun gróðhúsaloftegunda. Í sumar mun Landgræðslan hefja rannsóknir í landi Hólma og Kollaleiru í Reyðarfirði með tilliti til magns á losunar koltvísýrings. Í framhaldi af því verður á árinu 2019 hafist handa við að fylla í skurði á svæðunum.

Sveitarfélagið er vel á veg komið í umhverfismálum og gaman hefur verið að sjá hversu mjög ásýnd fjarðanna hefur breyst til hins betra á síðustu árum. Þeir vekja aðdáun fyrir snyrtimennsku og náttúrufegurð og draga að sér fólk víðsvegar af landinu og úr öllum heiminum. Þessir fallegu firðir eru arfur næstu kynslóða og með góðri umgengni munum við skila landinu af okkur í enn betra ástandi en þegar við tókum við því. Okkur ber að axla ábyrgð í úrgangs- og umhvefismálum og ein leið til þess er að koma í veg fyrir hverskyns sóun. Því er mikilvægt að við endurnýtum og endurvinnum hráefni eins og kostur er.

Líkt og áður mun ég leggja mig fram um, að sveitarfélagið standi við bakið á íbúum og fyrirtækjum, með það að markmiði að við getum öll verið stolt af umhverfi okkar. Með samstilltu átaki í hreinsun og umhirðu munum við festa sess okkar í fremstu röð í umhverfismálum. Lögð verður eins og áður áhersla á samvinnu við íbúa og fyrirtæki um úrgangsfokkun ogumhirðu umhverfisins. Látum hendur standa fram úr ermum öll sem eitt og sameinumst um að fegra nánasta umhverfið okkar, samfélaginu okkar öllu til heilla.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Kortasjá

Korta- og landupplýsingakerfi er aðgengilegt á heimasíðu Fjarðabyggðar.

Í kortasjánni er hægt að skoða teikningar af byggingum, fá upplýsingar um lagnir s.s. vatnsveitu, fráveitu og hitaveitu og þar eru upplýsingar um aðalskipulag, deiliskipulag og minjavernd.  Í kortasjánni er einnig hægt að skoða loftmyndir og götukort, mæla vegalengdir ofl.

Kortasjáin er tengd Þjóðskrá Íslands og er hægt að nálgast þar opinberar upplýsingar fyrir einstaka hús eða stærri svæði.

Upplýsingar og aðstoð varðandi notkun á kortasjá veitir Kristrún í síma 470-9000 eða á netfanginu kristrun.ragnarsdottir@fjardabyggd.is

Íbúagátt

Í Íbúagáttinni inná fjardabyggd.is er hægt að sjá álagningaseðla fasteignagjalda, gjaldayfirlit gagnvart sveitarfélaginu og hægt að sækja um þjónustu þess. Til þess að nálgast þetta þarf að innskrá sig með Íslykli eða Rafrænum skilríkjum.

Í Íbúagáttinni er einnig hægt að sækja um ýmsa þjónustu framkvæmda- og umhverfissviðs og leyfisumsóknir til skipulags- og byggingarfulltrúa. Hægt er að sækja um lóð, land til leigu, byggingarleyfi, stöðuleyfi og leyfi til dýrahalds, hvort sem um er að ræða hunda, ketti eða fiðurfé. Eftir að sótt er um er hægt að hafa samskipti við þann sem sér um málið í gegnum Íbúagáttina og afgreiðsla málsins verður síðan þar í gegn einnig.

Losun garðaúrgangs

Móttaka garðúrgangs verður með sama sniði og síðasta sumar þar sem lagt er upp með endurvinnslu gróðurs s.s. sláttagras og trjágreinar. Endurvinnslan er í reynd umbylting garðúrgangs í gróðurmoltu og því ætti etv. að frekar að tala um garðefni í þessu samhengi.

Norðfjörður: Gámur verður við Naustahvamm, Naustahvammi 19, utan við gömlu saltfiskverkunina. 

Eskifjörður: Gámur verður fyrir neðan söfnunarstöð (bak við hafnarvog). Einnig er hægt að losa stærri garðaúrgang (greinar og tré) á nýjum stað, við Hjallaleiru í Reyðarfirði. 

Reyðarfjörður: Nýr staður að Hjallaleiru, móttaka hættir við Teigargerði

Fáskrúðsfjörður: Losað í gryfju við hlið söfnunarstöðvar. 

Stöðvarfjörður: Losað við Byrgisnes. Mikilvægt að muna eftir að taka allt plast og annan ólífrænan úrgang með af svæðinu.

Matjurtagarðar

Afnot af garðlandi eru íbúum í Fjarðabyggð að kostnaðarlausu. Mælst er til þess að hver reitur sé ekki stærri en 50 m2 og afmarkaður með sýnlegum hætti. 

Staðsetning garðlanda er sú sama og áður: 

Norðfjörður: Svæði fyrir ofan Nesbakka. 

Eskifjörður: Svæði ofan Dalbrautar og innan spennistöðvar. 

Reyðarfjörður: Svæði í Teigagerði á milli kirkjugarðs og starfsmannaþorps.

Fáskrúðsfjörður: svæði á Kirkjubóli.

Stöðvarfjörður: Svæði utan skógræktar, utan við bæinn.

Mundu að skilja ekki eftir plast eða annan ólífrænan úrgang á svæðinu. 

Í lok maí verða garðarnir plægðir og gerðir tilbúnir til ræktunar. Hafið samband við bæjarverkstjóra Fjarðabyggðar fyrir nánari upplýsingar um garðana. 

Garðeigendur athugið!

