mobile navigation trigger mobile search trigger
29.09.2017

Vel sóttur fyrirlestur Dr. Janusar Guðlaugssonar

Fjölmargir sóttu fyrirlesturinn Fjölþætt heilsuefling í sveitarfélögum - Leið að farsælum efri árum sem haldinn var í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði fimmtudaginn 28. september. Fyrirlesari var Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur.

Vel sóttur fyrirlestur Dr. Janusar Guðlaugssonar
Dr. Janus Guðlaugsson flytur erindi sitt.

Þóroddur Helgason fræðslustjóri hóf dagskrána og bauð Dr. Janus velkominn. Í máli sínu Þóroddur fjallaði stuttlega um verkefnið Heilsueflandi samfélag sem Fjarðabyggð er aðili að.  Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem lögð er áhersla á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi.

Því næst tók Dr. Janus til máls og í fyrirlestri sínum fór hann yfir doktorsverkefni sitt og niðurstöður rannsókna sinna um heilseflingu á þriðja æviskeiðinu. Dr. Janus lagði áherslu á að skipulögð hreyfing, þæði þol og styrktarþjálfun, ásamt réttu matarræði væri lykillinn að því að eldra fólk gæti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er. Hreyfing hefði auk þess jákvæð áhrif á getu fólks til að geta búið lengur í sjálfstæðri búsetu. Í seinni hluta erindi síns fjallaði Janus svo um hvað þarf til svo koma megi fjölþættri heilsueflingu fyrir hina eldri í framkvæmd í sveitarfélaginu.

Þegar erindu lauk var orðið gefið laust og viðstaddir höfðu möguleika á að spyrja Dr. Janus spurninga. Var tækifærið vel nýtt og sköpuðust góðar umræður.

Að lokum er gaman að segja frá því að það var íbúi í Breiðablik í Neskaupstað, Már Sveinsson, sem átti hugmyndina af því að fá Dr. Janus til að koma og halda erindi á Austurlandi. Már hafði frumkvæði að því að íbúar Breiðabliks sendu félagsmálanefnd Fjarðabyggðar bréf þar sem lagt var til að tómstundaherbergi sem þar er yrði betur nýtt með því að koma þar upp líkamsræktartækjum þar sem margir íbúanna gætu ekki stundað útihreyfingu yfir veturinn. Málið var samþykkt af félagsmálanefnd og síðar bæjarráði. Í kjölfarið fékk Már SÚN til að styrkja litlu líkamsræktarstöðina sem þeir og gerðu. Sem hluti af þessu ferli fannst Má nauðsynlegt að fá Dr. Janus austur til að hvetja eldri íbúa sveitarfélagsins til að byrja að hreyfa sig strax í dag!

Fleiri myndir:
Vel sóttur fyrirlestur Dr. Janusar Guðlaugssonar
Mynd úr nýrri líkamsræktaraðstöðu, Kroppakjöri, í Breiðabliki í Neskaupstað.