mobile navigation trigger mobile search trigger
09.11.2017

48. fundur fræðslunefndar

haldinn í Molanum fundarherbergi 1, 8. nóvember 2017 og hófst hann kl. 16:30

Fundinn sátu:

Pálína Margeirsdóttir Formaður, Elvar Jónsson Aðalmaður, Kjartan Glúmur Kjartansson Aðalmaður, Guðlaug Dana Andrésdóttir Varaformaður og Aðalheiður Vilbergsdóttir Aðalmaður.

Gestur: Egill Jónsson, skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar

Áheyrnarfulltrúar: Birgir Jónsson, skólastjóri Grunnskólans á Eskifirði

Fundargerð ritaði: Þóroddur Helgason, fræðslustjóri

 Dagskrá:

1.

1709007 - Heimsókn skólastjóra til fræðslunefndar haustið 2017

Skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar gerði fræðslunefnd Fjarðabyggðar grein fyrir skólastarfinu og svaraði spurningum nefndarmanna. Fræðslunefnd þakkar skólastjóra fyrir greinargóðar upplýsingar.

2.

1705194 - Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2018

Farið var yfir fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2018 og starfsáætlun Fjarðabyggðar 2018, sem fóru til fyrri umræðu í bæjarstjórn 2. nóvember. Umræða um fræðslumál í starfs- og fjárhagsáætlunum rædd undir næsta lið Fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2018.

3.

1709028 - Fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2018 - Fræðslunefnd

Farið var yfir fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2018 og starfsáætlun í fræðslumálum fyrir árið 2018. Í fjárhagsáætlun sem fór til fyrri umræðu í bæjarstjórn 2018 eru fjárheimildir hækkaðar um rúmar 67 milljónir frá upphaflegri áætlun og m.a. komið að mestu til móts við fjölgun nemenda í leik- og grunnskólum sem og kostnaðarauka í tengslum við bókun 1 í kjarasamningi FG og SNS og nýjum samningi vegna skólamáltíða. Í áætluninni er gert ráð fyrir rekstrarniðurstöðu upp á 2.416.455 milljónum, þ.e. tekjum upp á 247.341 milljón, launum og launatengdum gjöldum 1.758.662 milljónir og öðrum rekstarkostnaði upp á 905.134 milljónum. Gert er ráð fyrir sama þjónustustigi og árið 2017. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að ljúka við fjárhagsáætlun miðað við úthlutaðan fjárhagsramma, en breytist forsendur á milli fyrri og seinni umræðu og tekjur sveitarfélagsins aukist óskar fræðslunefndin eftir viðbótarfjármagni í rammann. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að fylgja bókuninni eftir með minnisblaði til bæjarráðs.

4.

1710134 - Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands 2017

Aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands verður haldinn 17.nóvember 2017. Bæjarráð vísaði fjárhagsáætlun Skólaskrifstofu fyrir árið 2018 til fjárhagsáætlunargerðar og fræðslunefndar. Í fjárhagsáætlun Skólaskrifstofunnar fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir tekjum frá Fjarðabyggð upp á ca. 29,5 milljónir og er það um 4,3% hækkun milli ára sem stafar annars vegar af 3% launahækkun og hins vegar 1,3% hækkun á hlutfalli nemenda í Fjarðabyggð miðað við heildarfjölda nemenda á Austurlandi. Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir þessari hækkun á framlagi til Skólaskrifstofunnar.

5.

1705245 - Innkaupareglur Fjarðabyggðar - endurskoðun 2017

Innkaupareglur Fjarðabyggðar lagðar fram til kynningar.

6.

1710126 - Viðmiðunarreglur um úthlutun kennslutímamagns til grunnskóla í Fjarðabyggð

Í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2018 leggur fræðslunefnd til breytingu á úthlutunarreglum kennslutímafjölda til grunnskólanna í Fjarðbyggð. Breytingin varðar tímamagn til skólanna vegna tvítyngdra nemenda, þegar fjöldi nemenda er orðinn meiri en 20 nemendur í skólanum. Í stað þess að fylgi hverjum nemenda umfram 20 einn tími mun fylgja hálfur tími. Verið er að bregðast við auknum fjölda tvítyngdra nemenda og þeirri samlegð sem skapast við aukinn fjölda. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi breytingu.

