mobile navigation trigger mobile search trigger
09.02.2018

Barnanúmerið 112

Í tilefni 1-1-2 dagsins þann 11. febrúar vill barnaverndarnefnd Fjarðabyggðar koma á framfæri að neyðarnúmerið 1-1-2 er ekki bara neyðarnúmer þegar slys verða því það er einnig neyðarnúmer barnaverndarnefnda landsins. 

Barnanúmerið 112

Almenningi ber að láta vita ef grunur eða vitneskja er til staðar um slæman aðbúnað barns. Börn geta líka hringt og látið vita um sínar eigin aðstæður eða vina sinna og annarra barna. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og því er mikilvægt að almenningur láti vita af áhyggjum sínum, en treysti ekki á að aðrir hafi samband við barnaverndarnefnd eða barnanúmerið 1-1-2, en um tilkynningarskyldu almennings er fjallað í 16. grein barnaverndarlaga nr. 80/2002.


Þau atriði sem ber að tilkynna eru meðal annars:

  • grunur um líkamlega eða tilfinningalega vanrækslu
  • grunur um heimilisofbeldi (ofbeldi á milli foreldra eða annarra á heimilinu),
    eða líkamlegt, andlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi
  • grunur um að barn sýni áhættuhegðun á borð við áfengis- og vímuefnaneyslu eða endurtekin afbrot
  • grunur um sjálfsskaðandi hegðun barns
  • grunur um að barn beiti aðra líkamlegu, andlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi
  • grunur um að barn fái ekki viðunandi fæði, klæði og húsnæði
  • grunur um að barn sé skilið eftir gæslulaust eða í umsjá annarra barna
  • grunur um að barn búi við áfengis- og vímuefnaneyslu annarra heimilismanna

Þegar  málefni barna eru tilkynnt til Neyðarlínu er tilkynningin metin þar og henni komið áfram til viðeigandi barnaverndarnefndar.
Starfsmenn barnaverndar Fjarðabyggðar standa bakvaktir og eru ávallt viðbúnir að bregðast við ef um bráðatilvik er að ræða.

Fyrir hönd barnaverndarnefndar Fjarðabyggðar
Helga Elísabet Guðlaugsdóttir, félagsmálastjóri