mobile navigation trigger mobile search trigger
20.04.2021

Frá Slökkviliði Fjarðabyggðar

Rétt eins og þjóðin öll hafa viðbragsaðilar í Fjarðabyggð fundið fyrir heimsfaraldri COVID-19 sem nú hefur geisað í rúmt ár. Hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar hófst þetta óvenjulega tímabil á því að dreifa auknum búnaði til sóttvarna á allar starfsstöðvar og fljótlega þurfti atvinnuliðið á Hrauni að aðskilja vaktirnar og breyta vaktafyrirkomulagi. Við lok fyrstu bylgju fórum við aftur í hefðbundið vaktafyrirkomulag en þó áfram með sóttvarnir í fyrirrúmi, og eins og aðrir landsmenn þá hefur liðið þurft að herða og slaka á reglum í takt við stöðu mála.

Frá Slökkviliði Fjarðabyggðar

En þrátt fyrir heimsfaraldur er grunnur starfsins óbreyttur. Hefðbundin verkefni sjúkraflutninga og slökkvistarfa eru kjarninn í starfinu, bæði fjölbreytt og gefandi. 

Slökkvistöðin á Hrauni er með mannaða stöð allan sólarhringinn og er hún með samþætt starf slökkviliðs og sjúkraflutninga fyrir Reyðarfjörð og Eskifjörð. Í öðrum byggðarkjörnum eru slökkvistörf og sjúkraflutningar aðskildir. Á Norðfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík er hlutastarfandi lið sem manna slökkviliðin og í álveri ALCOA er viðbragðshópur þjálfaðra slökkviliðsmanna undir stjórn og á ábyrgð Slökkviliðs Fjarðabyggðar okkur til aðstoðar í verkefnum í álverinu. Á Norðfirði, Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi er Slökkvilið Fjarðabyggðar með hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á bakvöktum. Alls gera þetta 99 starfsmenn á svæðinu.  

Á venjulegum degi getur ýmislegt komið upp á borð hjá liðinu en algeng verkefni eru flutningar á milli sjúkrastofnana og bráða útköll vegna veikinda eða slysa. Hér á landsbyggðinni eru sjúkraflutningar oft flókin verkefni sem vinna þarf í samstarfi við ýmsa viðbragðsaðila og útheimta mikla útsjónarsemi, einkum vegna langra flutningstíma, veðurs og færðar. Blessunarlega eru útköll vegna elda ekki algeng en staðsetning slökkvistöðvarinnar á Hrauni í návígi við álver ALCOA er til þess að geta brugðist hratt og örugglega við ef eitthvað kemur uppá þar, auk þess að vera miðsvæðis á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar með svipuðum útkallstíma fyrir báða staði. 

Flesta daga eru verkefnin þess eðlis að vaktin getur sjálf sinnt þeim en stundum koma upp verkefni sem krefjast þess að nýttur sé allur kraftur liðsins. Þá getur þurft að kalla inn allar lausar hendur og jafnvel aðstoð víðar að. 

Sem dæmi má nefna eitt stærsta verkefnið sem liðið hefur tekist á við. Sprenging og mikill bruni varð í afriðli í álveri Alcoa í desember 2010. Um 50 þús lítrar af spennaolíu brann upp en alls voru þarna um 200 þús lítrar. Um fjóra tíma tók að kæla, tryggja vettvang og slökkva eldinn. Auk liðsauka frá okkar liðum á Norðfirði og Fáskrúðsfirði var flugvalla slökkvibíll frá Egilsstaðaflugvelli kallaður til aðstoðar. Mengun frá brunanum var mikil en vegna hagstæðrar vindáttar lagði svartan mökkinn út með firðinum en ekki yfir íbúðabyggð.

Fyrir jafn lítið samfélag og Fjarðabyggð þá getur það talist metnaðargjarnt skref að stofna atvinnuslökkvilið í samstarfi við ALCOA og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þar með varð Slökkvilið Fjarðabyggðar eitt af aðeins 4 atvinnuslökkviliðum landsins með staðbundna sólarhringsvakt. Í byrjun voru starfsmennirnir 12, þar af 8 vaktmenn. Vegna aukinna verkefna eru núna 3 á hverri vakt og þess skal getið að af þessum 12 sem standa vaktina þá eru 3 konur, sem gerir 25% vaktliðsins og er það hæsta hlutfall kvenna í atvinnuslökkviliði hér á landi. 

Mikilvægi þess að hafa atvinnulið felst ekki síst í því hafa 24 tíma vakt á staðnum sem eykur viðbragðshraða liðsins en einnig þjónar það stuðningi við hlutastarfandi einingarnar í hinum byggðarkjörnum Fjarðabyggðar. Meðal annars sér atvinnuliðið um að aðstoða hlutastarfandi liðin við þjálfun og endurmenntun bæði á sviði slökkvistarfa og sjúkraflutninga, auk þess sem mikið kapp hefur verið lagt í að fjölga enn frekar grunnmenntuðum sjúkraflutningamönnum og margir hafa því til viðbótar sótt sér framhaldsmenntun í sjúkraflutningum. Innan atvinnuliðsins er einnig krafist atvinnumenntunar í slökkvistörfum en einnig eru tækifæri til menntunar í eldvarnareftirliti og fleiri þáttum. Þannig geta starfsmenn aukið við þekkingu sína á mörgum sviðum. Þó svo slökkviliðið sé vel tækjum búið til að sinna æfingum í slökkvistarfi þá er þörf fyrir fullkomnari búnað, m.a. til æfinga í sjúkraflutningum og er í gangi söfnun fyrir vönduðum hermiþjálfa sem getur líkt eftir helstu einkennum sjúkdóma og áfalla. 

Síðast en ekki síst er mikilvægt það forvarnarstarf, sem slökkviliðið vinnur, meðal annars verkefnið Logi og Glóð sem felst í heimsóknum í leik- og grunnskóla Fjarðabyggðar. Það er slíkt starf sem á stóran þátt í því að lágmarka tíðni eldútkalla á svæðinu og bæta eldvarnir heimila. 

Í dag stendur Slökkvilið Fjarðabyggðar á tímamótum þar sem slökkviliðsstjóri, aðstoðarslökkviliðsstjóri og forstöðumaður eldvarnaeftirlits eru að láta af störfum vegna aldurs. Við það skapast tækifæri til að gera ýmsar stjórnsýslubreytingar. Um leið og við þökkum Guðmundi, Þorbergi og Steini fyrir samstarfið á liðnum árum og þátt þeirra í því að byggja upp þetta öfluga slökkvilið þá viljum við einnig bjóða Sigurjón Valmundarson velkominn til starfa, en hann tekur við starfi slökkviliðsstjóra innan skamms. 

Starfsmenn Slökkviliðs Fjarðabyggðar

Fleiri myndir:
Frá Slökkviliði Fjarðabyggðar