RÁÐNING STARFSFÓLKS
Lögheimili, íslenskukennsla og samfélagsfræðsla
Borið hefur við að einstaklingar eru ekki alltaf rétt skráðir hjá yfirvöldum og getur það valdið vandræðum, sérstaklega þegar fólk þarf að leita réttar síns. Forsenda þess að eiga rétt á almennum sjúkratryggingum, félagsþjónustu, aðgangi að leikskóla, grunnskóla og fleiru er að hafa lögheimilið rétt skráð í Þjóðskrá.
Þegar nýr starfsmaður hefur störf er gott fyrir atvinnurekanda að kanna hvort viðkomandi hafi lögheimili í sveitarfélaginu eða er hann aðkomumaður og þarf að flytja lögheimili fjölskyldu sinnar. Hægt er að nálgast öll eyðublöð vegna flutnings lögheimilis á vef Þjóðskrár eða á bæjarskrifstofum og bókasöfnunum. Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.
Erlendir ríkisborgarar
Ef einstaklingur er erlendur ríkisborgari og ekki með með lögheimili á íslandi þarf að athuga eftirfarandi:
Er viðkomandi með kennitölu?
Er viðkomandi með skattkort?
Er viðkomandi með sjúkratryggingu?
Ef þetta er allt til staðar þarf einungis að fylla út eyðublað til að fá skráningu í þjóðskrá. Gögn og vottorð s.s. fæðingarvottorð og hjúskaparvottorð sem skila þarf inn til þjóðskrár þurfa að vera á íslensku, ensku eða öðru norðurlandamáli þýdd af löggildum skjalaþýðanda. Ráðningarsamning til þriggja mánaða hið minnsta þarf til að komast inn í þjóðskrá.
Íbúar utan EES / eða utan EU
Er viðkomandi með dvalarleyfi / atvinnuleyfi? Athugið að atvinnuleyfi er bundið við það fyrirtæki sem sótti um leyfi í upphafi og því er nauðsynlegt að sækja um atvinnuleyfi á ný fyrir viðkomandi hjá nýju fyrirtæki.