mobile navigation trigger mobile search trigger

Listasmiðjur Menningarstofu Fjarðabyggðar

Menningarstofa Fjarðabyggðar mun halda úti listasmiðjum sumarið 2021 en það eru skapandi námskeið fyrir börn sem lokið hafa 3.-7. bekk grunnskóla (fædd 2008-2012). Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið víðsvegar um Fjarðabyggð og getur hver smiðja tekið við 12-15 börnum nema ljósmyndasmiðjan sem getur einungis tekið við 8 börnum.

Umsóknir

Sótt er um í listasmiðjur í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar. Undir flokknum Þjónustusvið má finna eyðublað sem heitir "Umsókn um þátttöku í listasmiðjum fyrir börn.

Athugið að fylla þarf út eyðublað fyrir hvert barn sem sótt er um fyrir, jafnvel þó um systkini sé að ræða.

Umsóknarfrestur er til 25. maí.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um námskeiðin veitir starfsfólk Menningarstofu í síma 470 9000 eða á netfanginu menningarstofa@fjardabyggd.is.

Kynning á smiðjum sumarið 2021

Teiknikennsla og persónusköpun

7. -11. júní kl. 13:00-16:00.  Staðsetning: Þórsmörk, Þiljuvellir 11 í Neskaupstað. Leiðbeinandi: Hafsteinn Hafsteinsson

Finnst þér gaman að teikna og búa til karaktera? Í smiðjunni fá börn leiðsögn frá myndlistamanninum Hafsteini Hafsteinssyni í því að skapa og teikna fígúrur. Meðal verkefna eru ferðir út undir bert loft þar sem leitast verður við að persónugera umhverfið og hversdagslega hluti sem þar er að finna en einnig verður horft á teiknimyndir og rýnt í myndasögur.

Hafsteinn Hafsteinsson er þaulvanur teiknikennari, málari og myndskreytir og hefur m.a. gefið út vinsælar barnabækur.

Hljóðlist og gjörningar

28. júní - 3. júlí frá 13:00 - 16:00 í Neskaupstað og á Eskifirði

Tón- og listasmiðja þar sem nemendur vinna m.a. með hljóðupptökur, kafa ofan í ýmis listform og rannsaka umhverfi sitt og hljóðin sem þar eru að finna. Ef tækifæri gefst verður t.d. reynt að taka upp hljóð við höfnina og ofan í sjónum. Einnig verður lagt upp með þá hugmyndafræði að fá börnin til að skapa óhindrað, t.d. að spila tónlist án þess að huga að því sem þau kunna heldur hvað þau langar til að skapa og gera. Reglan er að spila ekki tónlist eftir aðra, maður þarf að búa til sín eigin lög og opna flóðgáttirnar. Þetta er góður grunnur fyrir öll börn sem langar til að skapa eitthvað nýtt svo sem að semja lög og vinna með tónlist.

Curver Thoroddsen og Steinunn Eldflaug Harðardóttir eru fjölhæfir og ævintýragjarnir listamenn sem vinna með margvísleg listform. Þau hafa kafað djúpt inn í tónlistina, framið fjölbreytta gjörninga, ferðast vítt um vetrarbrautina, rannsakað hafið og búið til tölvuleiki svo fátt eitt sé nefnt.

Kvikmynda- og margmiðlunarsmiðja

14. - 18. júní frá 12:30 - 16.15 á Stöðvarfirði. Leiðbeinandi: Sigríður Marrow

Í margmiðlunarsmiðju vinna nemendur verkefni í spjaldtölvunni - fréttaþátt um hina ýmsa viðburði í Fjarðabyggð, sem kennari og nemendur ákveða í sameiningu. Nemendur fara í hlutverk fréttamanna, taka viðtöl, taka upp myndefni og ljósmyndir, flytja veðurfréttir og fleira. Kennari fer yfir grunnatriði í myndatöku, myndvinnslu, klippingu, myndbyggingu og fleira. Notast verður við svokallaða grænskjá tækni þar sem við köllum fram fréttasett. Kennt verður á iMovie til að klippa saman efnið. 

Ljós- og kvikmyndir skipa veigamikinn sess í okkar daglega lífi. Markmiðið er að opna fyrir nemendum þennan heim og að þau geti unnið sjálfstætt, virkjað sköpunarkraftinn og hugmyndaflugið.

Sigríður Marrow er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði og M.A. gráðu í menningarmiðlun með áherslu á ljósmyndun. Hún er með kennsluréttindi og hefur undanfarið unnið í kvikmyndagerð, við kennslu og ljósmyndun.

Ljósmyndasmiðja

5. - 9. júlí á Eskifirði frá 13:00 - 16:00. Leiðbeinandi: Yrsa Roca Fannberg 

Í smiðjunni verður farið í grundvallaratriði í ljósmyndun svo sem myndbyggingu, ljóssetningu, og fleira.  Unnið verður með filmuvélar en einnig stefnt er að því að nemendur hafi einnota myndvél til umráða sem þeir sjá svo um að framkalla að námskeiðinu loknu. Þátttakendur fá leiðsögn í því að nota myndavélina sem tæki til listsköpunar ásamt því sem sett verða fyrir verkefni sniðin eftir þörfum hvers og eins. Afrakstur smiðjunnar verður síðan sýndur á BRAS - barna og ungmennahátíð Austurlands, sem fram fer í haust.

Yrsa Roca Fannberg er ein fremsta heimilda-kvikmyndagerðakona landsins og hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi undanfarin ár.  Hún er einnig ljósmyndari og góða og mikla reynslu af því að leiðbeina ungu fólki við ljósmyndun

Þvers og kruss yfir hafið

21. - 25. júní frá 13:00 - 16:00 á Reyðarfirði. Leiðbeinandi Hanna Jónsdóttir

Í smiðjunni "Þvers og kruss við Hafið" þá ætlum við að vera sem mest úti í heila viku. Börnin gera ýmsar æfingar á göngu, leita nýrra leiða til að upplifa náttúruna og skynja umhverfið. Börnin æfa sig í málfari sem tengist útiveru og tala mikið saman. Á göngu fara hugmyndirnar á fleygiferð og farið verður í göngu-gjörninga. Markmiðið er að njóta lífsins og átta sig betur á tækifærum í umhverfinu. Þannig fáum við vonandi fleiri til að feta í spor okkar og læra betur á umhverfið og okkur sjálf. Stefnt er að því að börnin fari í eina stutta vettvangsferð með rútu.

Hanna Jónsdóttir ólst upp í Suðursveit, flutti svo á Höfn, svo til Reykjavíkur, svo til Hollands, þar sem hún lærði vöruhönnun og núna býr hún í Reykjavík nemur listkennslu. Hún hefur alla tíð haft mest gaman af því að brasa eitthvað úti, spá í háttarlag manna og dýra og færa hluti á milli staða með það í hug að gefa þeim nýjan tilgang.