mobile navigation trigger mobile search trigger

Ofanflóðavarnir Eskifirði

Stór hluti af ofanflóðahættu á Eskifirði stafar af aur-, krapa- og vatnsflóðum. Ofanflóðavörnum er ætlað að verja öll íbúarhús á Eskifirði sem eru á hættusvæði C samkvæmt hættumati sem unnið var fyrir Eskifjörð árið 2002. Á þessu svæði er svokölluð staðaráhætta mest af þeim þremur A, B og C hættusvæðum sem matið fjallar um. Ekkert íbúðarhús verður innan hættusvæðis C að framkvæmdum loknum. Hluti byggðarinnar verður áfram á hættusvæðum A og B, en varnir þessa svæða felast í eftirliti og viðbúnaði ef hætta er talin á ofanflóðum. Sérstakar mótvægisaðgerðir vega upp á móti því umhverfisraski sem á sér stað á framkvæmdatíma.

Framkvæmdir felast í ofanflóðavörnum sem gerðar verða við farvegi Bleiksár, Grjótár, Lambeyrarár, Ljósár og Hlíðarendaár og verða þær boðnar út í fimm aðskildum verkefnum. Framkvæmdasvæði nær frá fjöru, upp í gegnum byggðina og upp á fyrstu hjalla í hlíðinni ofan byggðar. Varnarframkvæmdir eru einkum tvenns konar eða leiðigarðar annars vegar og stoðveggir hins vegar. Einnig er nauðsynlegt að breikka og dýpka árfarvegi. Skipulagsstofnun úrskurðaði að framkvæmdir feli ekki í sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kostaður greiðist 90% af Ofanflóðasjóði og 10% af sveitarfélaginu. Eftirfarandi framkvæmdir hafa verið boðnar út: 

Ljósá

Á myndum hér að ofan eru yfirlitsmyndir sem lýsa framkvæmdum við ofanflóðavarnir í Ljósá ásamt mótvægisaðgerðum. Varnarvirki fela í sér nýja brú yfir Strandgötu, nýja brú yfir Steinholtsveg, steypta leiðiveggi og farveg með hlöðnum og steyptum veggjum. Áhersla verður lögð á að nýta grjót á staðnum við vegghleðslur.

Auk þess sem mótvægisaðgerðum er ætlað að laga varnarvirki að umhverfi, verður tekið sérstakt tillit til nálægðar við byggð. Einnig verða kostir nýttir til aukinnar útiveru og aðgengis að náttúrunni meðfram árveginum. Þá verður gerður nýr áningastaður með fjórum bílastæðum austan megin árinnar við Strandgötu.

Verktaki er Héraðsverk og eftirlit með framkvæmdunum er í höndum Sigurðar Hlöðverssonar frá Framkvæmdasýslu ríkisins og Gunnars Larssonar frá Mannvit. Áætlað er að heildarframkvæmdum ljúki 15. júní 2018 en vinnu við farveg og brýr ljúki 5. desember 2017. Unnið verður að umhverfisfrágangi vorið 2018 og mun honum ljúka 15. júní

Framkvæmdasvæði við Ljósá er takmarkað og munu verktakar athafna sig í árfarveginum. Sérstök áhersla er lögð á að vernda gróður og verja minjar neðan við gömlu rafstöðina. Þá er sérstök áhersla lögð á að landslagshönnun styrki og fegri umhverfið og er í þeim efnum m.a. litið til útilýsingar og yfirborðsfrágangs á steyptum flötum.

Hlíðarendaá

Á myndum hér að ofan eru afstöðumyndir sem lýsa varnarvikjagerð í Hlíðarendaá ásamt mótvægisaðgerðum. Helstu mótvægisaðgerðir felast í göngustígagerð, uppgræðslu og umhverfisfegrun. Inn á myndirnar vantar nýja brú sem ákveðið var að leggja yfir Strandgötu í desember 2015 sem viðbótaraðgerð.

Á myndnum hér að neðan má sjá innfelldar myndir af göngubrú sem tengir saman útivistarsvæði austan og vestan megin Hlíðarendaár. Að vestan verðu liggur göngustígur að nýjum áningarstað við göngustíg ofan Steinholtsvegar. Að austanverðu verður lagður göngustígur með þrepum sem liggur upp að Svínaskálahlíð.

Ofanflóðavarnir í Hlíðarendaá hófust í júlí 2015 og eru framkvæmdalok áætluð um og upp úr 20. apríl 2016, með fyrirvara breytingar. Um hönnun á umhverfisfrágangi og umhverfisfegrun sér Landmótun. Verktaki er Héraðsverk og eftirlit með framkvæmdum hefur Verkís.

Jarðvegur sem losnar um vegna framkvæmdanna verður nýttur í snúningssvæði, sem verið er að útbúa fyrir almenningssamgöngur neðan Strandgötu.

Sjá uppdrátt af snúningsplani

Bleiksá

Gert er ráð fyrir því að farvegur verði dýpkaður og breikkaður frá því ofan við kirkju og niður undir brú á Strandgötu. Um er að ræða dýpkun og breikkun að brúnni í þeim tilgangi að draga úr hættu á að flóð kastist yfir veg. Enn fremur er gert ráð fyrir fleyglöðuðum leiðigarði milli kirkju og farvegar sem liggur upp með ánni, upp í urð- og mólendi ofan hennar og niður eftir að vestanverðu. Straummegin er gert ráð fyrir að efsti hluti þessa garðs verði allt að því lóðréttur og um þriggja metra hár þar sem hann er hæstur. Mótvægisaðgerðir vegna rasks á umhverfi felast m.a. í gróðurþekju og umhverfisfegrun, sem unnið verður að næstu misseri að framkvæmdum loknum. 

Framkvæmdir vegna Bleiksár hófust í septmeber 2014 og lauk í júní ári síðar. Hönnuðir, verktaki og eftirlitsaðili eru þeir sömu og vegna Hlíðarendaár.