mobile navigation trigger mobile search trigger

Læsisstefna Fjarðabyggðar - Læsi er lykillinn

Árið 2015 ritaði Fjarðabyggð undir læsissáttmála við mennta- og menningarmálaráðuneytið og samtökin Heimili og skóla. Frá undirskrift sáttmálans hefur verið unnið í samræmi við hann í skólum Fjarðabyggðar. Meðal annars hefur verið farið í samstarfsverkefni með öðrum skólum á  Austurlandi og kennsluráðgjöf við Skólaskrifstofu Austurlands hefur verið aukin. Áhersla hefur verið lögð á snemmtæka íhlutun, bæði í leik- og grunnskólum, og samhliða farið í þróunarverkefni tengd lestri. Teknar hafa verið upp leiðbeinandi skimanir sem Skólaskrifstofa Austurlands  hefur haldið utan um, en þær gagnast nemendum, kennurum og foreldrum til þess að fylgjast með framþróun í námi og hjálpa til við setningu raunhæfra markmiða.

Eitt af þeim atriðum sem kveðið var á um í læsissáttmálanum var gerð læsisstefnu fyrir Fjarðabyggð og lauk þeirri vinnu í árslok 2018.

Í starfshóp um gerð læsisstefnu sátu:

Björg Þorvaldsdóttir, kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Austurlands

Bylgja Þráinsdóttir, sérkennari við Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar

Guðrún Bóasdóttir, sérkennslustjóri við Leikskólann Lyngholt

Jarþrúður Ólafsdóttir,  kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Austurlands

Sigurbjörn Marinósson, forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands

Þóroddur Helgason, fræðslustjóri Fjarðabyggðar

Starfshópurinn lagði til að Fjarðabyggð gerði læsisstefnuna “Læsi er lykillinn”, sem er læsisstefna skóla á Eyjafjarðarsvæðinu, að læsisstefnu Fjarðabyggðar. Stefnan er afrakstur þriggja ára þróunarverkefnis skóla á Eyjafjarðarsvæðinu, Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri og fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Góðfúslegt leyfi fékkst frá Akureyrarbæ og Miðstöð skólaþróunar að nýta stefnuna sem læsisstefnu Fjarðabyggðar. Skólarnir í Fjarðabyggð og kennsluráðgjafar Skólaskrifstofu Austurlands hafa verið í miklu samstarfi við Miðstöð skólaþróunar í þróunarverkefninu “Bættur námsárangur í læsi og stærðfræði” og læsisstefnan “Læsi er lykillinn” fellur afar vel að því verkefni.

Á heimasíðu verkefnisins má finna fjölbreytt efni sem kennarar geta nýtt til að meta stöðu nemenda og skipuleggja kennslu, leiðbeiningar fyrir foreldra o.fl. Síðuna má finna með því að smella hér.