mobile navigation trigger mobile search trigger
13.09.2014

Algengar spurningar og svör um SO2 gosmengun

Tekið af upplýsingasíðu Umhverfisstofnunar um gosmengun í lofti

Spurt: Getur Bárðarbunga verið hættuleg fyrir okkur hér á Austurlandinu? Hvernig hætta gæti komið út af henni og hvað á maður að gera ef versta tilfellið verður? Er hægt að undirbúa sig? Hvernig verður fólkið upplýst? 

Svarað: Það er best í þessum aðstæðum að halda ró sinni og fylgjast vel með fréttum og þá sérstaklega tilmælum frá Almannavörnum. Jarvísindastofnun hefur sett fram þrjár sviðsmyndir um mögulegt gos í Báraðarbungu en þar er tekið fram að mikil óvissa sé um framvindu. http://jardvis.hi.is/hugleidingar_um_oskjusig_i_bardarbungu_og_mogulegar_svidsmyndir. Hvað varðar sérstakan undirbúning almennings þá er hann ótímabær og sem fyrr segir best að meta stöðuna eins og hún blasir við á hverjum degi og fylgjast grannt með. Unnið er í upplýsingum á ensku fyrir vef Umhverfisstofnunar www.ust.is og birtist innan tíðar en fréttir á ensku má nálgast á vef RÚV.

 

Spurt: Getur þessi mengun haft áhrif á fóstur hjá ófrískum konum? Eru ófrískar konur í hættu?

Svarað: Nei. Ófrískar konur eru ekki í meiri hættu en aðrir, segir Sóttvarnalæknir.

 

Spurt: Gætu ungabörnum í vagni orðið meint af útiverunni? Ætti ég að fylgjast með einhverjum einkennum hjá honum? Á ég að hafa gluggana lokaða heima hjá mér? 

Svarað: Ekki umfram annað fólk enda eru þau í hvíldarstöðu í vagninum, segir Sóttvarnalæknir. Ef viðkvæmu fólki er ráðlagt að halda sig inni við gildir það sama um ungabörnin. Ekki er hægt að mæla með því að ungabörn sofi úti í vögnum meðan sjáanleg mengun er utandyra. Hvað gluggana varðar er hyggilegt að fylgja almennt því sem segir í þessari töflu og gera sömuleiðis þær ráðstafanir þegar Veðurstofan var við háum toppum.

 

Spurt: Mig langaði að forvitnast um áhrif brennisteinsmengunar á dýr, þá sérstaklega hunda og ketti. Einnig hvort þessi gosefni sem flugu hér yfir í gær (á Reyðarfirði) eru eitthvað að falla til jarðar og hvort ég eigi að sleppa því að hleypa dýrunum út í einhvern tíma á meðan það er að hreinsast. 

Svarað: Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun um loftmengun í kjölfar eldgoss er almennt mikilvægt að tryggja svo kostur er að skepnur gangi ekki á landi nálægt gosstöðvum þar sem hætta er á loftmengun. Koltvísýringur sest í lægðir og getur valdið köfnun.

Forðast álag á skepnur þegar loftmengun er mikil, t.d. hlaup og streituvaldandi aðstæður. Brennisteinsdíoxíð veldur m.a. ertingu í öndurfærum og augum. 

Matvælastofnun hefur svarað þessum spurningum í tilkynningu. Hafirðu frekari spurningar um þetta efni þá bendum við þér á að senda fyrirspurn á mast@mast.is eða hringja í síma 530-4800 en Matvælastofnun sér um allt sem snýr að dýrum og matvælum. 

 

Spurt: Hér á Seyðisfirði þurfum við nauðsynlega að fá einhverja hjálp og leiðbeiningar um útiveru barnanna. Er ekki hægt að koma upp einhverjum mælitækjum, eða gefa okkur upp ábendingar varðandi vindátt og mögulega móðumengun? Það eru nokkrir loftmengunarmælar til í Reykjavík þar sem verið er að mæla loftmengun vegna útblásturs bifreiða.

