Fara í efni

Náttúra

Í Fjarðabyggð eru tveir friðlýstir fólkvangar. Fólkvangurinn í Neskaupstað, við rætur Nípunnar, var fyrsti friðlýsti fólkvangur landsins og tók friðlýsingin gildi árið 1972. Hólmanes, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, er friðlýst sem fólkvangur og að hluta sem friðland.

Í fólkvöngunum er mikil náttúrufegurð sem og í sveitarfélaginu öllu og Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar er nú talið eitt af vinsælustu göngusvæðum landsins og hafa félagar í Ferðafélagi Fjarðamanna stikað þar fjölmargar gönguleiðir, eins og víða annars staðar í sveitarfélaginu og gert það þannig aðgengilegt ferðamönnum.

Í nágrenni bæjarins Helgustaða í norðanverðum Reyðarfirði er ein þekktasta silfurbergsnáma í heimi. Þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar.

Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti og eru nú uppi áætlanir af hálfu sveitarfélagsins og Náttúrustofu Austurlands um að opna hana að nýju svo hægt sé að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris.

Ein af perlum Fjarðabyggðar er skíðasvæðið í Oddsskarði en þar eru tvær lyftur hvor upp af annarri samtals um 1200 metra langar. Efri lyftan hefst í 513 metra hæð og þegar komið er upp á topp, í 840 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við ægifagurt útsýni yfir Reyðarfjörð og norður í Norðfjörð. Einnig er á svæðinu barnalyfta og glæsilegur skíðaskáli með veitingaaðstöðu.

Aðra perlu má svo finna rétt innan við þorpið í Breiðdal. Þar er Meleyri, 3 km löng strönd, þar sem hægt er að njóta náttúrunnar í návígi við hafið.

Síðast uppfært: 27.08.2025