mobile navigation trigger mobile search trigger
08.12.2017

Fjárhagsáætlun 2018 samþykkt

Á bæjarstjórnarfundi þann 30. nóvember sl. fór fram seinni umræða um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2018 og var hún samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun 2018 samþykkt

Að venju samanstendur fjárhagsáætlunin af tölulegri umfjöllun um annars vegar A-hluta bæjarsjóðs og hins vegar samtekt á A- og B-hluta ásamt greinargerð.  Í A-hluta eru aðalsjóður og eignasjóðir, en veitustofnanir í B-hluta, rafveita, hitaveita, vatnsveita og fráveita, auk hafnarsjóðs, félagslegra íbúða og sorpstöðvar. 

Samkvæmt niðurstöðum fjárhagsáætlunarinnar, nemur afgangur af heildarrekstri sveitarfélagsins í A- og B- hluta 432 millj.kr. Í A-hluta er rekstrarafgangur sem nemur 123 milljónir kr. Áætlað er að handbært fé frá rekstri verði um 1.172 milljónir kr. til að standa straum af reglubundnum afborgunum lána upp á 500 milljónir kr. og fjárfestingum fyrir 801. milljónir kr. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 240 milljónir kr. til að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu innviða.

Stefnt er að því að halda áfram að styrkja starf leik- og grunnskóla á árinu 2018. Forvarnir og heilsueflandi verkefni setja svip á skólastarfið og áfram verður unnið að eflingu læsis og stærðfræði, m.a. með þróunarverkefni í læsi og verkefnum tengdum sáttmála um læsi og sáttmála um bættan námsárangur. Fæðisgjaldskrá grunnskóla og gjaldskrá leikskóla og tónlistarskóla standast samanburð við önnur sveitarfélög, sbr. systkinaafslátt í leikskólum sem og milli frístundaheimila og leikskóla.  Skólamáltíðir í grunnskólum og vistunargjald í leikskólum hækka ekki á milli ára. Systkinaafsláttur leikskólagjalda er óbreyttur og er, ásamt tónlistarskólagjöldum, með því hagstæðasta sem gerist á landinu.

Framkvæmdir verða töluverðar á árinu 2018 líkt og undanfarin ár. Unnið verður áfram að ofanflóðavörnum á Eskifirði og undirbúningur er í gangi varðandi áframhaldandi uppbyggingu ofanflóðavarna í Neskaupstað. Þá verður hafist handa við gerð viðbyggingar við leikskólann Lyngholt Reyðarfirði, ásamt framhaldandi uppbyggingu gatna s.s. við Skólaveg á Fáskrúðsfirði. Einnig verða áfram töluverðar framkvæmdir á vegum Fjarðabyggðarhafna. Heildarfjármagn til framkvæmda á árinu 2018 er áætlað 801 m.kr.  

Hægt er að kynna sér fjárhags- og starfsáætlun Fjarðabyggðar hérna: 

Starfsáætlun 2018

Fjárhagsáætlun 2018

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun 2018 veita Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, pall.b.gudmundsson@fjardabyggd.is og Snorri Styrkársson, fjármálstjóri, snorri.styrkarsson@fjardabyggd.i

Frétta og viðburðayfirlit