Svarað: Það eru ekki til nein áreiðanleg gögnum um að börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir SO2, segir Sóttvarnalæknir. Allur er þó varinn bestur og skynsamlegt að meðhöndla þau á sama hátt og fólk meðundirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Hér er taflasem sýnir fólki rétt viðbrögð út frá styrkleika mengunar.

Þú ættir að fylgjast með viðvörunum um hvert mengunin stefnir á vef Veðurstofunnar Við erum með öll okkar mælitæki í notkun og fáum öruggar mælingar bæði frá Egilsstöðum og Reyðarfirði sem gefa okkur traustar upplýsingar um loftgæði á þeim stöðum. Eins og er höfum við ekki fleiri mæla til umráða en verið er að kanna möguleika til að þétta mælanetið. Þó ekki sé mælistöð t.d. á Seyðisfirði mælum við engu að síður með því fólk skoði bæði mælingar á Egilsstöðum og Reyðarfirði á síðunni loftgæði.is. Þær upplýsingar ásamt spá Veðurstofunnar um dreifingu brennisteinsdíoxís hjálpa til að gera sér grein fyrir líkum á mengun. Að auki er gagnlegt að styðjast við sjónmat en SO2 móðan hefur verið vel sýnileg og ef fólk sér greinilega að þokan er að magnast eða þykkur bakki nálgast þarf að bregðast við í samræmi við það. Aðstæður bjóða þó ekki alltaf upp á sjónmat eins og t.d. í myrkri, hefðbundinni þoku eða rigningu en ef styrkur eykst að ráði finnur fólk venjulega fyrir einkennum í hálsi og/eða augum. Almenna ráðið ef fólk heldur að mengun sé að aukast að ráði er að halda sig innandyra, loka gluggum og hækka hitan í húsum og slökkva á loftræstingu þar sem það á við.

 

Spurt: Eigið þið hjá Umhverfisstofnun til lista yfir mismunandi magn brennisteinsdíoxíðsmengunar og hvernig mismundi grímur geta varið öndunarfæri ? 

Svarað: Já, við erum með töflu sem sýnir skýrt hvað áhrif mismunandi styrkur brennissteinsdíokíðsmengunar hefur bæði á þá sem sem er heilbrigðir og svo hina sem veikari eru fyrir. Hvað grímurnar varð þá duga rykgrímur og einföld hlífðargleraugu ekki því um er að ræða gas en ekki ösku. Aðeins gasgrímur duga til að verjast brennisteinsdíoxíði. Þar sem mengunin kemur í stuttum toppum í byggð er ekki ástæða að mæla með því við almenning að koma sér upp slíkum búnaði. Rakur klútur fyrir vitum getur þó komið að einhverju gagni ef fólk þarf nauðsynlega að vera úti þegar topparnir ganga yfir.

 

Spurt: Er nokkur leið að vita fyrirfram hvenær búast má við mengunartoppum?

Svarað: Já Veðurstofan gefur daglega út spá um dreifingu brennisteinsdíoxiðs á vefsíðu sinni

 

Spurt: Er í lagi að skoða gosið ef ég er rétt utan við lokunarsvæðið? 

Svarað: Þeim mun nær sem þú ert gosinu þeim mun meiri styrkur er í umhverfinu. Þetta þarf að meta vandlega hverju sinni. Talsvert hár styrkur brennisteinsdíoxíðs getur verið utan lokunarsvæðis eins og dæmin sanna. Ekki er hægt að mæla með því að nálgast gosstöðvarnar ef vindátt er þannig að vind leggur frá gosstöðvunum að þeim stað sem maður er staddur á. Mikið hitauppstreymi er frá hrauninu og í raun skapar það sitt eigið veðrakerfi og vísindamenn á svæðinu hafa skýrst frá því að vindátt geti breyst mjög snöggt nálægt gosstöðvunum þó svo að meginvindur í landshlutanum sé stöðugur.

Frétta og viðburðayfirlit