mobile navigation trigger mobile search trigger
28.08.2018

Smiðjudagar í skólum Fjarðabyggðar í tengslum við BRAS

Í tengslum við barna- og ungmennahátíðina BRAS heldur Menningarstofa Fjarðabyggðar Smiðjudaga í skólum Fjarðabyggðar dagana 3. – 7. september. Þar fá börn og ungmenni tækifæri til að kynnast listsköpun í sem víðustu samhengi. Einnig verða haldnir umræðufundir fyrir foreldra um nám gegnum skapandi ferli, og 8. september verður fjölskylduhátíðin BRASILÍA í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði.

Smiðjudagar í skólum Fjarðabyggðar í tengslum við BRAS
Haldinn verður einn dagur í hverju skólasamfélagi og þar fá nemendur tækifæri til kynnast fjölbreyttum listgreinum. Með smiðjudögum viljum við tryggja aðgang barnanna okkar að fjölbreyttum viðfangsefnum og fólki með ólíkan bakgrunn - og stuðla þannig að víðsýni og að hvert og eitt barn/ungmenni finni leiðir til að blómstra á sínum forsendum.
 
Mikið hefur verið lagt uppúr því að bjóða uppá fjölbreyttar smiðjur með sterkum fyrirmyndum fyrir börnin. Áhersla verður lögð á að virkja og nýta mannauð og þekkingu innan hvers skóla, en einnig munu góðir gestir taka þátt í smiðjudögunum og má þar m.a. nefna KiraKira, Gunnar Helgason, Sól Hilmars, Markús Má, Charles Ross, Helgu Rakel, Jón Hilmar, Emelíu Antonsdóttur og Unni Sveinsdóttur. Foreldrar grunnskólabarna eru beðnir að hafa í huga að börnin þurfa að mæta í fötum og skóm sem mega sullast á og jafnvel skemmast og vera viðbúin að vinna jafnt úti sem inni. Elsta stigið þarf að vera í málningarfötum því til stendur ungmennin máli veggi í almenningsrýmum.
 
Lemme Linda tónlistarkennari fyrir ung börn mun heimsækja leikskólana og vinna með börnunum. Starfsfólki leikskólanna er einnig boðið á örnámskeið í tónlistarkennslu leikskólabarna.
 
Tveir umræðufundir verða haldnir fyrir foreldra og forráðamenn um nám gegnum skapandi ferli, þriðjudaginn 4. september kl. 20:00 í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og fimmtudaginn 6. september kl. 20:00 í Grunnskóla Eskifjarðar. Þar verða ýmis málefni rædd t.a.m. að börn séu með meðfætt tóneyra og að ADHD geti verið kostur í skapandi starfi.
 
Fjölskylduhátíðin BRASILÍA fer fram í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði 8. september. Hún hefst, eins og nafnið gefur til kynna, að sjálfsögðu með Karnivali, Gunni Helga heldur uppi góðri stemningu, Daði Freyr treður upp í beinni útsendingu og boðið verður upp á fjölbreyttar uppákomur þar sem börnin eru í aðalhlutverki. Endað verður á reifpartýi fyrir alla fjölskylduna. Börn mæta á vegum foreldra.
 
Allir grunnskólar, leikskólar og tónlistarskólar í Fjarðabyggð eru þátttakendur í smiðjudögum. Fyrirtæki í Fjarðabyggð hafa styrkt smiðjudaga og staðið ötullega við bakið á þeim. Styrktaraðilar eru G. Skúlason, Síldarvinnslan Neskaupstað og Sparisjóður Austurlands. Einnig hefur Hafnarsjóður styrkt verkefnið.

Frétta og viðburðayfirlit