Sjá þarf til þess að gróður trufli ekki eða hindri umferð gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda:

  • Snyrta til limgerði eða annan trjágróður sem vex út á gangstéttir og stíga.
  • Klippa burt trjágróður sem vex fyrir eða skyggir á umferðarmerki.
  • Klippa til og snyrta gróður sem kann að vera nágrönnum til ama.  
  • Tré sem veldur miklum skugga á nágrannalóð getur þruft að fella.

Gróðurmold í garðinn: Vegna framkvæmda í sveitarfélaginu fellur oft til gróðurmold sem nota má í garða og beð. Fáðu samband við verkstjórann á þínum stað í 470 9000 og fáðu upplýsingar um hvort ákjósanleg mold sé í boði.

Gæludýraeigendur vinsamlegst athugið!

Afar mikilvægt er að eigendur gæludýra sýni öðrum tillitssemi og fari eftir þeim reglum sem um dýrahaldið gilda. Á vef Fjarðabyggðar undir þjónustu eru samþykktir um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu ásamt kortum yfir skilgreind hundasvæði, en lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýli Fjarðabyggðar

Kettir skulu einnig vera örmerktir og hafa hálsól með bjöllu, sér í lagi á sumrin á meðan varptíma fugla stendur.

Hafðu þitt á hreinu

Nú þegar vorið er komið og sumarið á næsta leiti, eru margir að hugsa um að fegra umhverfi sitt með ýmsum smábyggingum, pöllum og girðingum.

Við fögnum fegrun í sveitarfélaginu en til að koma í veg fyrir ágreining og að ekki sé ráðist í óleyfilegar framkvæmdir er minnt á að í mörgum tilfellum þarf að sækja um leyfi fyrir:

  • Garðskúrum
  • Pöllum
  • Girðingum og skjólveggjum
  • Móttökuloftnetum og móttökudiskum

Frekari upplýsingar má nálgast hjá skipulags- og byggingafulltrúa í síma 470-9000 eða í netfanginu byggingarfulltrui@fjardabyggd.is

Upplýsingar um hvaða framkvæmdir eru undanþegnar byggingarleyfi má einnig finna í gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Byggingarreglugerð er aðgengileg á slóðinni www.reglugerd.is

Stöðuleyfi

Sækja þarf um stöðuleyfi hjá skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar til að láta gáma og aðra lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulöog ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.

Hægt er að nálgast reglur um stöðuleyfi lausafjármuna í Fjarðabyggð og gjaldskrá, á heimasíðu Fjarðabyggðar, www.fjardabyggd.is. Umsóknareyðublöð fyrir almenn stöðuleyfi og leyfi á skipulögðum gámsvæðum er að finna í Íbúagátt Fjarðabyggðar.

Skipulögð gámasvæði eru í öllum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 470-9000 eða á netfangið byggingarfulltrui@fjardabyggd.is

Rusl er verðmæti

Flokkun

Í byrjun árs var brúnu tunnunni bætt við í Fjarðabyggð en þar með eru orðnar þrjár tunnur við hvert heimili sem allar eru losaðar á þriggja vikna fresti.

Græna tunnan

Í grænu tunnuna fara öll þau efni sem hægt er að endurvinna svo sem  plastumbúðir, pappír, pappi og málmar.

Brúna tunnan

Í brúnu tunnuna fer sá eldhúsúrgangur sem hægt er að moltugera, svo sem hrísgrjón og pasta, brauð og kökur, kaffi- og tepokar, eldhúsbréf, ávaxta- og grænmetishýði, eggjaskurn, mjöl og eldaðir kjöt- og fiskafgangar.

Gráa tunnan

Í gráu tunnuna fer sá heimilsúrgangur sem hvorki er hægt að endurvinna né moltugera. Allt sem fer í gráu tunnuna endar í urðun og því er mikilvægt að lágmarka innihald hennar með flokkun.

Áhuginn skilar árangri – fyrstu tölur lofa góðu

Undanfarin tvö ára hefur urðaður úrgangur frá heimilum í Fjarðabyggð verið að meðaltali 84%.

Í febrúarmánuði var í fyrsta sinn losað samkvæmt nýju þriggja tunnu kerfi og fór þá aðeins 63% heimilisúrgangs til urðunar. Það er góður árangur og vonandi sú þróun sem koma skal. Athygli vekur að hlutfallsleg minnkun urðaðs úrgangs er ekki einungis tilkomin vegna þess að nú er farið að flokka lífræna úrganginn frá, heldur hefur flokkun endurvinnsluefna einnig aukist. Íbúar eru því almennt farnir að flokka meira.

Þegar dregið er úr magni urðaðs úrgangs hefur það ekki bara í för með sér fjárhagslegan ávinning fyrir sveitarfélagið heldur bætt umhverfi fyrir alla.

Til þjónustu reiðubúin

Starfsfólk framkvæmda og umhverfissviðs er ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa íbúum til aðstoðar og ráðgjafar í umhverfismálefnum sveitarfélagsins:

Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri - anna.b.samuelsdottir@fjardabyggd.is

Marínó Stefánsson, Sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs – marino.stefansson@fjardabyggd.is

Kristrún Ragnarsdóttir, þjónustufulltrúi skipulags- og byggingarsviðs kristrun.ragnarsdottir@fjardabyggd.is

Ragna Davíðsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála – ragna.d.davidsdottir@fjardabyggd.is

Valur Sveinsson, skipulags- og byggingarfulltrúi – valur.sveinsson@fjardabyggd.is

Hafa má samband við starfsmenn sviðsins í síma 470 9000