Fatlað fólk getur mætt áskorunum í daglegu lífi. Ráðgjöf fyrir fatlað fólk felur í sér persónulegan stuðning og leiðsögn fyrir einstaklinga. Markmið ráðgjafar er að aðstoða fólk við að þekkja þjónustuna sem er í boði og aðstoða við að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Hægt er að óska eftir viðtali við ráðgjafa í síma 470 9000 eða í gegnum netfangið felagsthjonusta@fjardabyggd.is.
Fatlað fólk

Til að eiga rétt á þjónustu þurfa umsækjendur að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Eiga lögheimili í Fjarðabyggð.
- Vera metin í þörf fyrir stuðning samkvæmt reglum Fjarðabyggðar um stuðningsþjónustu.
- Foreldrar fari með forsjá með þeim börnum sem stuðningur snýr að.
- Fyrsta skref í að sækja um þjónustu er að bóka samtal hjá ráðgjafa fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar.
Sótt er um alla þjónustu í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar.
Fatlað fólk sem fellur undir reglur Fjarðabyggðar um félagslegt leiguhúsnæði getur sótt um félagslega leiguíbúð í Fjarðabyggð. Á eyðublaðinu skal merkja við ef þörf er á sérstöku húsnæði vegna fötlunar og skal þá gera mat á þeirri þörf áður en íbúð er úthlutað.
Í Fjarðabyggð er einn búsetukjarni með sólarhringsþjónustu, staðsettur við Búðareyri 10, Reyðarfirði. Þar eru sex íbúða búsetukjarni ásamt skammtímadvöl fyrir fötluð börn.
Stuðningsþjónusta fyrir fullorðið fatlað fólk mætir því á þeim stað sem það er á í lífinu og fer fram þar sem best hentar, hvort sem það er á heimili þess, utan heimilis eða í gegnum rafrænar lausnir. Fólk fær stuðning við að útfæra þjónustuna þannig að hún styðji það við að lifa sjálfstæðu lífi, fást við dagleg verkefni og efla þátttöku sína í samfélaginu.
Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Fatlað fólk með NPA stýrir sjálft fyrirkomulagi þjónustunnar, ákveður hvaða aðstoð er veitt, hvernig hún er skipulögð og hver veitir hana.
Einnig geta notendasamningar m.a. verið beingreiðslusamningar þar sem fatlað fólk stýrir sjálft fyrirkomulagi þjónustunnar.
Fyrsta skrefið í að sækja um notendasamninga er að bóka samtal hjá ráðgjafa.
Stuðningsfjölskyldur veita foreldrum stuðning við foreldrahlutverkið. Hlutverk þeirra er m.a. að veita foreldrum tækifæri til hvíldar, styrkja stuðningsnet barnanna og auka möguleika þeirra á félagslegri þátttöku. Sótt er um rekstrarleyfi sem stuðningsfjölskylda hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
Sjá nánar hér: Rekstrarleyfi sem stuðningsfjölskylda
Stuðningsþjónusta fyrir börn og fjölskyldur þeirra felur í sér fjölbreyttar lausnir sem eru útfærðar eftir þörfum hvers og eins. Foreldrar geta fengið stuðning við uppeldishlutverk sitt og börn fá stuðning til að auka virkni, bæta samskipti og efla sjálfstraust sitt.
Fatlað fólk er hvatt til að sækja um auglýst störf hjá Fjarðabyggð. Ef af ráðningu verður er reynt að mæta sérhæfðum þörfum starfsfólks eftir bestu getu. Þegar þörf er á aðstoð við atvinnuleit, þjálfun eða stuðning við vinnu á almennum markaði getur atvinna með stuðningi (AMS) hentað, en sú þjónusta er á vegum Vinnumálastofnunar.
Sjá nánar hér: Vinnumálastofnun
Fatlað fólk sem ekki er fært um að sinna almennum störfum og þarf umfangsmeiri aðstoð getur sótt um verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun sem sniðin er að þörfum hvers og eins hvað varðar stuðning, tímalengd og verkefni.
Sjá nánar hér: Virkniþjálfun
Vinnumálastofnun tekur við umsóknum og boðar þig í kjölfarið í viðtal þar sem næstu skref eru ákveðin.
Sjá nánar hér: Vinnumálastofnun
Ef að niðurstaðan er sú að vernduð vinna, hæfing eða virkniþjónusta henti þér sendir Vinnumálastofnun málið áfram til viðeigandi sveitarfélags.
Á Austurlandi er Hæfing/Iðja staðsett í Stólpa, Lyngási 2, 700 Egilsstöðum.
Fatlað fólk sem getur ekki nýtt sér almenningssamgöngur eða eigið farartæki getur átt rétt á akstursþjónustu. Aksturþjónustan er ætluð einstaklingum sem eiga lögheimili í Fjarðabyggð sem vegna skertrar líkamlegrar og andlegrar færni sem rekja má til fötlunar þurfa stuðning við að sækja atvinnu, nám og/eða notið tómstunda og afþreyingar.
