mobile navigation trigger mobile search trigger
09.02.2017

37. fundur fræðslunefndar

haldinn í Skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði, 8. febrúar 2017 og hófst hann kl. 16:30

 Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir Formaður, Óskar Þór Guðmundsson Aðalmaður, Elvar Jónsson Aðalmaður, Kjartan Glúmur Kjartansson Aðalmaður og Guðlaug Dana Andrésdóttir Varaformaður

 Áheyrnarfulltrúi: Eygló Aðalsteinsdóttir

 Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason

 Dagskrá:

1.

1611105 - Heimsókn í skólastofnanir

Fræðslunefnd heimsótti Skólamiðstöðina á Fáskrúðsfirði, skoðaði húsnæðið og hitti stjórnendur að máli. Sérstaklega var farið yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á elsta húsnæði grunnskólans og hvernig staðið verður að skólahaldi þar til úrbótum er lokið. Skólastjórnendum eru þakkaðar góðar móttökur og greinargóðar upplýsingar um skólahald.

2.

1701123 - Kjarasamningur KÍ vegna FG - Vegvísir samstarfsnefndar SNS

Fyrir liggur vegvísir að aðgerðaráætlun vegna bókunar 1 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Einnig liggur fyrir minnisblað fræðslustjóra þar sem farið er yfir þau verkefni sem bókun 1 kveður á um og greint frá þeim skrefum sem stigin hafa verið. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að vinna í Fjarðabyggð hafi byrjað í desember þegar bæjarstjóri boðaði til fundar með fræðslustjóra og trúnaðarmönnum kennara. Ákveðið var á fundinum að trúnaðarmenn hæfu hver í sínum skóla viðræður við kennara um þau atriði sem nefnd eru í bókun 1 og metið hvað gengi vel, hvað væri helst að og hvernig mætti bæta úr ágöllum. Einnig segir í minnisblaðinu að fundað hafi verið með skólastjórum grunnskólanna og farið yfir hlutverk skólastjóra í vinnunni, en það er mest fólgið í ráðgjöf varðandi greiningu á aðstæðum og mat á tillögum um hvernig megi bæta starfs- og vinnuumhverfi kennara. Bæjarráð hefur falið fræðslunefnd að vinna umbótaáætlun samkvæmt vegvísinum og skipa fulltrúa sveitarfélagsins í þeirri vinnu. Fræðslunefnd samþykkir að fulltrúar sveitarfélagsins verði fræðslustjóri, formaður fræðslunefndar og eftir atvikum bæjarstjóri og annað fræðslunefndarfólk. Fræðslunefnd samþykkir eftirfarandi verkáætlun: Fundað verði í hverjum skóla og gert ráð fyrir tveimur til þremur tveggja tíma fundum. Vinna verði sett af stað eigi síðar en 15. febrúar og vinnu lokið eigi síðar en 1. maí og vinnu við lokaskýrslu fyrir 1. júní. Fræðslunefnd leggur til að greitt verði fyrir fundarsetu kennara, en 3-4 kennarar eru frá hverjum skóla.

3.

1702020 - Frá foreldrafélögum leikskólana í Fjarðabyggð - hækkun mótmælt

Framlagt er bréf stjórnar foreldrafélaganna í Fjarðabyggð sem sent var til allra bæjarfulltrúa, bæjarstjóra og fræðslunefndar. Í bréfinu er mótmælt hækkunum á gjaldskrá leikskólanna og niðurfellingu á fjórum gjaldfrjálsum tímum á dag hjá elsta árgangi. Fræðslunefnd þakkar fyrir bréfið og sendir umsögn um bréfið til bæjarráðs Fjarðabyggðar. Í umsögninni kemur m.a. fram að vissulega séu bæði gjaldskrárhækkanir og niðurfelling á fyrrgreindum afslætti íþyngjandi fyrir fjölskyldur en eftir sem áður er gjaldskrá leikskóla í Fjarðabyggð vel samanburðarhæf við gjaldskrár annarra sveitarfélaga og sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að boðið er upp á leikskólaþjónustu fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Í nýrri könnun frá ASÍ frá 26. janúar þar sem bornar eru saman gjaldskrár 15 stærstu sveitarfélaga landsins liggur sveitarfélagið um miðbik. Þá má geta þess að systkinaafslættir eru með þeim bestu á landinu 50% af öðru barni og 100% af þriðja barni og einnig er veittur afsláttur milli skólastiga, leikskóla og frístundaheimila. Að lokum kemur fram að frá haustinu 2016 hafi sveitarfélagið getað boðið öllum börnum leikskólavist við 12 mánaða aldur með tilkomu nýja leikskólans á Norðfirði og í ár verða hannaðar viðbyggingar við leikskólana á Eskifirði og Reyðarfirði. Vísað til bæjarráðs til frekari umræðu.

4.

1406154 - Málefni flóttafólks 2015

Framlagt minnisblað fjölskyldusviðs vegna komu flóttafólks til Fjarðabyggðar í tengslum við erindi Velferðarráðuneytisins þar sem fjallað er um móttöku flóttamanna. Vísað frá bæjarráði til áframhaldandi vinnslu hjá fjölskyldusviði og umfjöllunar í félagsmálanefnd og til kynningar í fræðslunefnd.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30