mobile navigation trigger mobile search trigger
09.05.2016

Myglusveppur aftur kominn fram

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur ákveðið að loka tímabundið jarðhæð í vesturálmu Nesskóla í Neskaupstað vegna myglusveppa. Ráðist verður í umfangsmikillar endurbætur á húsnæðinu, í annað sinn á tveimur árum.

Myglusveppur aftur kominn fram
Síðast var farið í umfangsmiklar framkvæmdir á vesturálmu Nesskóla að utanverðu fyrir um áratug og var þessi mynd þá tekin.

Á árinu 2014 staðfestu rannsóknir grun um myglu á jarðhæðinni. Í kjölfarið voru gluggar m.a. endurnýjaðir á suðurvegg álmunnar, veggurinn hreinsaður að innan og klæddur, og skipt var um gólfefni. Að sögn Gunnars Jónssonar, staðgengils bæjarstjóra, er ljóst að þessar aðgerðir hafa ekki dugað til. Verður allra leiða leitað, svo komast megi fyrir rót vandans í eitt skipti fyrir öll.

Vesturálman er elsti byggingarhluti Nesskóla, byggð árið 1930 og hýsir jarðhæðin Tónskóla Neskaupstaðar ásamt myndmenntarstofu Nesskóla. Sýnatökur afmarka meginvandann við jarðhæðina, en alls voru sjö sýni tekin að undangenginni rakagreiningu og mælingum með snertirakamæli. Af þessum sjö sýnum fannst mygla í þremur, tvö í húsnæði tónskólans og eitt við myndmenntarstofu. Þá greindust ummerki um myglu í tveimur sýnum og tvö voru myglulaus.

Sýnatökur fóru fram í apríl sl. og fékk bæjarráð Fjarðabyggðar frumniðurstöður afhentar á fundi sínum í morgun. Ákveðið var í samráði við stjórnendur grunnskólans og tónskólans að loka jarðhæðinni frá og með þriðjudeginum 10. maí, allt þar til endurbótum á húsnæðinu verður lokið.

Jafnframt var sviðsstjóra framkvæmda-, umhverfis- og veitusviðs falið að hefja undirbúning framkvæmda, en fjarlægja verður mygluð og rakaskemmd byggingarefni og klæða álmuna að utan. Þá var fræðslustjóra Fjarðabyggðar falið að meta áhrif aðgerða á skólastarf og grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við skólastjórnendur.

Þau sýni sem leiddu í ljós merki um myglu voru bæði tekin á annarri hæð álmunnar. Samkvæmt niðurstöðum sýnatökunnar mæla sérfræðingar ekki með öðrum aðgerðum að sinni, en að hreinsa rými vel og gæta að loftun.

Vegna lokunar jarðhæðarinnar fellur kennsla niður hjá tónskólanum tvær síðustu vikur skólaársins. Þá verður myndmenntarkennslu sinnt annars staðar í húsnæði Nesskóla. Var starfsmönnum skólanna, foreldrum og nemendum gerð grein fyrir stöðu mála fyrr í dag.

Að öðru leyti liggur umfang aðgerða enn ekki fyrir og verður á næstu vikum farið vandlega yfir ástand húsnæðisins og frekari framkvæmdaþörf. Umsjón með sýnatökum hafði Efla verkfræðistofa. Um rannsóknir á sýnum sá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Mygla og myglugró eru hluti af náttúrulegu umhverfi og geta reynst skaðleg heilsu manna við hagstæð vaxtarskilyrði, sem myndast yfirleitt af völdum vatns og raka. Er þeim aðallega hætta búin sem eru lengur en þrjár klukkustundir á dag samfellt í þess konar aðstæðum, en viðbrögð eru þó einstaklingsbundin.

Tónskóli Neskaupstaðar hefur verið starfandi á jarðhæð Nesskóla frá árinu 2004. Samstarf skólanna hefur reynst vel og er stefnt að óbreyttu fyrirkomulagi, svo framarlega sem húsnæði skólans kemst í samt lag.

Fleiri myndir:
Myglusveppur aftur kominn fram
Nesskóli í Neskaupstað.