Megintilgangur er að fólk geti stundað vinnu, nám, notið heilbrigðisþjónustu, hæfingar og þjálfunar hvers konar og tómstunda. Þjónustusvæði akstursþjónustu er Fjarðabyggð.
Fatlað fólk getur átt rétt á styrk, annars vegar til að greiða námskostnað og hins vegar til að kaupa verkfæri eða tæki. Markmið styrkjanna er að auka þátttöku fatlaðs fólks í félagslífi og atvinnu með því að auðvelda því að afla sér menntunar, færni og reynslu.
Umsóknir eru afgreiddar einu sinni á ári í mars.
Aðstoðarmannakort er ætlað þeim einstaklingum sem þurfa aðstoð aðstoðarmanns til þess að geta farið í sund í sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Með aðstoðarmannakorti fær aðstoðarmaður umsækjanda frítt í sund þegar hann fylgir þeim einstaklingi sem kortið er skráð á.
Mat ráðgjafa fjölskyldusviðs liggur til grundvallar samkvæmt viðmiðum s.s. SIS mati og mati á stuðningsþörf.
Skammtímadvöl er fyrir fötluð börn og ungmenni. Hlutverk skammtímadvalar er að veita börnum kost á að dvelja tímabundið utan heimilis síns og veita fjölskyldum þeirra stuðning.
Fjarðabyggð rekur búsetuþjónustu og skammtímavistun fyrir fötluð börn við Búðareyri 10.
Reglur:
Gjaldskrá
Þjónustuþegar greiða fyrir aðstoð við almenn heimilisstörf, heimsendingu matar og akstur.
Snjómokstur er innheimtur sérstaklega.
Aðstoð við almenna stuðningsþjónustu
Fullt gjald fyrir almenna stuðningsþjónustu er 1.854 krónur fyrir hvern unnin tíma.
Aldrei er þó innheimt fyrir meira en tvo tíma á viku og er almenn þjónusta umfram það gjaldfrjáls.
Niðurfelling gjalds fyrir stuðningsþjónustu
Sótt er um niðurfellingu gjalda í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar. Umsóknir um niðurfellingu gjalda þarf að endurnýja árlega í gegnum íbúagátt. Skili þjónustuþegi ekki inn umsókn og tekjuupplýsingum, greiðir hann fullt gjald. Niðurfelling gjalda gildir ekki fyrir heimsendingu matar eða akstur.
Heimsendur matur
Hver máltíð kostar 1.615 krónur.
Akstur á vegum heimaþjónustu
Aksturþjónusta innan þess byggðarkjarna sem þjónustunotandi á lögheimili er gjaldfrjáls.
Ferðir sem samþykktar eru í þjónustusamningi eða vegna sérfræðiaðstoðar eru greiddar 596 krónur á hvern km.
Fyrir aðrar ferðir utan byggðarkjarnans skal greitt skv. gjaldskrá Ferðakostnaðarnefndar fjármálaráðuneytis.
Snjómokstur
Snjómokstur er einungis veittur einstaklingum sem:
a) Falla undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og
eða
b) Eru eldri einstaklingar og/eða öryrkjar sem hafa nú þegar stuðningsþjónustu inná heimili,
geta ekki mokað sjálfir og búa ekki með einstaklingi sem er fær um að moka.
Snjómokstur er aðeins framkvæmdur samkvæmt beiðni félagsþjónustunnar.
Sækja þarf um þjónustuna hjá félagsþjónustunni, umsóknir fara fram í gegn um íbúagáttina.
Þessari þjónustu verður ekki sinnt fyrr en að forgangsmokstri er lokið eða samkvæmt ákvörðun verkstjóra.
Hver snjómokstur kostar 9.2665 krónur.
Ef að óskað er eftir vélmokstri, kostar 17.820 krónur. að stinga út úr bílastæði.
Snjómokstur lýtur sömu reglum um niðurfellingu gjalda og önnur stuðningsþjónusta.
Innheimta
Gjöld eru innheimt mánaðarlega og berast reikningar í heimabanka. Greiðsluseðlar berast ekki heim með pósti nema sérstaklega sé óskað eftir því.
Tekjumark fyrir árið 2025
Við ákvörðun tekjumarka fyrir árið 2025 er miðað við upphæðir bóta almannatrygginga 1. janúar 2025.
Málskot
Heimilt er að skjóta ákvörðun um synjun um niðurfellingu gjalds fyrir stuðningsþjónustu til
Úrskurðarnefndar velferðarmála, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík eða www.urvel.is
Skal það gert skriflega og innan þriggja mánaða frá því notanda var kunnugt um ákvörðun.