mobile navigation trigger mobile search trigger
22.01.2018

Kosning um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar

Ákveðið hefur verið að fram fari kosning meðal íbúa Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar laugardaginn 24. mars 2018 um sameiningu sveitarfélaganna. Í nóvember 2017 skipuðu sveitarstjórnir sveitarfélaganna hvor fyrir sig fulltrúa í samstarfsnefnd um sameiningu. Hefur nefndin skilað áliti ásamt skýrslu þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um málið.

Sveitarstjórnir sveitarfélaganna hafa eins og lög gera ráð fyrir tekið málið til umræðu á tveimur fundum með viku millibili. Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar 18. jan. 2018 var tillaga samstarfsnefndar um kjördag staðfest, en hreppsnefnd Breiðdalshrepps staðfesti tillögu um kjördag á fundi sínum 15. jan. 2018.

Samkvæmt 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga skal kynning á tillögunni og forsendum hennar hefjast eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir kjördag. Á heimasíðum sveitarfélaganna má nálgast kynningarefni um málið fram að kosningu. Verður það sett inn undir heitinu SAMEININGARMÁL - KYNNINGAREFNI. Bætt verður inn efni eftir því sem verkefnið þróast.

Kosning íbúa sveitarfélaganna fer samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar verður hjá sýslumönnum og fljótlega auglýst, hvenær hún getur hafist.

Íbúar sveitarfélaganna eru hvattir til að kynna sér málið, taka þátt í atkvæðagreiðslunni 24. mars og hafa þannig áhrif á framtíðarskipan mála.

19  jan. 2018 

F.h. Breiðdalshrepps,

Sif Hauksdóttir, verkefnastjóri sveitarstjórnarmála


F.h. Fjarðabyggðar,

Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri.

Frétta og viðburðayfirlit