mobile navigation trigger mobile search trigger
12.12.2019

Bókun bæjarstjórnar um málefni Rafveitu Reyðarfjarðar og tækifæri til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Reyðarfirði

Á bæjarstjórnarfundi í dag var kynnt tillaga að sölu Rafveitu Reyðarfjarðar til RARIK/Orkusölunnar. Í framhaldið af því samþykkti bæjarstjórn að boða til íbúafundar í Grunnskólanum á Reyðarfirði mánudaginn 16. desember kl. 20 um málefni Rafveitunnar og tækifæri til uppbyggingar íþróttamannvirkja og annara innviða á Reyðarfirði.

Bókun bæjarstjórnar um málefni Rafveitu Reyðarfjarðar og tækifæri til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Reyðarfirði

Fyrir fundi bæjarstjórnar í dag lágu til kynningar fyrir bæjarfulltrúa kaupsamningur við RARIK ohf. að fjárhæð 440 m.kr. við RARIK, um sölu á dreifikerfi og spennistöðvum Rafveitu Reyðarfjarðar auk búnaðar og tækja sem fylgja eiga. Einnig kaupsamningur að fjárhæð 130 m.kr. við Orkusöluna um sölu á raforkuviðskiptum Rafveitu Reyðarfjarðar, yfirtöku á samningum við Landsvirkjun ásamt rafstöð og stíflu.

Rafveita Reyðarfjarðar er síðasta dreifiveita rafmagns, hér á landi, í beinni eigu og rekstri á hendi sveitarfélags, en umhverfi og regluverk sem veitum er sett í núgildandi raforkulöggjöf er orðið verulega snúið og umfangsmikið. Um langt árabil hefur Rafveita Reyðarfjarðar framleitt um 5% af því rafmagni sem hún endurselur en 95% hafa verið keypt á heildsölumarkaði og það ásamt auknum kröfum í rekstrarumhverfi, samkeppni á raforkumarkaði og tæknilegum lausnum, gera sveitarfélaginu erfitt fyrir með áframhaldandi rekstur á henni í sínu starfsumhverfi. Því telur bæjarstjórn rétt að selja áðurnefndum aðilum Rafveitu Reyðarfjarðar sem sérhæfðir eru í rekstri rafmagnsveitna og sölu raforku í samkeppnisumhverfi enda geti þeir nýtt stærðarhagkvæmni og veitt sömu þjónustu til viðskiptavina veitunnar til framtíðar. Þá eru RARIK og Orkusalan í opinberri eigu, með starfsemi á Austurlandi, og þannig er tryggt að notendur rafveitunnar sitji við sama borð og aðrir íbúar landshlutans hvað varðar öryggi og þjónustu.

Jafnframt vill bæjarstjórn að þeir fjármunir sem sveitarfélagið fær í sinn hlut, eftir greiðslu skatta, af sölu þessari, renni fyrst og fremst til uppbyggingar Íþróttahúss Reyðarfjarðar ásamt öðrum slíkum mannvirkjum og samfélagslegum verkefnum í samfélaginu á Reyðarfirði. Mun verða farið í áætlunargerð vegna þess eftir að ákvarðanir um sölu hafa verið teknar.

Vegna áðurnefndra samninga samþykkir bæjarstjórn með 9 atkvæðum að boðað verði til íbúafundar á Reyðarfirði mánudagskvöldið 16. desember nk. kl. 20:00 til að kynna málið frekar og aukafundar í bæjarstjórn þriðjudaginn 17. desember nk. kl:17:00 þar sem ákvörðun verður tekin.