mobile navigation trigger mobile search trigger

Umhverfisviðurkenning Fjarðabyggðar

Umhverfisviðurkenning Fjarðabyggðar er veitt árlega í þremur aðskildum flokkum eða fyrir snyrtilegustu lóð í þéttbýli, snyrtilegastu lóð í dreifbýli og snyrtilegustu lóð fyrirtækis eða stofnunar. Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd fer með úthlutun viðurkenninga. Umsjón með framkvæmd hefur skipulags- og umhverfisfulltrúi.

Óskað er eftir tilnefningum í ágúst og september og er þeim sem eru með lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að tilnefna í öllum flokkum innan þess tímafrests sem auglýstur er. Umhverfis- og skipulagsnefnd skipar dómnefnd, sem sker á faglegum grunni úr um hver þeirra tilnefndu hreppir hnossið. 

Umhverfisviðurkenningar 2019

Umhverfisviðurkenningar Fjarðabyggðar fyrir snyrtilegustu lóð í þéttbýli, dreifbýli og fyrirtækis í fjórða sinn þann 25. október 2019.

Alls bárust 15 tilnefningar til verðlaunanna og urðu eftirfarandi hlutskarpastir:

Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð í þéttbýli hlutu hjónin Friðrika Björnsdóttir og Þorvaldur Einarsson, Fossgötu 6, Eskifirði. 
Umsögn dómnefndar: Afar fallegur garður með fjölbreyttu plöntuvali, ásýnd lóðar er til fyrirmyndar í alla staði. Garðurinn er falin perla.

Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð í dreifbýli hlaut Golfklúbbur Byggðarholts á Eskifirði. 
Umsögn dómnefndar: Umgjörð vallar er falleg og stílhrein og húsin fallega uppgerð. Einstaklega fallegt íþróttamannvirki. 

Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis hlaut Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. 
Umsögn dómnefndar: Einstaklega fallegt svæði, þar sem öllu er vel við haldið. Metnaður, vinnusemi og snyrtimennska lýsa vel starfseminni. Yndisgarður Fjarðabyggðar.

Umhverfisviðurkenningar 2018

Umhverfisviðurkenningar Fjarðabyggðar voru veittar í þriðja sinn þann 20. október 2018

Alls bárust ellefu tilnefningar. Fagnefnd skoðaði þær allar og gaf hverri lóð fyrir sig einkunn sem var gefin út frá hinum ýmsu þáttum s.s. skipulagi, umhirðu, tegundasamsetningu, snyrtimennsku, viðhaldskröfum o.m.fl.   

Við dómsmat á tilnefndum lóðum einkaaðila og fyrirtækja kom upp sú staða að tvær einkalóðir voru jafnar að stigum og hljóta þær því báðar umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar.

Umhverfisviðurkenningar Fjarðabyggðar 2018:

Snyrtilegasta lóð í þéttbýli: Blómsturvellir 33, 740 Neskaupstað, eigendur Ernu Guðjónsdóttur og Kristins Þórs Ingvarssonar.
Umsögn dómnefndar: Í haustskrúðanum er garðurinn eins og fegursta málverk.

Snyrtilegasta lóð í þéttbýli: Blómsturvellir 45, 740 Neskaupstað, eigendur Sigurborgu Kristinsdóttur og Tómas R. Zoéga.
Umsögn dómnefndar: Pallur og gróðursvæði gefa garðinum ævintýrablæ.

Snyrtilegasta lóð fyrirtækis eða stofnunar: Ferðaþjónustan Mjóeyri Strandgata 120, 735 Eskifjörður, eigendur Berglind Steina Ingvarsdóttir og Sævar Guðjónsson.
Umsögn dómnefndar: Ferðaþjónustan á Mjóeyri nær að fanga staðarandann, svæðið allt tónar vel við gamla hluta Eskifjarðarbæjar.

Snyrtilegasta lóð í dreifbýli: Í ár barst engin tilnefning fyrir snyrtilegustu lóð í dreifbýli og því var ekki veitt viðurkenning í þeim flokki.

Umhverfisviðurkenningar 2017

Umhverfisverðlaun Fjarðabyggðar voru veitt í annað sinn á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði fimmtudaginn 12. október. Viðurkenningar voru veittar í þremur flokkum; fyrir snyrtilegustu lóð við íbúðarhús, snyrtilegasta umhverfi íbúðarhúss í dreifðri byggð og snyrtilegustu fyrirtækjalóð. Óskað var eftir tilnefningum frá íbúum í Fjarðabyggð og bárust alls 11 tilnefningar á öllum flokkum.

Til hægri: Handhafar umhverfisverðlauna Fjarðabyggðar 2017 ásamt bæjarstjóra, umhverfisstjóra og varafomanni ESU. (f.v) Ragnar Sigurðsson, varaformaður ESU, Sigurður Baldursson og Dagbjört Briem Gísladóttir, Sléttu, Ari B. Guðmundsson og Jóna Björg Margeirsdóttir, Hæðargerði 23, Petra Sveinsdóttir frá Steinasafni Petru, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri og Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri.

ÁBENDINGAR

Hægt er að senda inn ábendingar í gegnum ábendingagátt Fjarðabyggðar:

https://www.fjardabyggd.is/abending

Umsjón

Skipulags- og umhverfisfulltrúi Fjarðabyggðar,