mobile navigation trigger mobile search trigger
04.03.2019

Áhrif loðnubrests

Ljóst er að fjárhagsleg áhrif þess að ef loðna finnst ekki í nægjanlegu magni á íslandsmiðum á yfirstandandi vertíð verða mikil á mörg sveitarfélög, þar sem uppsjávarvinnsla er mikilvægur þáttur í sjávarútvegi þeirra. Óvíða er uppsjávarvinnsla meiri en í Fjarðabyggð og ljóst er að loðnubrestur mun hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.

Áhrif loðnubrests

Í Fjarðabyggð var tekið á móti og unnin um 47% af öllum loðnuafla á árinu 2018. 

Meginniðurstaða samantektar fjármálastjóra Fjarðabyggðar er að launatekjur íbúa í Fjarðabyggð munu lækka að óbreyttu um 5% eða 1,25 milljarð króna á árinu 2019 frá fyrra ári.  Laun starfsmanna í sjávarútvegi munu lækka um 13% frá fyrra ári miðað við lítt breytta loðnuvertíð á milli ára.  Inn í samfélagið mun vanta um 10 milljarða króna í útflutningstekjur.  Velta fyrirtækja sem eru beintengd þjónustu við sjávarútvegsfyrirtækin mun lækka um nálægt 600 milljónum króna. 

Samdráttarins mun einnig gæta í öðrum atvinnugreinum, smitast um samfélagið og koma fram í bjartsýni íbúa og fyrirtækja til fjárfestinga, viðhalds og annarra þjónustukaupa auk áhrifa á fasteignamarkað.  Tekjur sveitasjóðs og hafnarsjóðs munu lækka um 260 milljónir króna frá fjárhagsáætlun ársins 2019.