7.

1707064 - Ytra mat á grunnskóla - Nesskóla

Lagt fram til kynningar ytra mat Nesskóla. Matið fór fram í september s.l. þar sem kallað var eftir fyrirliggjandi gögnum frá skóla, fengnar niðurstöður samræmdra prófa og framfarastuðlar frá Menntamálastofnun, farið í vettvangsheimsókn 12.-14. september og í vettvangsskoðun í 21 kennslustund. Rýnihópaviðtöl voru tekin við kennara, aðra starfsmenn, foreldra og nemendur úr 4. - 10. bekk og fulltrúa úr skólaráði. Einstaklingsviðtal var tekið við skólastjóra og rætt við aðra stjórnendur sameiginlega. Fræðslunefnd lýsir ánægju með ytra matið þar sem nefndir eru sterkir þættir í skólastarfinu og bent á tækifæri til umbóta. Ytra matinu verður fylgt eftir með umbótaáætlun.

8.

1710161 - Fyrirspurn til fræðslunefndar vegna rannsóknar

Fyrirspurn barst til fræðslunefndar frá foreldri vegna fyrirkomulags rannsóknar sem lögð var fyrir nemendur í grunnskóla og framhaldsskóla haustið 2017. Rannsakendur höfðu fengið leyfi fræðslustjóra og skólastjóra viðkomandi grunnskóla þegar fyrir lá að rannsókninni væri stjórnað af lektor við HÍ og tekið fram að meðhöndlun allra rannsóknagagna yrði samkvæmt ströngustu reglum um trúnað og nafnleynd og farið yrði eftir íslenskum lögum er varða persónuvernd, vinnslu og eyðingu frumgagna. Einnig lá fyrir að rannsakendur myndu halda kynningafund fyrir foreldra og fá samþykki nemenda og foreldra. Fræðslunefnd leggur áherslu á að reglum um upplýst samþykki sé ætíð fylgt. Nefndin felur fræðslustjóra að svara fyrirspurninni og koma áleiðis athugasemdum til rannsakenda.

9.

1711014 - Ytra mat á leikskólum 2018

Bréf hefur borist frá Menntamálastofnun þar sem fram kemur að ytra mat verði lagt fyrir í 6 leikskólum árið 2018. Leikskólinn Lyngholt hefur nýlega farið í slíkt mat og leikskólastjórar annarra leikskóla í Fjarðabyggð vilja gjarnan fá ytra mat á sínum skólum. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að sækja um fyrir aðra leikskóla en Lyngholt.

10.

1311034 - Niðurstöður úr Skólavoginni

Farið var yfir gögn sem nú eru aðgengileg í Skólavoginni, matstæki fyrir skóla. Gögnin eru rekstrarupplýsingar leik- og grunnskóla 2016 og nemendakönnun grunnskóla 2017-2018. Niðurstöður nemendakönnunar sem framkvæmd var nú í haust verða kynntar starfsfólki og skólaráðum og verða aðgengilegar á heimasíðum grunnskólanna. Ánægjulegt er að sjá að ánægja á lestri, stærðfræði og náttúrufræði er yfir meðaltali en lakara að enn hafa nemendur ekki næga trú á eigin vinnubrögð í námi og námsgetu. Vellíðan er hins vegar mikil sem er ánægjulegt að sjá og eins er með samband nemenda við kennara. Einnig var farið yfir niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7. bekk haustið 2017. Líkt og síðasta ár eru nemendur í Fjarðabyggð ofan við landsmeðaltal í bæði íslensku og stærðfræði í 4. bekk en neðan við landsmeðaltal í báðum greinum í 7. bekk. Hafa ber í huga að prófin eru fyrst og fremst leiðbeinandi mat og niðurstöður sendar til heimila og skóla. Nemendur og skólar nýta í framhaldi niðurstöðurnar til þess að skipuleggja námið þannig að það verði sem árangursríkast.

11.

1711042 - Lokaskýrsla samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara

Lokaskýrsla samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara lögð fram til kynningar. Fræðslustjóri gerði grein fyrir framgangi umbótaáætlana í grunnskólum Fjarðabyggðar, en náið er fylgst með framgangi þeirra og miðar vel.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:54